STÖÐ 2 XII

xx 

12

 

Bankinn var búinn að setja stopp á innlenda framleiðslu svo það var lítið að gera í leikmyndum. Jón Árna fór í kassagerðina og keypti slatta af pappa fyrir 3000 kr. , pappann brutum við saman samkvæmt forsögn Arkiteksins og máluðum með litum úr litablöndunarvélinni, svo var þetta hengt á gamlar fatagrindur á hjólum. ,,Útlagður kostnaður þrjú þúsund" , sennilega ódýrasta leikmynd sem búin hefir verið til í heiminum. Pappann límdum við báðu megin á grindurnar svo ekki var mikið mál að búa til nýjan bakgrunn. Strax eftir fréttir á föstudagskvöldum setti Helgi Pé upp slaufu og stillti sér upp fyrir framan pappaverkið og kynnti Ríó tríóið sem mætt var á staðinn. Milli laga sagði hann svo sögur og brandara, þetta var sent beint út og gerði mikla lukku meðal áskrifenda. Það er nútíma draugasaga að innlent efni fyrir sjónvarp kosti mikla peninga. Kostnaðurinn er í öfugu hlutfalli við kunnáttu og færni þeirra sem vinna við framleiðsluna.  Jón Óttar fékk þá ágætu hugmynd að gera neðansjávarmynd úr Breiðarfirði. Ég fékk það hlutverk að útbúa hylki utanum videovélina. Hylkið var úr rústfríu röri með kýrauga úr nýsköpunartogara á öðrum endanum og aftast var rageymir fyrir ljós. Jón fór vestur með tökulið en afraksturinn var rýr, hylkið var svo þungt að sjónvarpsstjórinn flaut lóðréttur í sjónum með fæturna upp í loftið. Jón var nýkoninn úr brúðkaupsferð til Bahama eyja þar sem hann hafði lært að kafa.


STÖÐ 2 XI

xx 

 

 

STÖÐ 2 XI

 

 

Okkur hafði bæst nýr maður Jón Árnason innanhússarkitekt, Jón hafði lokið námi í Noregi og er mesti litamaður sem ég hefi kynnst.  Við vorum búnir að kaupa litablöndunartæki og bjuggum til þá liti sem þurfti. Með tækjunum fylgdu töflur til að blanda 1536  liti .  Jón gat sett hálfan dropa af lit út í málninguna og fengið alveg nýja útkomu, þetta var galdri líkast. Eitthvað var talað um að þetta væri allt of dýr rekstur, bankinn var eitthvað órólegur og sendi sinn fulltrúa inn það var Jón Sigurðsson sem kom úr Miklagarði. Það eina sem breyttist var að Jón lét kaupa nýja tegund af klósettpappír, þennan gráa harða sem heitir KARIN. Valgerður hafði verið með mjúkan, bleikan, sá hét Kimberley Clark. Jón sagði að þetta sparaði 100 þúsund á mánuði. Annar Jón, Jón Óttar var nú kominn með svo mikla bíladellu að hann eyddi 100 þúsundum á mánuði í að endurbæta jeppa sem keyptur var fyrir auglýsingar í HEKLU. Fyrir utan þetta með stór hjól og brettakanta lét Jón setja 220 volta rafmagn í bílinn það var til að drífa afruglara sem sá sjónvarpstæki sem var uppi á mælaborðinu fyrir myndefni frá stöðinni. Í sjónvarpstækinu var líka video tæki sem fylgdi myndavél. Til að hægt væri að taka myndir á kvöldin voru settir sex 500w ljóskastarar á toppinn, við Brandur fórum upp í Gufunes að prófa eitt kvöldið. Þegar Brandur kveikti ljósin varð svo bjart inni í bílnum að ekkert sást út, á bílnum var topplúga úr glæru plasti, kastararnir voru fyrir aftan hana. Við skildum jeppan eftir fyrir utan bílaverkstæði Benna því ljósin voru fest með fimmkantlykli sem engin átti nema Benni.  Morgunin eftir kom Brandur og sagði mæðulega: Nú fór illa ljósunum var stolið af jeppanum fyrir utan verkstæðið í nótt. Svo voru bara keypt ný og Benni hélt áfram að auglýsa.


STÖÐ 2 X

xx 

,, Ég verð nú bara að segja það" . Steingrímur ráðherra var að halda ræðu þarna á bakvið við laumuðum okkur bak við þennan bráðabirgðavegg og vorum komin í veisluna og lentum við borð með Sæma Rokk sem var þarna fulltrúi fyrir Fischer sem var týndur einhvers staðar úti í heimi. Vinnan við skákmótið er eftirminnileg vegna þess hve góður andi sveif þarna yfir vötnum, þetta var eiginlega eins og risa stórt ættarmót. Keppendurnir virtust allir vera hinir bestu vinir. Spassky virtist vera orðinn slappur og gekk illa en annað kom á daginn undir lok mótsins, þá vann hann skyndilega sigur á einum sterkasta keppandanum, sigurinn olli því að Rússneskur keppandi sem gerður var út af flokknum átti ekki möguleika á verðlaunasæti. Með þessu kom í ljós að flestir keppendanna voru í sameiningu að hamra á kommunum.       Til að bjarga stöðinni og Hótel Íslandi var gerður samningur um beinar útsendingar frá hótelinu þrisvar í viku, á mánudagskvöldum áttu að vera réttarhöld með kviðdómi þar sem tekin voru fyrir ýmis álitamál ekki gekk þetta og lagðist samstarfið fljótlega af. Sjónvarpsefni verður seint fjöldaframleitt af einhverju viti. Jón Óttar  var ekki af baki dottinn. Hann réð bara í vinnu yfirkennara BBC í sjónvarpsfræðum, sá heitir Brian Phillips og kenndi okkur í tvær vikur. Ég skráði mig í alla tímana og var það býsna fróðlegt.

 Seinasta kvöldið átti að fara yfir fréttagerð, fréttamennirnir mættu ekki og ég fór að leita, fréttastofan var læst, ég barði þá opnaðist pínu rifa, einhver rödd sagði  ,,það er fundur". Málið var að fréttastjórinn hafði rekið einn fréttamanninn og hinir voru komnir í verkfall. Fyrr um daginn höfðum við verið að æfa auglýsingagerð þar sem ég lék ýmsa karaktera. Nú sagði Brian ,,Gestur þú verður bara að leika fréttamann" svo æfðum við bara fréttagerð, með hjóð og tökumönnum allt kvöldið. Það eru ekki margir Íslendingar sem lært hafa sjónvarpsfréttamennsku hjá BBC.


STÖÐ 2 IX

 

 Þegar Anna hafði lokið hönnuninni gerði ég vinnuteikningar af öllu saman og efnislista svo fengum við tilboð í verkið frá Sveinbirni Sigurðssyni sem var byggingameistari leikhússins. Mennirnir frá Sveinbirni eru þeir fljótustu smiðir sem ég hefi nokkru sinni kynnst. Byrjuðu alltaf stundvíslega kl. átta og héldu áfram á fullri ferð til kl. fjögur þá fóru þeir heim. Stöðin hafði nýlega keypt stóran DAF sendibíl og fór hann á hverjum degi í Húsasmiðjuna eftir efni og kom drekkhlaðinn til baka. Sveinbjörn var með einhvern háskóla verkfræðing með sér í þessu og voru þeir með samning þar  sem greiðslur voru dagsettar. Einn daginn voru peningarnir ekki komnir kl. eitt og þá trylltist Sveinbjörn og sagðist hafa haldið að borgin ætlaði að borga þetta, sagði svo að þetta yrði allt stoppað ef ekki yrði borgað strax. Nú ég sagði bara Sveinbirni að ef hann stoppaði yrði hann að bæta það tjón sem af töfinni kynni að hljótast. Mennirnir byrjuðu að vinna og peningarnir komu, höfðu bara setið fastir í einhverri bankatölvu. 

Innréttingarnar voru allar úr svokölluðu mátkerfi sem við keyptum í Húsasmiðjunni. Hverri plötu var bara fest með fjórum heftum og  svo var innréttað með þeim í Lynghálsi þegar mótið var búið. Leigð voru skákborð og menn frá Belgíu í hverjum manni var örlítill sendir sem sendi merki ofaní borðið og þá sást stórum skjá fyrir ofan borðið hvernig leikið var, svo voru líka skjáir á öðrum stöðum í húsinu þar sem gestir gátu fylgst með. Frá Belgíu komu tveir menn til að setja búnaðinn upp. Mennirnir töluðu bara frönsku svo ekki skildist alltaf vel sem þeir sögðu.

 Daginn áður en mótið átti að byrja sögðust þeir vera búnir en samt var þetta ekki tilbúið.  Þegar málið var athugað kom í ljós að þetta voru uppsetningarmenn, fyrirtækið sem átti forritið sem stjórnaði þessu var í Bretlandi og enginn hafði talað við það.  Nú var allt í voða, mótið átti byrja eftir tvo daga og allt í klessu. Hannes J. hringdi í Tölvumyndir og spurði þá hvort þeir kynnu á svona, jú þeir útbjuggu eitthvað sem virkaði og dæmið gekk upp.

Að kvöldi fyrsta mótsdagsins settist á stól inni í veitngasalnum og hélt ég myndi bara deyja þar. Skyndilega birtist maður með bjórdós og glas, spyr hvort é sé ekki þyrstur. Þar var kominn Eyjólfur Jónsson sundkappi sem þarna var yfirdyravörður.  Orkan úr bjórnum dugði mér til að standa upp og komast heim.

Fínn karl Eyjólfur. Fínn karl Eyjólfur. Þegar mótið var komið í gang birtist verkfræðingurinn frá Sveinbirni og fór að tala um aukaverk sem þeir vildu fá greitt fyrir. Ég sagði manninum að það hefðu fallið niður nokkrir liðir samkvæmt upphaflegri áætlun og það væri svipað og viðbótin, þá dró maðurinn upp samninginn og sagði að við hann yrði að standa. Nú maðurinn fékk það svar að dómstólar væru til að skera úr ágreiningi sem yrði vegna samninga.    Verðlaunaafhending var í boði sem forsætisráðherran hélt á Hótel Sögu, þangað vorum við Björn K. boðnir ásamt konum okkar. Vegna þess hvað mikið hafði verið að gera hjá okkur vissum við ekki að það var búið að byggja nýja álmu við hótelið. Súlnasalurinn virtist vera horfinn, skyndilega heyrðum við kunnuglega rödd bak við ullarteppi sem strengt var yfir ganginn.

 


STÖÐ 2 VIII

 

 

Nú var ákveðið að halda samstarfi við hótelið áfram og vorum við með fastan þátt á föstudagskvöldum. Einn þeirra var á 17. júní  og varð svolítið mál út af honum. Viðar Eggertsson var í  hlutverki Fjallkonunnar sem hafði lent í ástandinu og var nú komin heim og talaði Íslensku með Amerískum hreim.

Einhverjir auglýsendur urðu vondir og hættu að auglýsa og nokkrir sögðu upp áskriftum, þetta jafnaði sig svo. Það sem olli þessum viðbrögðum var að atriðið var svo vel unnið, ef það hefði verið lélegt hefði engin tekið eftir því.

Enn daginn kom Anna R og sagði mér frá því að nú yrði Bryndís Schram fimmtug eftir tvo daga og spurði hvot ég gæti ekki búið til lítið lukkuhjól handa henni í afmælisgjöf.  Þegar til kom var nú frekar naumur tími í þetta, aðallega vegna þess hvað voru margir litir og allt þurfti tíma til að þorna. Í einhverju drasli úr Heilsubælinu fann ég hitalampa sem var fínn til að flýta þurrkinum á málningunni. Afmælið var svo haldið með glæsibrag, einhver eftirmál urðu út af áfengi sem þau hjón keyptu gegnum veisluþjónustu Ríkisins í Borgartúni og var það að veltast fyrir dómstólum í fimmtán ár. Um sumarið fóru starfsmenn stöðvarinnar inn í Þórsmörk eina helgi og voru í tjöldum í Básum. Þegar við vorum að tjalda kom stór sendibíll með eitt vörubretti af áfengu öli sem var bannvara á þessum árum, bílstjórinn skildi bjórinn bara eftir þarna á jörðinni. Þegar enginn kom að vitja ölsins byrjuðum við bara að drekka það. Birgðirnar dugðu öllum sem í Þórsmörk voru alla helgina. Seinna fréttum við að heildsali nokkur sem átti bjórverksmiðju og var að kaupa hlutabréf í stöðinni hefði sent bjórbílinn. Ekki verra að hafa starfsmennina ánægða.  Jón Árnason skákmaður var að gera það gott í Ameríku, varð stórmeistari minnir mig. Einhver fékk þá hugmynd að skák væri upplögð sjónvarpsíþrótt og í framhaldi af því ákveðið að halda heimsbikarmót í skák hér á Íslandi. Ég var settur í að finna húsnæði sem hentaði, strangar reglur voru um bil milli keppnisborða og svo þurfti að vera aðstaða fyrir skýringar, gesti og keppendur. Illa gekk að finna húsnæði, á endanum fóru yfirmenn stöðvarinnar til Borgarverkfræðings og spurðu hvort mögulegt væri að halda mótið í Borgarleikhúsinu. Þórður sagði það vera í lagi ef ég sæi um framkvæmdirnar. Anna R. hannaði leikmynd þar sem keppnissviðið var í anddyrinu, skákskýringar á litla sviðinu og aðstaða fyrir keppendur í sal sem við smíðuðum í tengslum við miðasöluna. Þegar Anna hafði lokið hönnuninni gerði ég vinnuteikningar af öllu saman og efnislista svo fengum við tilboð í verkið frá Sveinbirni Sigurðssyni sem var byggingameistari leikhússins.

Innréttingarnar voru allar úr svokölluðu mátkerfi sem við keyptum í Húsasmiðjunni. Hverri plötu var bara fest með fjórum heftum og  svo var innréttað með þeim í Lynghálsi. Leigð voru skákborð og menn frá Belgíu í hverjum manni var örlítill sendir sem sendi merki ofaní borðið og þá sást stórum skjá fyrir ofan borðið hvernig leikið var, svo voru líka skjáir á öðrum stöðum í húsinu þar sem gestir gátu fylgst með. Frá Belgíu komu tveir menn til að setja búnaðinn upp. Mennirnir töluðu bara frönsku svo ekki skildist alltaf vel sem þeir sögðu.


STÖÐ 2 VII

xxx 

Næsta Bingó viku seinna gekk ágætlega, þá var einhver sjoppueigandi sem fékk nýjan VOLVO. Í þriðja Bingóinu var líka sjoppueigandi með vinning og líka í því fjórða. Við athugun kom í ljós að það var tölvukerfi sem dró tölurnar og spjöldin voru í búntum 10 með sama númeri. Tölvan gaf svo upp vinningsnúmerið og þá voru níu spjöld tekin úr búntinu. Þetta sá einhver og vitneskjan dreifði sér í undirheimunum með þeim afleiðingum að fjáröflunarátak SÁÁ var jarðað í kyrrþey. Hótel Ísland hafði opnað um áramótin og vantaði fleiri gesti. Til að auglýsa hótelið var ákveðið að halda þar Fegurðarsamkeppni Íslands þar og vera með beina útsendingu. Tíu dögum fyrir keppnina ætluðum við að byrja að smíða en þá kom í ljós að hönnuðurinn hafði gefist upp á verkefninu. Anna R. var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Cleveland. Hringt var í hana til Ameríku, sagðist hún vera með flensu sem væri að batna og sagðist koma með næstu flugvél.

Daginn eftir að Anna kom var komin frumteikning, þetta voru langar tröppur niður af sviðinu og göngupallur fram á dansgólfið. Eitthvað var ekki á hreinu varðandi útfærslu á tröppunum. Þá sagði Siggi ,,Byggingasamþykktin segir að tvö uppstig og eitt framstig eigi að vera 60 sentimetrar". Þetta var prófað, uppstigið  tíu og framstigið fjörtíu.  Þetta skotvirkaði, Einar Júlíusson gekk syngjandi, niður tröppurnar og svo afturábak upp aftur, horfði alltaf á gestina.

Byggingasamþykktin er nú engin vitleysa. Siggi var búinn að finna aðferð til að smíða svona hluti, 16 mm spónaplötur voru sagaðar niður í hæfilegar stærðir og svo skrúfaðar saman með batteríborvélum.  Pabbi Sigga, Grétar Sívertsen sem hafði verið umsvifamikill byggingaverktaki, kom og hjálpaði okkur á verkstæðinu, sem við það breyttist í hálfgerða verksmiðju.  Grétar sagaði niður plöturnar og við Siggi skrúfuðum saman, Eyþór og Björn léku svo málara enda báðir útskrifaðir úr leiklistaskóla. Uppsetningin á Hótel Ísland tók hátt í sólarhring sem var þó með einhverju hléi vegna æfinga. Göngupallurinn var klæddur með ógurlega þykku gólfteppi og vorum við Björn í miklum vandræðum með að koma seinustu bútunum á, ruglaðir af svefnleysi og límgufum. Um morguninn sváfum við nokkra klukkutíma og mættum eftir hádegi í lokafrágang og æfingar. Hótelið var með sinn leiksviðsstjóra sem vildi stjórna. Björn fann ráð við því, lét sviðsstjórann hafa labb-rabb tæki með ónýtum batteríum og hann stjórnaði gegnum það en við héldum okkar striki.

Á æfingunum kom í ljós að bolirnir vildu gangast inn í rassskoruna á stúlkunum þegar þær gengu fram pallinn og urðu hálf hallærislegar aftanfrá séð.  Vandinn var leystur með gólfteppalímbandi sem festi bolina við rasskinnarnar á stelpunum rétt áður en þær gengu fram.  Lokaatriðið var krýningin, við höfðum smíðað krýningarpall sem sendur var upp með lyftunni sem er beint fyrir framan sviðið. Pallurinn átti að koma upp í skýi úr þurrísreyk sem læki út á gólfið.

Til að gera þetta vorum við með þrjár reykvélar og  fullt af þurrís sem við settum inn í lyftuna jafnframt því að reykvélarnar gengu á fullu. Lyftan upp, einhver öskraði í kallkerfið ,,hvar er reykurinn".   Þegar allt var búið tókum við pallinn niður og þá fylltist salurinn af reyk. 

  VEGNA SUMARLEYFIS FORSTJÓRANS VERÐUR RITVERKAMIÐSTÖÐIN LOKUÐ Í NOKKRA DAGA.

KV.   GESTUR

 


STÖÐ 2 VI

Við þennan gang voru bara forsetaskrifstofur.  Eftir svolitla stund í eldhúsinu varð Gísli ógurlega glaður þegar hann fattaði að hann var hvorki dauður né endanlega búinn að missa vitið. Þetta rúllaði áfram. Leikmyndir fyrir átta þætti á tveim mánuðum. Samkvæmt vinnubókinni voru þetta 243 tímar í ágúst og 328 í sepember. Stundum kom það fyrir að fólk var að kvarta undan þrengslum. Þá kallaði Valgerður "strákar komið þið með spegil. Speglagerðin á Hellu hafði keypt auglýsingar og borgað með speglum. Við Sigurður Sívertsen límdum svo bara upp stóra spegla sem náðu frá gólfi, upp í loft og allir urðu glaðir. Seinast verkefnið í törninni var 19.19, leikmyndin gerð úr plasti, eir og rústfríu stáli. Stálið var svo seigt að nýjar Amerískar blikklippur sem keyptar voru klukkan tvö duttu í sundur klukkan sex. Gússí og Ívan hönnuðu leikmyndina sem var lýst upp með lituðum ljósum og kom vel út. Þátturinn sjálfur var erfiðari viðureignar, byrjaði venjulega með viðtali í beinni útsendingu, svo fréttir og  fleiri viðtöl  ásamt tónlist og allt í beinni.

Fólkið hafði séð þetta í erlendu sjónvarpi en vissi ekki hvað þurfti í raun mikið af þrautþjálfuðu starfsfólki til að halda svona gangandi. Allt þetta var of mikið fyrir Eyþór einan, svo hann bað mig að vera sviðsstjóra þriðja hvern dag.

Gekk það ágætlega fyrstu tvo dagana sem ég var einn en þriðja daginn var eitthvað ólag á fjarskipunum. Við vorum með heyrnartól á hausnum, svona eins og loftskeytamenn notuðu, eitt af mínum hlutverkum var að telja niður í fréttirnar, vegna sambandsleysis heyrðist ekki þegar útsendingarstjóinn byrjaði, svo niðurtalningin byrjaði á átta. Fréttastjóranum fannst þetta svo fyndið að hann fór að hlægja og hló í gegnum tvær fréttir. Þetta mun vera heimsmet því öllum öðrum hafa nægt einar. Morgunin eftir sagði ég upp þessu aukastarfi og var eini sviðsstjórinn sem gerði það. Allir hinir voru reknir. Hláturinn lengir lífið og nú er fréttastjórinn fyrrverandi orðinn útvarpsstjóri.  Heilsubælið var frumsýnt í október,  áætlað var að klippa upptökurnar í átta þætti en afgangurinn dugði í þann níunda. Sá var svo sýndur á gamlárskvöld og endaði með að Dr. Saxi skaut henni Guðríði sinni á loft með stórri skiparakettu. Fyrir jólin fengum við liðsauka, það voru Karlssynirnir Björn og Kristinn sem voru atvinnumenn í leikhúsi og Anna Rögnvaldsdóttir sem ekki heyrðist hátt í en dugnaðurinn og fagmennskan eins og best var á kosið. Allt pottþétt svo langt sem það gat náð. Aðal jólaefnið var barnaefni með Grýlu, Leppalúða og allri þeirri stórfjölskyldu.

Eyþór lék Leppalúða sem varð svo framlag Íslands til heimsfréttana um jólin.

Eftir áramótin fórum við að vinna við BINGO fyrir SÁÁ. Bingóið var keypt tilbúið af einhverju Dönsku fyrirtæki og virkaði þannig að stjórnandinn sat inni í upptökusalnum og las tölurnar upp af skjá. Vitað var fyrirfram hvenær BINGO yrði en gallinn var bara sá að það gleymdist að segja stjórnandanum frá því. Fólk átti að hringja í stjórnandann þegar það væri komið með Bingo, eitthvað ólag var á símanum þannig að það hringdi ekkert hjá Bingostjóranum. Hann hélt bara áfram að lesa tölur. Það hringdu svo margir að símkerfið varð óvirkt frá Vík í Mýrdal, vestur um og til Akueyrar. Þegar ekkert var símsambandið kom bara fólkið og allar götur milli Elliðaáa og Rauðavatns tepptust.


STÖÐ 2 V

 

Einu sinni voru hestamenn og lenti á mér að koma hestinum hans inn í upptökuna. Ekki ætlaði það nú að ganga, Eyþór kunni ráð við því hann setti bara hey á gólfið og í vasana hjá mér, þá fékkst Jarpur til að ganga í salinn. Laddi sýndi svo gestunum þennann kostagrip.

Einu sinni voru laxveiðimenn, þá var náð í stærsta uppstoppaða lax sem til var í landinu. Þegar við vorum að taka saman fannst einhverjum að það þyrfti að fara með laxinn fram í geymslu. Nokkrum sekúndum seinna hrundi Alli ljósamaður niður úr loftinu og trappan beint yfir borðið þar sem laxinn hafði legið.

Einu sinni var ég rétt fyrir hálf átta að útbúa  Shakesphere leikmynd fyrir Skúla rafvirkja, þá kemur Erna Kettler hlaupandi og spyr hvort einhver þarna kunni Sænsku. Málið var að Sænski kóngurinn var í heimsókn, ung fréttakona hafði talað við hann í Vestmannaeyjum og enginn skildi hverju maðurinn hafði svarað, ég gerðist sjálfboðaliði, fann út úr þessu en þá var enginn tími eftir til að samhæfa texta og mynd svo ég þurfti bara að ýta á einhvern takka á réttum stöðum í viðtalinu. Þetta slapp á seinustu sekúndunum. Þarna í upphafi voru fréttirnar útfærðar þannig að sá sem las gat stjórnað textanum sem hann var að lesa með pedala sem var undir fréttaborðinu. Ef vantaði myndefni með fréttum voru þarna tveir snillingar, Ómar Stefánsson og Steingrímur Eyfjörð sem teiknuðu bara myndasögu.  Þáttagerðin í ársbyrjun 1987 gekk bara vel eftirá séð,  um sumarið vorum við í einhverjum frakvæmdum komum okkur upp verkstæði í Krókhálsi 4, þangað sem markaðsdeildin flutti líka, fréttastofan flutti í ruslageymsluna hjá PLASTOS,  Svo  fórum við bara í sumarfrí. Þegar við komum aftur í byrjun ágúst stóð mikið til, Sviðsmyndir h.f. voru búnar að smíða mikinn fjölda af veggeiningum í stöðluðum breiddum sem var hægt að raða upp í leikmyndir af ýmsu tagi. Við Eyþór fórum að mála einingarnar og Björn G Björnsson kom með teikningar af einhverju sem kallað var "Heilsubæli". Grunnur Heilsubælisins var  segldúkur sem við strengdum á gólfið með öflugu límbandi, á dúkinn máluðum við Eyþór svo gólfflísamynstur, svo var veggeiningunum raðað upp. Fyrsta leikmyndin var sjúkrastofa og voru öll atriðin sem gerðust þar tekin upp á nokkrum dögum. Næst var læknastofa, við byrjuðum að breyta strax eftir fréttir,  á veggin hengdum við prófskírteini Saxa læknis sem búið var til úr ljósriti af skírteini förðunardömunar frá förðunarskóla í París. (Við límdum bara Sorbonne yfir Ecole de Smink).

Svo voru hengdar upp tvær myndir af fjölskyldu Kristjáns níunda. Til að gera veggina lúna var vökvi sem Brandur bruggaði úr svörtu kaffi með sykri og brúnni málningu, þessu var úðað á veggina, síðan strokið yfir með tusku á strategískum stöðum. Leikararnir æfðu sig í gerfileikmynd meðan við vorum að smíða og svo var generalprufan milli 1 og 2 á næturnar. Sumir leikaranna sváfu bara í sjúkrarúmunum. Eina nóttina var Brandur að hengja upp skilti á skrifstofuganginum, Jón Óttar var að selja Frönskum milljónerum hlutabréf í stöðinni og þeir voru væntanlegir í heimsókn daginn eftir. Þegar Brandur lokaði hurðinni vaknaði Gísli Rúnar Leikstjóri og fór fram í eldhús. Þegar hann gekk eftir ganginum sá hann skilti "Monsieur Dr. Jón Óttar Ragnarsson Président general", næsta "Monsieur Ragnar Guðmundsson Président Studio Islande".


STÖÐ 2 IV

Svo voru  kosningar í apríl og þeim tilheyrði kosningasjónvarp með miklu umstangi Guðný B. Richards hannaði leikmynd sem náði út í hvern krók og kima, salnum var hægt að skipta í tvennt með hljóðheldri rennihurð og var hún nú látin vera opin. Nóttina fyrir kosningadaginn unnum við alla, til aðstoðar höfðum við fengið einhverja stráka sem voru marga klukkutíma að útbúa krana til að hífa upp heljarmikinn sjónvarpsskjá. Klukkan þrjú var allt tilbúið og þeir skruppu í kaffi, Finnbogi Lárusson rafeindavirki átti leið þarna um og Siggi segir við hann: Getur þú ekki lyft skjánum hérna upp í loftið, meðan við festum krókana. Ekkert mál svarar Finnbogi, krókarnir á og Finnbogi út, verkið hefir í mesta lagi tekið eina mínútu. Strákarnir urðu skrýtnir á svipinn þegar þeir komu úr kaffinu.

Fréttirnar voru í austari endanum sem var minni en hinn og þar var leikmynd sem Sviðsmyndir höfðu smíðað, hún var öll á hjólum og gerð úr einingum sem krækt var saman.  Fréttabúnaðinn fluttum við í geymslu þarna í nágrenninu.

Að kosningunum loknum ætluðum við að sækja fréttaborðið en það rúllaði af stað í bílnum og brotnaði svo við spurðum Valgerði hvort þessi kosningaleikmynd mætti ekki vera áfram, jú hún sagði að það væri ágætt að breyta svo sendibíllinn var sendur beint á haugana. Þetta var hið besta mál því við vorum ekki í neinu standi til að stilla upp eftir allt kosningavesenið.

Einn daginn birtist nýr maður, Eyþór Árnason leikari sem ætlað var að vera sviðsstjóri þ.e. sjá um salinn og senda fólk inn á réttum tíma og annað í þeim dúr. Eyþór er svolítið merkilegur sem lýsir sér í því að hann er alltaf í sama góða skapinu, svo kunni hann ýmis trix sem hann útfærði með firnasterku límbandi sem hann gekk alltaf með á sér. Þarna um vorið varí gangi s.k. kaffibaunamál,

svo einn daginn sé ég Helga Pé, blaðafulltrúa Sambandsins kominn í vinnu þarna á stöðinni, þeirri hugsun laust niður í hugann hvort Sambandið hefði nú bara keypt sjoppuna til að losna við leiðinlegt umtal. Þegar að var gáð, kom í ljós að Helgi var hættur í baununum og kominn til okkar. Honum var ætlað að sjá um spurningaþátt sem hét Meistari. Páll Baldvin Baldvinsson var farinn að vinna við dagskrárgerðina, hann hafði átt leikhús sem lítið var eftir af annað en risastór svört tuska úr flaueli sem hægt var að breyta í fína leikmynd hvar sem var. Þetta kom sér vel því að Meistarinn var tekinn upp úti í bæ í virðulegu umhverfi s.s. í Þjóðminjasafninu og víðar. Ég varð hálfgert fylgifé þessa þáttar, vann við leikmyndina, var tímavörður og bjó til spurningar ef þær vantaði.

Með okkur í þessu var stúlka úr Skagafirði sem var mjög drjúg og hafði komið með hugmyndina að Happ í hendi og komið því öllu saman.

Í maí byrjuðum við á þætti sem hét "Allt í ganni", mjög góð uppskrift með tveim snillingum Júlíusi Brjánssyni og Þórhalli Sigurðssyni. Júlíus sat inni í stofu sem var bara tveir veggir með myndum og einhverjum munum sem tengdust efninu sem fjallað var um, en það ræddi Júlli við tvo gesti þáttarins. Þórhallur var í gerfi Skúla rafvirkja sem nú var orðinn ljósameistari þarna í studioinu og  hafði alltaf sömu áhugamál og gestirnir.


RANNSÓKNIR

 

Nú í nokkur ár hefir verið heilmikið talað um að flytja þurfi flugvöllinn í Reykjavík. Alveg hefir gleymst að athuga hvar nú er hægt að hafa þennan flugvöll . Flugmenn ýmsir hafa talað um að þessi og hinn staðurinn sé ómögulegur án þess að nokkrar mælingar hafi verið gerðar á veðurfari. Svo fannst staður og þá hafði gleymst að kaupa sérhæfð mælitæki til að mæla skýjahæð og munu nú líða mánuðir og jafnvel ár þar til mælingar geta hafist. Úti í Skerjafirði var einu sinni eyja sem sjórinn braut niður þegar örnefni urðu til virðist eitthað hafa verið eftir af eyjunni því einn serjaklasinn heitir hólmar. Efnið úr eyjunni er allt þarna á fjarðarbotninum og einfalt að ná því upp og gera úr því flugvöll. Til að hægt sé að búa eitthvað til þarf efni og oft spurning hvað mikið. Emil Jónsson var einu sinni vitamálastjóri, honum blöskraði hve veggirnir í vitunum voru hafðir þykkir og lét setja járnabindingu í veggina og gera þá 10 sentimetra þykka. Þetta gekk upp vitarnir standa allir enn óskemmdir. Sigurður Thoroddsen verkfræðingur gerði svipað, byggði raðhús við Miklubraut með 10 sentimetra þykkum veggjum. Húsin standa enn ósprungin eftir 60 ár. Manni finnst stundum eins og byggingareglur séu samdar af sölumönnum byggingaefna.  Nú eru menn sem rannsaka lífið í sjónum og eru kallaðir fiskifræðingar. Leyfileg veiði virðist vera í öfugu hlutfalli við fjölda fræðinga. Þegar enginn fiskifræðingur var veiddu allir eins og þeir gátu og alltaf nógur fiskur.  Svo fór fiskifræðingar að skipta sér af þessu og þá fóru veiðistofnar að minnka. Það var nefnilega smáfiskadrápið sem þeir vildu hindra og svo átti stofninn að stækka. En nú fer þorskstofninn bara minnkandi. Áratugum saman var veitt mikið af þorski hér við land sem hvergi var skráður. Breskir togarar vildu lengi ekki hirða þorsk og létu hann bara renna út um lensportið. Í endurminningum sjómanna má oft lesa um veiðar sem snerust um það að hirða stærsta þorskinn og oft talað um Hvalbaksmið í því sambandi.  Garðyrkjumenn þekkja þetta vel ef bil milli plantna er of lítið veslast þær upp.  Óheftar togveiðar hér við land virðast hafa verið grisjun, í og með.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband