Reykjavík 1957 XVI

 

 Jón átti heima í blokk sem ekki var alveg lokið við að byggja, þarna sá ég í fyrsta sinn dyrasíma og hélt að það ætti heima í húsinu Þjóðverji sem héti Licht.  Það var nú ekki svo heldur kviknaði ljós í stigaganginum þegar maður hringdi bjöllunni hjá Herr Licht. Nokkrir aðrir nemendur voru hjá Jóni og sátum við inni í stofu þar sem aðeins var búið að fernisbera veggina og í loftinu var Rússnesk ljósakróna. Eftir nokkur kvöld spurði Jón hvort ég gæti ekki komið í próf næsta laugardag klukkan tíu, á föstudagskvöldinu reiknuðum við prófið frá árinu áður, borguðum Jóni, borguðum og kvöddum. Jón var mjög rólegur og hógvær en afburða góður kennari. Morguninn eftir var svo prófið og þegar það var búið var ég orðinn nemandi í Iðnskólanum.   Bandaríkjamenn höfðu byggt geysistórt flugskýli á flugvellinum, skýlið átti að þjóna eldsneytisflugvélum sem voru til að fylla á flugvélar sem færu nálægt Íslandi á leið til Sovétríkjanna. Flugskýlið hafði aldrei almennilega komist í notkun vegna þakleka og kulda. Hitakerfið réði ekki við Íslenskt veðurfar. Ef kalt var úti og vindur var jökulkalt inni í skýlinu.

Nú var kominn tími til að bæta úr því. Þarna voru þrír stórir gufukatlar í ketilhúsi og einn minni. Nú átti að taka þann litla burt og setja stóran í hans stað.

Setja átti öflugri kynditæki á stóru katlana og setja sverari leiðslur í allt flugskýlið jafnframt því að setja stærri hitablásara. Þetta var svo mikið verk að fengin voru tvö fyrirtæki í það Vatnsvirkjadeildin var inn í skýlinu en við úti í ketilhúsi.  Ketillinn sem við settum inn var fimmtíu tonn og þegar við ætluðum að flytja hann til á rörum kom í ljós að þau höfðu lagst saman. Á hverjum degi klukkan tíu kom Jón Bergsson verkfræðingur í eftirlit ásamt Amerískum offísera í einkennisbúningi. Við vorum að setja við ný kynditæki sem stóðu á fótum og á fótunum voru röraflangsar með götum.


Reykjavík 1957 XV

 

Síðsumars 58´ hætti pabbi hjá Aðalverktökum og fór að vinna við fyrirtæki sem hann átti ásamt nokkrum öðrum pípulagningameisturum. Var þetta fyrirtæki einn af eigendum Íslenskra Aðalverktaka.  Hafði fyrirtækið tekið að sér pípulagnir í bíó sem verið var að byggja þarna á flugvellinum. Jóhann Valdimarsson og lærlingar hans unnu við þetta með okkur pabba.  Þegar við vorum að verða búnir með bíóið kom í ljós að það vantaði handrið á útitröppurnar. Jóhann sonur Jóhanns V. var  settur í að smíða handriðin sem áttu að vera úr 11/2" tommu rörum. Við fengum aðstöðu til smíðanna á verkstæðinu hjá Bergi. Ég var aðstoðarmaður hjá Jóhanni við þessa smíði og lærði mikið af honum. Við settum þetta saman úr rörum og suðubeygjum, hjálpuðumst að við að stilla upp, svo sauð Jói og ég slípaði suðurnar með þjöl svo þetta varð eins og heilt rör með svona kröppum beygjum. Fyrsta maí um vorið hafði ég gert námssamning við pabba og nú var að koma sér í Iðnskólann. Einn laugardag fyrir hádegi fór ég upp á Skólavörðuholt og skráði mig í skólann. Með mér var Perry Cornell sem var eftirlitsmaður með pípulögnum á flugvellinum. Hann hafði komið í heimsókn til okkar í Skerjafjörðinn en mamma var nú kominn heim af spítalanum. Perry þótti skólahúsið ógurlega flott en ég var svona í leiðinni að sýna honum Reykjavík. Af því ég hafði ekki verið í gagnfræðaskóla átti ég að taka inntökupróf sem átti að halda nokkrum dögum seinna. Hægt var að fara á námskeið í þeim greinum sem voru á prófinu, en þar sem ég var að vinna svo langt í burtu komst ég ekki á það.  Svo mætti ég í prófið og féll í reikningi. Ester sem var á skrifstofu skólans sagði mér að hafa samband við

 Jón Sætran kennara og hann myndi geta kennt mér það sem ég kunni ekki.

Eftir símtal við Jón var ákveðið að ég mætti heima hjá honum í Eskihlið næsta kvöld.


Reykjavík 1957 XIV

 

 Herinn rak bíó þarna á flugvellinum og höfðum við einnig aðgang að því. Mötuneytið var nú alveg heill heimur, það gat annað 2000 mönnum á klukkutíma og var hitað upp með stórum gufukatli sem bæði hitaði húsið og sauð matinn. Fiskur og kjöt var soðið í þrýstiskápum sem var lokað með hurðum sem voru svipaðar og lúgur á kafbátum. Maturinn var settur inn á grindum, lokað og gufunni hleypt á. Þá sauð maturinn í gufunni á nokkrum mínútum og ekkert vatn til að draga úr honum efnin.  Svo voru stórir pottar sem voru með gufukápu sem hitaði þá upp. Svo voru þarna eldavélar sem voru hitaðar með stórum olíukynditækjum. Óli var fastur viðgeramaður í mötuneytinu og var þar alltaf fyrir hádegi. Einu sinni á mánudegi bað hann okkur Eyjólf að hita og beygja fyrir sig koparstöng .

Eitthvert ólag virtist vera á gastækjunum því það slokknaði á þeim, þegar við ætluðum að kveikja aftur losnaði slangan af mæinum og eldblossi náði niður í gólf. Þegar við vorum búnir að skrúfa fyrir gasið tókum við eftir því að kúturinn var heitur. Steindór Jónsson sem var þarna að vinna með okkur hellti þá vatni úr fötu ofaná kútinn, þá heyrðist smellur og fjögurra metra eldstólpi stóð upp úr kútnum. Stólpinn strauk andlitið á Steindóri sem brenndist nokkuð. Nú þótti Bergi tími til kominn að hringja á slökkvilið og gerði hann það. Steindór fór á spítala og kom plástraður til baka. Slökkviliðið gat ekkert gert annað en að bíða eftir að gasið kláraðist. Þegar eldurinn var næstum slokknaður tók einn slökkviliðsmaðurinn kútinn á sekkjatrillu og setti hann út á götu þar sem eldurinn slokknaði svo endanlega. Oft hefi ég hugsað um það að enginn maður sem þarna var kunni neitt um gaskúta eða hvernig átti að bregðast við svona óhappi. Trúlega hefir þetta verið einnota kútur úr stríðinu með lélegri fyllingu.


Reykjavík 1957 XIII

 

 Næst þegar slitnaði sendi Bergur hann og Huga Hraunfjörð á staðinn, þeir lentu í einhverjum vandræðum og voru langt fram á kvöld að koma draslinu saman. Með þessu skipti Eyjólfur sér ekki meira af þessu. Verkstæðið okkar var í hálfri 400 frermetra skemmu í hinum endanum var rafmagnsverksæði sem Sigurður Þorvaldsson rafvirkjameistari stjórnaði. Vegna þess hvað ég var, lítill, mjór og liðugur fengu rafvirkjarnir mig stundum lánaðan ef þurfti að leggja rafmagn í þröngum rýmum.  Fékk ég þá kapalenda gegnum eitthvað gat, dróg hann til mín og stakk síðan út um annað gat sem lýst var gegnum með vasaljósi. Ferma átti dóttur Gvendar vorið 58. Karlinn þekkti konu sem vann í Civil Club og hún ætlaði að redda niðursoðnum ávöxtum sem ekki fengust í Íslenskum verslunum á þessum árum. Þegar við höfðun sótt ávextina fórum við með þá niður á verkstæði og földum í reykröri, svo morgunin eftir bað Gvendur mann sem vann í Stapafelli um að hringja í Berg og kvarta yfir ofninum í kaffiskúrnum þar uppfrá. Seinna um daginn bað Bergur okkur um að fara í Stapafell og gera við ofninn. Gvendur tók viðgerðan ofn ásamt reykrörinu með ávaxtafyllingunni og setti á pallinn á bílnum. Hjá Bergi fengum við verkbeiðni og pappír þess efnis að við mættum fara á bílnum út fyrir flugvallarsvæðið.  Á leiðinni í Stapafell var hlið og tollvörður í skúr Gvendur stoppaði við skúrinn og sagði tollverðinum að við værum komnir til að athuga ofninn í skúrnum. Karlinn opnaði ofninn og stakk skörungnum inn og krakaði í eldinn. Tollarinn þakkaði fyrir og við héldum áfram í Stapafell og fengum okkur kaffi og skiptum um ofn í kaffiskúrnum. Í bakaleiðinni fórum við heim til Gvendar í Keflavík og settum reykrörið með ávaxtafyllingunni inn í bílskúr. Aðalverktakar voru með ágæta tómstundaaðstöðu í sal sem var fyrir aftan mötuneytið þar voru nokkur billiardborð sem við höfðum aðgang að án endurgjalds. Svo var þar sjoppa og sjónvarpssalur.


Reykjavík 1957 XII

 

Húsin í Contractors Camp, voru af s.k. Armco gerð eiginlega grindarlaus og bara smellt saman á samskeytum voru plöturnar með vinkilbeygðum köntum sem virkuðu sem stoðir og sperrur. Sagt var að fimm menn gætu sett upp 150 fermetra hús á tíu tímum.

Íbúðarbraggarnir voru með tólf herbergjum og tveir menn í hverju.

Hreinætisaðstaða var í miðjunni, voru þar fjórar handlaugar, tvær wc skálar, tvær pissiskálar, tvær sturtur og skolvaskur, einnig var þar vatnshitari og olíuofn.

Einn olíuofn var í hvorum enda braggans.  Braggarnir voru 96 þannig að þarna gátu með góðu móti verið liðlega tvö þúsund menn. Ef ofnarnir voru bilaðir tókum við gvendur þá og fórum með á verkstæðið þar sem Óli tók þá í gegn, en við settum annan nýyfirfarinn í stað þess sem við tókum frá. Fyrsti kampurinn sem Bandaríkjamenn byggðu í Keflavík var Camp Nikel, sem látin var heita eftir Julius Nikel sem farist hafði í vinnuslysi skömmu áður en herflokkurinn sem hann var í var sendur til Íslands.  Þarna í Camp Nikel var nú verð að gera olíustöð og voru skurðgröfur að grafa fyrir olíuleiðslum. Ekki voru til neinar teikningar af leiðslum í jörðinni og því bara grafið þangað til að vatn fór að sprautast. Þá var hringt í Berg sem sendi okkur Gvend á staðinn með efni og vekfæri. Við söguðum skemmdurörin frá og snittuðum endana sem stóðu út úr skurðbökkunum, svo settum við múffu á annan endann og ,,union" á hinn. Svo mældum við nákvæmlega lengdina á rörinu og bjuggum til rör sem var 3 mm styttra. Með þessu var hægt að koma ,,unioninum" saman, svo var bara hert, þá drógst það til sem lausast var til í jörðinni. Þetta gerðum við nánast á hverjum degi og vorum komnir niður í ca. hálftíma með hverja aðgerð. Eyjólfur var eitthvað fúll yfir því hvað við vorum fljótir og sagði að Gvendur svindlaði, það væri bannað að teygja svona á rörunum.


Reykjavík 1957 XI

 

Ef eitthvað var blátt á litinn og hann þurfti að tala um það sagði hann alltaf ,,dökkt".  Bergur hafði aldrei verið lærlingur í pípulögnum. Bergur átti heima í Kaupmannahöfn þegar kreppan var. Yfirvöld vildu bæta ástandið og héldu námskeið til að kenna mönnum að búa til hitakerfi sem voru þá lítt þekkt í Danmörku. Bergur fór á svona námskeið og gerðist svo hitalagnaverktaki. Var honum hjálpað til þess af þessu atvinnusköpunar átaki með því að útvega lán með góðum kjörum til þess að kaupa verkfæri. Eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörk varð fljótlega lítið að gera vegna efnisskorts. Garðyrkjumaður einn bað Berg að bæta fyrir sig vatnsfötur með logsuðu. Fljótlega komu fleiri garðyrkjumenn í ömu erindum.

Eitthvað tókst karlinum að útvega af blikki því hann fór að setja nýja botna í fötur sem voru alveg botnlausar. Þetta vatt upp á sig, vegna efnisskorts var bara kveikt upp einu sinni í viku hjá stóru emaleringunni. Bergur fór nú að safna vaskafötum, koppum og ollu mögulegu emaleruðu dóti sem hann fór með í emaleringuna þar sem glerungurinn var bæddur af. Svo var soðið í götin og aftur í emaleringuna viku seinna, þá var nýr glerungur bræddur á og dótið varð eins og nýtt. Þetta varð heljar starfsemi umboðsmenn út um alla borg að kaupa koppa og Bergur var orðin vel efnaður í stríðslok þegar hann flutti aftur heim.

Okkar hlutverk á ,,Plumbing" var að sjá um alla olíuofna sem voru á vegum verktakanna og svo að vinna ýmis smærri viðhaldsverk. Ég var mikið með Guðmundi og höfðum við lítinn pallbíl til umráða, á mælaborðinu stóð:

 

,, Þessi bíll er eign bandarískra skattgreiðenda

   og kostaði 1632 dollara.

   Farið þess vegna vel með bílinn".

 

Þannig var þetta. Allt þarna suðurfrá sem Aðalverktakar notuðu var eign Bandaríkjamanna.

Reykjavík 1957 X

Á leiðinni í land sagði læknirinn að von væri á flugvél til Reykjavíkur og nú ætti Kratch að tala við umboðsmann flugfélagsins og athuga hvort hann fengi ekki far upp á að borga fyrir sunnan. Umboðsmaðurinn sagði sjálfsagt að hann fengi far og svo var hann kominn heim á Laugaveg 157 um kvöldið eftir sjö ára útiveru. Sighvatur var orðinn moldríkur og skilaði Kratch aftur verkfærunum en borgaði enga leigu.

Mamma var eitthvað lasin og fór til læknis. Læknirinn komst að því að hún væri með berkla og þyrfti að fara á Vífilstaði. Erla systir mín fór í fóstur til Ragnheiðar Pálsdóttur vinkonu mömmu og hennar systkina sem áttu heima í Nóatúni. Katrín fór í fóstur til Harðar bróður pabba og Siggu konu hans.

Ég átti bara að fara í vinnu með pabba suður á Keflavíkurflugvöll.

Íslenskir Aðalverktakar voru endanlega teknir við öllum nýframkvæmdum fyrir Bandaríkjamenn og var pabbi umsjónamaður allra nýframkvæmda í pípulögnum þarna á flugvellinum. Félagana í Skipholti kvaddi ég svo og hélt suður á flugvöll.   Aðalverktakar ráku pípulagnaverkstæði sem Bergur Jónsson pípulagningameistari stjórnaði. Hjá Bergi á verkstæðinu unnu Guðmundur Gíslason og Ólafur Hvanndal fyrrverandi sjómenn um fimmtugt,

einnig Eyjólfur J Sigurðsson ungur pípulagningamaður sem m.a. hafði farið í starfsþjálfun til Bandaríkjanna. Forstjóri Íslenskra Aðalverktaka var Helgi Bergs, Helgi lærði verkfræði í Kaupmannahöfn og fraus þar inni í stríðinu, þá var Bergur pípulagnaverktaki þar og skaut skjólshúsi yfir Helga sem var þá kornungur. Svo þegar Helga vantaði formann á ,,Plumbing Shop" en það var verkstæðið kallað, mundi hann eftir Bergi vini sínum og velgjörðarmanni.

Bergur var merkilegur karl, hafði verið bílstjóri í upphafi bílaaldar, þá var ekki búið að finna upp rúðuþurkurnar og þurfti bílstjórinn því að vera með hausinn úti í vondu veðri. Vegna þessa var Bergur allur blár í framan og kallaður

Bergur Blái. Það mátti aldrei minnast á þetta við hann.


Reykjavík 1957 IX

x

 

 

 Man ég eftir að hafa tekið við ávísunum hjá sambandinu og Símanum sem voru heil húsverðog farið með í bankann. Einn hængur var þó á þessu ég hafði aldrei í banka komið og vissi ekkert hvernig átti að leggja inn peninga. Einhvern vegin reddaðist samt þetta og aldrei var kvartað, en svolítið var ég smeykur.  Á hafnarsvæðinu í Bremerhaven fór Kratch að stofna til kynna við ýmsa menn og grennslast fyrir um mögulega ferð til íslands fyrir mann án vegabréfs. Einhver benti honum á skipstjóra sem var drengur góður og fiskaði mikið við Ísland. Þegar skipstjórinn kom næst í land fór Kratch á hans fund og sagði honum af sínum högum. Skipstjórinn sagði að honum væri velkomið að vera hjá sér hjálparkokkur en þar sem hann hefði ekkert vegabréf væri ekki hægt að skrá hann á skipið eða greiða laun. Kratch sagði að kaupið skipti engu því hann vantaði far heim. Skipstjórinn sagðist stundum þurfa að leita hafnar á Íslandi en það væri ekki nema eitthvað væri að. Kratch sagði þá að hann yrði um borð þangað til hann kæmist í land. Svo var lagt af stað og farið að fiska undan sunnanverðum vestfjörðum. Örfáum dögum eftir að komið var á miðin vakti skipstjórinn Kratch snemma morguns og sagði að nú væri hann heppinn en ekki maðurinn sem meiddi sig. Einn hásetinn hafði klemmt sig og væri með brotna hönd. Nú þyrftu þeir að fara til Patreksfjarðar og kæmi læknir um borð í togarann. Skipstjórinn sagði að þegar læknirinn væri kominn um borð ætti Kratch að gera sér upp mikil veikindi. Þá sagðist skipstjórinn ætla sér að vera búinn að segja lækninum frá hans högum og hann yrði úrskurðaður á sjúkrahús. Allt gekk þetta eftir að því undanskildu að Kratch gleymdi að leika veika manninn eftir að læknirinn var búinn að segja að hann væri með lífshættulega botnlangabólgu. Mennirnir á skipinu gerðu athugasemd við þetta en Kratch sagði að læknirinn hefði sprautað sig með morfíni.


Reykjavík 1957 VIII

 Öðru hvoru fékk Kratch sendingar að heiman sem í voru m.a. kaffi og sígarettur, þessu var safnað til síðari nota.  Vinnan í Skipholtinu gekk ágætlega, þegar kalt var í veðri kom Sighvatur stundum og kveikti upp í kolakatli sem var þarna í kjallaranum í katlinum brenndi karlinn öllum umbúðaafgöngum sem til féllu. Mikið af efni seldum við í Mjólkurbú Flóamanna sem þá var í byggingu oft var ég við að hlaða bíla frá þeim og man ég eftir einum sem tók fullfermi af gólfflísum sem voru í 30 kg kössum.

Kratch var voða sparsamur, í vinnunni reykti hann sígarettur sem hann vafði sjálfur svo til hátíðabrigða fékk hann sér eina ROY í hádeginu. ROY voru svokallaðar verkamanna sígarettur og kostuðu 7 kr pakkinn, CAMEL og LUCKY STRIKE kostuðu tíkall. Árið 1947 karlinn var kominn með nóg af sígarettum þarna úti í Dresden kvaddi hann vini sína og lagði af stað í ferðalag til Íslands. Þýskaland var alveg lokað og bútað niður í hernámssvæði, þurfti sérsaka passa til að komast milli þeirra. Eftir ævintýralegt ferðalag komst Kratch til Bremerhaven, hann var með bréf frá Íslenskum yfirvöldum þess efnis að hann væri velkominn enda ætti hann hér fjölskyldu. Þarna í Bremerhaven fór hann niður að höfn til að kanna aðstæður. Til að komast inn á hafnarsvæðið þurfti passa sem vörður í hliði skoðaði. Kratch tók eftir því að snemma á morgnana var svo mikil umferð að vörðurinn komst ekki yfir að skoða nema fáa passa, ráðið var þá að slást í hópinn og fljóta með honum inn. Svo fór hann að heilsa verðinum og þá gat hann gengið út og inn á hvaða tíma dags sem var. Haustið 1957 gekk hér influenza sem var kölluð Asíu flensa. Hjá  Sighvati fengu allir flensuna nema ég og Sigurbjörg. Alltaf var opið í Skipholti og hringdi Sigurbjörg þangað ef þurfti að reka brýn erindi í bænum. Fór ég þá í Garðastræti á hjólinu og fékk fyrirmæli. Þetta var aðallega að fara í fyrirtæki og sækja greiðslur og leggja inn í banka.


Reykjavík 1957 VII

 Svo fór Stebbi bara út á flugvöll, kom spilvírnum á klumpinn og keyrði hann heim í Steinabragga. Köggullin var svo bræddur niður í frostlagarbrúsa þannig að til urðu 60 kílóa einingar.  Sighvatur Einarsson hafði byrjað sinn pípulagnaferil sem aðstoðarmaður hjá Kratch þegar báðir unnu hjá Funk. Í lok fjórða áratugarins byrjuðu þeir svo með eigin rekstur og fengu vinnu við verkamannabústaðina sem var verið að byggja í Einholti.

Nokkrum vikum eftir að Bretar hernámu Ísland vorið 1940 var Kratch handtekinn og fluttur í öryggisgæslu til Bretlands en þar var hann lengst í búðum á eynni Mön. Eitthvað var verið að láta fangana vinna en það var allt einhver vitleysa eftir því sem Kratch sagði. Rauði Krossinn sendi föngunum pakka með mat og sælgæti, pakkarnir voru búnir að vera svo lengi á leiðinni að brjóstsykur sem í þeim var, var orðin að einum köggli. Kratch fór nú að kaupa svona köggla og lagði í en svo vantaði eimingartæki. Fangabúðirnar voru síðan í fyrri heimsstyrjöld og höfðu verið lýstar með gasi. Nú var komið rafmagn en gasrörin voru ennþá uppi, Kratch tók bara niður svolítið af rörum og notaði í bruggtæki.

Bruggið seldi hann svo samföngum sínum og keypti meiri brjóstsykur.

Nokkru fyrir stríðslok var Kratch sendur heim til Þýskalands í skiptum fyrir Breska fanga. Af því hann hafði farið frá Dresden 1917 var hann sendur þangað aftur.  Þegar stríðið var búið var Dresden á Rússneska svæðinu. Borgin var í rúst, gas og rafleiðslur allar í sundur. Með leyfi rússanna fór Kratch nú að smíða kolaeldavélar og ofna var það í félagi við mann sem rússarnir höfðu sett í að passa risastóra flugvélaverksmiðju. Í verksmiðjunni var nóg af efni, álprófílar og plötur.  Borðið steyptu þeir úr brotajárni. Rússarnir keyptu mikið af ofnum til að hita upp varðskúra. Kratch sýndi mér myndir úr verksmiðjunni þar sem m.a. starfsfólkið stillti sér upp við eina eldavélina, en auk vaktmannsins unnu þarna nokkrar konur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband