Reykjavík 1957 VI

 Eitt kvöldið hitti Kratch fyrrverandi Þýskan sjóliða í bænum sá hét Júlíus Schopka og hafði strokið af seglskipi sem hafði losað hér vörur. Scopka fékk vinnu hjá Funk og þá var farið að opna stundvíslega á morgnana. Nýlegar rannsóknir sagnfræðinga hafa leitt í ljós að Schopka var leynilegur erindreki Þýska flotans á Íslandi. Var hann ráðinn til starfans af Wilhelm Canaris sem var skipherra á herskipi sem kom hingað í kurteisisheimsókn. Úti í Skerjafirði var Shell að byggja olíustöð sem margir sögðu að væri bara dulbúin flotastöð þar í nágrenninu fór Schopka nú að byggja heljarstórt hús sem starfsmenn Funk unnu við þegar lítið var að gera úti á markaðnum. Eitt af því sem SS maðurinn Paul Burkert átti að hafa gert af sér var að fá lánaða peninga hjá Funk og gleyma að borga. Annað gleymdist líka í þessu sambandi, sá sem sá um peningamálin fyrir Funk hét Schopka og átti að liðsinna Þýskum erindrekum þegar mikið lægi við. Við Stebbi þeyttumst um allar jarðir á skellinöðrunum þegar við áttum frí úr vinnuni, oft fórum við til Hafnarfjarðar og stunduðum kappakstur við strákana þar. Brautin var Standgatan frá Bæjarbíó og að Dröfn, vegalengdin er hálf míla svo segja má að þetta hafi verið fyrirennari kvartmílunnar. Einhvern vegin hafði Stebba tekist að sleppa við að ganga í barnaskóla. Meðan aðrir voru í skólanum var hann mikið á verkstæði sem byggingafélagið Stoð átti og var í bragga austan við Skildinganesshólana.  Einn maður var á verkstæðinu, Steindór Steindórsson og var bragginn kallaður Steinabraggi. Þarna vorum við strákarnir mikið og aðstoðuðum Steina. Úti á flugvelli fann Stebbi heljarmikinn blýklump ofan í holu. Einhverjir karlar höfðu brennt þarna kapla og látið blýið renna ofan í holuna, en áttuðu sig ekki á því að klumpurinn varð hálft tonn og ekki nokkur leið að koma honum burt. Steini var að ljúka við að gera við hertrukk með spili og bómu, Stebbi spurði hann hvort hann mætti fá trukkinn lánaðan, jú það var allt í lagi ef hann færi ekki langt.


Reykjavík 1957 V

 Umboðsmaðurinn  útvegaði þeim gistingu meðan beðið var eftir ferð til Íslands. Seinasta kvöldið bauð hann þeim út að borða ásamt eiginkonu sinni. Þegar til Íslands kom reyndist vinan vera í járnsteypu Hamars, hið mesta puð og óþrif og hitinn eins og við miðbaug.  Fyrsta útborgunin var bara reikningur fyrir hátíðarkvöldverði í Kaupmannahöfn. Við fyrsta tækifæri fann Kratch sér svo aðra vinnu var það hjá Óskari Smith, Norðmanni sem nýlega var fluttur til Íslands. Smith var pípulagningameistari og hafði tekið að sér nýja vatnsveitulögn frá Gvendarbrunnum og niður í bæ. Með þessu var lásasmiðurinn Walther Kratch orðinn pípulagningamaður. Einn sunnudag fór ég í bíó og hitti þar Stefán Árnason sem átti heima á Fálkagötu 8. Við fórum að bauka eitthvað saman, gallinn var bara sá að Stefán átti skellinöðru en ég ekki. Stebbi vissi um eina góða sem strákur á Fálkagötunni vildi selja. Þetta var MÍELE naðra með Sachs mótor og tveim gírum. Við fórum með hjólið heim og ég spurði mömmu kvort ég mætti kaupa það. Fram að þessu hafði hún bara leyft mér að kaupa ónýt hjól sem ég var nýbúinn að selja. Mömmu leist ágætlega á hjólið svo ég keypti það bara og fór í prufutúr sem stóð til miðnættis. Morguninn eftir vaknaði ég svo klukkan sex og fór út að hjóla, svo í vinnuna kl átta. Kratch var ánægður með hjólið enda var það Þýskt eins og hann. Í hádeginu sagði hann mér að eftir vatnsveituna hafi hann farið að vinna hjá Gustav Funk sem hafði stofnað fyrirtækið Á Einarsson og Funk sem seldi allt til pípulagna og einnig tilbúin kerfi.  Funk var mikið úti í Þýskalandi að sinna viðskiptum en meðeigandinn

 Á Einarsson sá um það sem var að gerast hér á landi, þessi maður hafði leiðinlegan galla, honum gekk illa að vakna og var þá oft að starfsmenn og kúnnar þurftu að bíða fyrir utan á morgnana.


Reykjavik 1957 IV

 

 Einu sinni þegar Kratch var á frívakt hæfði sprengja jarðhúsið og hann vaknaði á sjúkrahúsi í Belgíu, þar lá hann á bekk og var eitt drullustykki.

Skambyssan var í hylkinu, tók hann byssuna, stakk inn á sig og setti drullu í byssuhylkið. Hjúkrunarkona sem þarna var sá að hann var kominn til meðvitundar og spurði hvort hún gæti gert eitthvað fyrir hann. Kratch gat gert henni skiljanlegt að hann þyrfti að komast á klósettið. Á klósettinu var laus loftræsirist og þar faldi hann byssuna.   Eftir nokkurn tíma á sjúkrahúsinu spurði Kratch lækninn hvort ekki væri hægt að fá eitthvað að gera þarna, læknirinn útvegaði honum vinnu við að tína múrsteina í húsarústum sem voru í nágrenninu. Svo var stríðið búið, Kratch kvaddi fólkið á sjúkrahúsinu, þakkaði fyrir sig og tók byssuna úr loftræsinguni. Þegar heim var komið skráði hann sig til áframhaldandi veru í hernum því þar var mat að hafa. Í pappírunum frá Belgíu stóð að í byssuhulstrinu hafi verið drulla en engin byssa , svo hann fékk nýja byssu. Það var nóg fyrir mig að gera í skrúfbútunum,  uppi í Stigahlíð var verið að byggja verkamannabústaði þar sem menn frá Sighvati voru að vinna, verkstjórinn Kristinn Auðunsson kom einu sinni og bað um 500 stykki af 5cm ½" bútum.  Bútana snittaði ég fyrst í annan endann, mældi og skar svo rétta lengd, bjó svoleiðis til 60 st og tók það klukkutíma, setti svo bútana beint í patrónuna og snittaði hinn endann.  Ef Þórður hafði mikið að gera vann ég við afgreiðsluna og svo kom fyrir að einhver kom meðan hann var í mat, þá reyndi ég að hjálpa kúnnanum eftir bestu getu. Kratch hélt áfram með söguna, einn daginn sá hann auglýsingu í blaði þar sem óskað var eftir járnsmiðum til starfa hjá h.f. Hamri í Reykjavík, hann sagði öðrum járnsmið sem líka hafði sloppið lifandi úr styrjöldinni frá þessu og þeir sóttu um og fengu vinnuna. Farið var með járnbraut til Kaupmannahafnar þar sem þeir töluðu við umboðsmann Hamars.


Reykjavík 1957 III

 Pabbi útvegaði mér vinnu hjá Sighvati Einarsyni pípulagningameistara, þar átti ég að vera aðstoðarmaður hjá Walther Kratch þýskum lásasmið sem örlögin höfðu gert að pípara á Íslandi. Sighvatur var með aðstöðu í Skipholti 15 þar sem hann var að byggja hús yfir starfsemi sína. Auk Kratch og mín unnu þar Þórður Kristjónsson sem sá um verslunina og Ólafur Haldórsson bílstjóri. Úti í bæ voru svo 8-10 pípulagningamenn ásamt aðstoðarmönnum. Skristofa fyrirtækisins var í Garðastræti 45 en þar var líka verslun sem sá vesturbænum fyrir pípulagnaefni. Starfseminni í Garðastræti stjórnaði dóttir Sighvats, Sigurbjörg og var með henni aðstoðastúlka. Mitt hlutverk í Skipholtinu var að snitta skrúfbúta í RIDGID snittvél sem ég kunni ágætlega á. Efnið í bútana kom úr efnisafgöngum sem komu inn úr verkum úti í bæ. Við Kratch vorum með nesti sem við borðuðum inni á verkstæðinu. Karlinn sagði mér svona eitt og annað af sínum ferli. Walther var fæddur í Dresden um aldamótin og byrjaði fjórtán ára að læra lásasmíði, eftir að hafa verið hjá þremur meisturum sem allir voru sendir í fyrra  stríðið til að deyja, var Walther sendur þangað líka árið 1917. Vegna sjóndepru varð hann vélbyssumaður, en á hverri byssu voru þrír menn, ein skytta og tveir sáu um skotfærin. Byssunum var raðað upp við víglínuna og skutu móti andstæðingnum í 45 gráðu geira, byssur sem voru hlið við hlið skutu inn í hvers annars geira svo skytturnar vissu aldrei almennilega hvern þeir voru að drepa. Þegar andstæðingurinn gerði áhlaup byrjaði það á bylgju af svörtum mönnum, sem allir voru drepnir, svo komu brúnir menn, þeir voru líka drepnir, þarnæst gulir líka drepnir. Seinasta bylgjan voru hvítir menn en þá voru vélbyssurnar farnar að hökta vegna hita og skorts á smurningu. Þá gat andstæðingurinn komist í gegn og gengið frá vélbyssumönnunum með handsprengjum. Barist var á vöktum og sofið jarðhúsum.


Reykjavík 1957 II

 Gylfi hafði hug á að verða sjómaður, við fórum því niður að höfn og spurðumst fyrir í Tryggvagötu hittum við Hjalta kennara sem sagði okkur að það hefði verið að koma nýr bátur sem væri að fara á síld og svo mætti prófa Bæjarútgerðina. Svo ítrekaði hjalti það að ég ætti að fara í langskólanám, því ég hefði lært tveggja vetra námsefni í reikningi á fimm dögum.  Bæjarútgerðin vildi bara vana menn svo ekki fengum við pláss þar. Um kvöldið fórum við heimsókn ti Hjálmars Þorsteinssonar á Þjórsárgötunni og tókst honum að útvega Gylfa pláss á Ingólfi Arnarsyni sem var að landa saltfiski. Ég fylgdi svo Gylfa til skips og þar hittum við Eirík Sigurjónsson sem var ráðinn á skipið.

Helgi pabbi Gylfa hafði fengið smá frí úr vinnunni og kom til að kveðja, Helgi færði Gylfa vinnuvettlinga því það var óþægilegt að vera berhentur í því slarki sem togaravinna er. Þarna lágu margir togarar svo mér datt í hug að spyrja um vinnu, jú það var bara að mæta morguninn eftir. Klukkan korter fyrir átta var ég mættur í Togaraafgreiðsluna og var sagt að fara um borð í Þorkel Mána sem var að koma inn drekkhlaðinn af saltfiski. Hleðslan var svo mikil að það var ökkladjúpur sjór við spilið. Fyrir vinnu við togarana var borgað mun meira en fyrir almenna verkamannavinnu, þarna lá maður á hnjánum og reif upp saltfiskinn og henti í lödunartrog sem tók eitt og hálft tonn.   Lönduninni stjórnaði snarvitlaus karl sem hét Bjarni, hann réðist á mig með ógurlegum skömmum fyrir eitthvað sem ég hafði ekki gert rétt. Fullorðinn maður sem þarna var fór þá að skamma Bjarna fyrir allt það sem hann gerði vitlaust og fór hann þá upp úr lestinni með skottið milli lappanna. Vegna fisklyktarinnar fékk ég ekki að fara með strætó og var því orðinn ógurlega þreyttur á kvöldin. Einn morgunin vaknaði ég ekki og menn komnir í allar stöður þegar ég kom niður í Togarafgreiðslu.


Reykjavík 1957 I

 

Vorið 1957 var komið að því að við Gylfi Helgason útskrifuðumst úr Miðbæjarskólanum. Nokkru áður en prófin áttu að byrja bað umsjónarkennarinn Hjalti Jónasson okkur Gylfa að koma í skólann kl 17.00 því hann þyrfti að tala við okkur. Klukkan fimm mættum við í skólann.  Hjalti sagði okkur að til að geta útskrifast þyrftum við að kunna ýmislegt og nú ætlaði hann að kenna okkur það sem við hefðum ,,gleymt" að læra. Klukkan fimm í nokkra daga mættum við svo hjá Hjalta í þessa aukatíma, eftir viku sagði hann mér að ég væri búinn að læra nóg og þú ert svo fluggáfaður að mér finnst þú eigir að fara í menntaskóla.

Merkilegt maðurinn var búinn að kenna okkur tvo vetur og fattaði þetta á seinustu metrunum. Eftir prófin fórum við Gylfi í atvinnuleit, við höfðum heyrt að hægt væri að fá vel borgaða vinnu við að grafa niður símakapla, þess vegna fórum við niður á símstöð að spyrja um þetta. Á símstöðinni var okkur sagt að tala við verkstjórann sem stjórnaði vinnu við Digranesveg í Kópavogi. Á leið út af símstöðinni mættum við manni sem var að koma með skeyti, maðurinn bað okkur að taka skeytið og bíða fyrir sig í biðröðinni, svo áttum við að koma með kvittunina til hans út í Austurstræti. Þegar við skiluðum kvittuninni varð maðurinn voða ánægður og borgaði okkur 20 krónur fyrir ómakið. Svo fórum við út á Skalla og fengum okkur kók meðan við biðum eftir strætó í Kópavog.

Svo kom strætó alveg nýr og merktur Strætisvögnum Kópavogs. Við ætluðum að borga með strætómiðum sem við áttum, en bílstjórinn og stofnandi SK Ólafur Jónsson, sagði að það væri ekki hægt því þetta væri Kópavogsstrætó sem væri alveg sérstakt félag. Ekki leist nú verkstjóra símans á okkur svo við tókum strætó í bæinn aftur.

STÖÐ 2 XVI

xx 

 

Stofnendurnir hurfu, Þorvarður Elíasson skólastjóri Verslunarskólans varð sjónvarpsstjóri. Nokkrir af okkar mönnum fóru að vinna hjá Sýn sem hafði eftir pólitískum leiðum fengið úthlutað sjónvarpsrás sem ekki átti að vera til. Til að hindra samkeppni keypti Stöðin ( sem hét nú Íslenska Útvarpsfélagið, eftir sameiningu við Bylgjuna) Sýn, komu þá mennirnir aftur heim en stoppuðu stutt minnir mig. Stöðin hafði haldið samkeppnu um gerð framhaldsþáttar fyrir sjónvarp. Þáttaröðin Vístölufjölskyldan vann keppnina, höfundar voru Iðunn og Kristín, Steinsdætur. Við fórum nú að útbúa leikmynd í Lynghálsinum, nú var það heil íbúð með öllu. Tökur áttu að hefjast strax eftir sumarfrí 1990 en þegar við komum úr fríinu var upptökustjórinn kominn í vinnu hjá Danskri sjónvarpsstöð og þar með hætt við allt saman. Vegna þess að Bylgjan hafði sameinast Stöðinni þurfti að útbúa Útvarpsstöð í kjallaranum á Lynghálsi og fórum við Sigurður Sívertsen í það. Það getur vel verið að eitthvað hafi verið framleitt af sjónvarpsefni í tíð þessara nýju eigenda en ekki getur það hafa verið merkilegt úr því maður er búinn að gleyma því. Allt snerist orðið um ,,Hagræðingu" öll starfsemin var sett undir eitt þak og við vorum eiginlega orðnir byggingaverkamenn. Svo var farið að fækka fólki og leggja niður.

Egill, Börkur og Guðlaugur voru að framleiða auglýsingar í kjallaranum í Lynghálsi. Einhver fann út að fjárhagurinn kæmist í lag ef þeir yrðu látir fara.

Börkur ákvað þá að bjóða sig fram til formanns í Starfsmannafélaginu .

Deildin bjó þá svo til svo magnað framboðs myndband að önnur framboð voru sjálfdauð. Eitthvað var talað um að skuldin stóra væri vegna okkar framleiðslu á sjónvarpsefni. Ég reiknaði út að þessar 1500 milljónir væru svipuð upphæð og kostað hefði að gera Reykjavíkurflugvöll.  Svo fór ég bara í sumarfrí 30. júní 1991 og fékk mér svo bara aðra vinnu að því loknu.

 

Reykjavík í júlí 2007

 

Gestur Gunnarsson


STÖÐ 2 XV

 

Þrátt fyrir mikinn undirbúning var verkið ónýtt. Aðalatriðið gleymdist, það að skapa persónur þarna var bara ákveðið að það ættu að vera menn sem segðu eitthvað skemmtilegt en það bjó ekkert að baki þessum mönnum. Saxi læknir var persóna sem búinn var að vera mörg ár í þróun. Til að hafa nú eitthvað fyrir áhorfendur var farið að gera spurningaþátt sem hét ,,KYNIN KLJÁST" og sáu þau Bryndís S og Bessi B um hann. Upptökur áttu að byrja 14. okt 89, daginn áður föstudaginn 13. var ég að búa til merki þáttarins úr plexiglerplötu, og hvað gerist platan springur við borunina.  Ég niður í Akron og segi mínar farir ekki sléttar upptaka eigi að byrja á morgun og merkið ónýtt, ekkert mál og ég var kominn meðnýja plötu eftir fimm mínútur. Umferðarteppa var í Ártúnsbrekku en einhver jeppamaður tók ekki eftir því og keyrði aftan á bílinn minn á fullri ferð .

Afturendi  bílsins var eiginlega ónýtur, eftir skýrslugerð var hægt að halda áfram og klára skiltið. Plastglerið slapp heilt úr árekstinum. Haustið 88 höfðum við bara uppfært fréttainnréttinguna úr 19.19, nú var komið að því að gera nýja innréttingu, hún var hönnuð af Jóni Árna og var verulega flott. Vegna þess að þetta varð allt stærra en upphaflega var ráðgert virkaði loftræsikerfið í gamla upptökusalnum ekki nógu vel við fórum nú í að laga það og notuðum ganginn í austurendanum á Krókhálsi sem hljóðdeyfi, blásarinn blés inn í ganginn og svo var opið úr ganginum inn í salinn. Ýmislegt fleira var líka lagað. Nú fréttist að nýr banki væri í burðaliðnum, Íslandsbanki og Verslunarbankinn sem lánað hafði peninga í Stöðina yrði partur af þessum nýja. Til að Verslunarbankinn væri einhvers virði varð að setja tryggingar fyrir skuldum stöðvarinnar til að dæmið gengi upp varð þetta að vera klárt fyrir áramótin 89-90. Leikar fóru þannig að samtök verslunarmanna höfðu milligöngu um að selja hlutabréf gegn tryggingum fyrir skuldum. Megnið af bréfunum virtist lenda hjá forystumönnum samtakanna.


STÖÐ 2 XIV

Nú var komið að sumarfríi Siggi fór viku á undan mér. Til að auka tekjurnar var farið í markaðsátak sem átti að heita Stöðin á Staðnum. Jón Árna hannaði leikmynd sem hægt var að rúlla inn í ,, DAFinn" , svo keyrði Kiddi rót hringveginn og Jón Óttar á eftir í þyrlu eða bíl allt eftir því hvort var flóð eða fjara í tékkheftinu. Þegar rótarinn og Jón voru horfnir fyrir Lynghálshornið settist ég við teikniborðið og fór að hanna nýjan upptökusal í austurendan á Lynghálsinum. Við Marinó vorum búnir að vera með þetta verkefni í hugrænni hönnun í nokkra mánuði  og nú var að setja þetta niður á blað. Á þakinu var stór gluggi undir honum var komið fyrir loftræsiklefa sem gerður var úr trégrind sem í var sett tvöfalt lag af pressaðri steinull, milli lagana var bil sem loftið frá blásaranum fór gegnum á leið sinni inn í upptökusalinn. Gluggunum á salnum var svo lokað með steinullarplötum sem stilltu bergmálið.  Seinasta verk föstudagsins fyrir fríið var að afhenda Jóni Sig. teikningarnar en hann ætlaði að útvega verktaka í verkið. Að sumarfríinu loknu var þetta að mestu búið og virkaði vel.   Hugmynd hafði kviknað að verki sem átti að heita ,, Borð fyrir tvo" og átti að gerast á veitingahúsi sem einhverjir bræður höfðu fengið í arf. Björn G Björnsson fór nú að hanna leikmynd fyrir verkið, var það fullkomnasta leikmynd sem við höfðum gert. Fremst var gatan framan við veitingahúsið, svo salurinn, þá eldhús og aftast húsagarðurinn með ruslatunnum og tilheyrandi. Í eldhúsið og salinn vantaði einn og hálfan vegg, þeir kölluðu þetta ,, Hitchcock" leikmynd því hægt var að keyra allt í einu rennsli. Veggirnir  í salnum voru með viðaráferð og komu málarar úr Þjóðleikhúsinu til að græja það.  Laddi lék annan veitingamanninn og Eggert Þorleifsson hinn. Þrátt fyrir vandaðan undirbúning var ekker varið í þetta og bara teknir upp tveir þættir.


STÖÐ 2 XIII

x

 

 

 

Snemma um vorið hafði hann gengið að eiga Elfu Gísladóttur leikkonu sem sagt var að hefði lagt til peningana sem notaðir voru til að stofna Stöðina. Brúðkaupið var haldið í Skíðaskálanum, Jón var nú kominn með ,,rótara" á móti Utanríkisráðherranum  Jóni B .  Rótarinn sá um brúðkaupið og setti rauðan dregil á tröppurnar í skálanum. Til að halda dreglinum negldi Kiddi rót dregilinn fastan að ofan og neðan, tillti svo bara með pinnum í tröppurnar. Meðan veislan stóð kom slydda og dregillinn styttist, pinnarnir drógust út svo það myndaðist slyddublaut rennibraut þarna í tröppunum. Fyrstu gestirnir sem fóru heim fengu því alveg óvænt skemmtiatriði þegar þeir runnu niður tröppurnar á rassinum.

Valgerður keypti sér íbúð á Laugarásvegi 1, íbúðin fékkst með afslætti því hún var gölluð ef Vala fór í sturtu lak vatn niður á hæðina fyrir neðan en þar var áfengisverslun. Rauðvínið var geymt undir lekastaðnum og var stundum selt með afslætti ef það voru bleytublettir á miðunum. Valgerður fékk okkur Sigga í að mála íbúðina bleika og laga eitthvað smávegis. Ekki vildi hún láta okkur laga baðið því hún sagði að rauðvín væri svo hollt. Eldhúsinnréttingin var upprunaleg frá 1955, við spurðum hvort hún vildi ekki nýja, svona eins og við vorum að auglýsa. Ekki var áhugi á því, innréttingin var nefnilega geirnelgd saman og hurðirnar úr gegnheilli eik.  Þetta voru góðir dagar, við borðuðum á kostnað Valgerðar á Restaurant Laugarás og löguðum okkur sjálfir kaffi í einhverju ,,termódynamisku" undraverki sem Valgerður átti. Undratækið voru tvö hylki vatnið var sett í það neðra og kaffið í það efra, svo var þetta sett á eldavélina og kveikt undir eftir svolitla stund byrjaði gufa að spýtast út um pínulítið gat,   Þegar bleika málningin var orðin þur kom í ljós að hún var aðeins of gul, þá bætti Jón örlitlu bláu útí og til varð nýr litur í kerfinu ,,Völu bleikt".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband