Grænland 1960 IV

x

 

 

 Mælingar sem ég hef gert benda eindregið til þess að þetta hafi verið smíðað eftir sömu teikningu. Sagt var að skipið hafi verið hannað af vængstýfðum kafbátaverkfræðingi, hann hefir e.t.v. hugsað sem svo að best væri að láta þessa Íslendinga eignast eitt skip með almennilegu stýrishúsi. Eða þá bara af gömlum lager. Vistarverur voru fyrir fjörutíu manna áhöfn, allt rúmgott og snyrtilegt. Kl.18.00 var svo ræs, þegar út kom var verið að hífa inn bobbingalengjuna sem kom niður með miklum dynkjum, varð ég þá hálfsmeikuur. Þegar ég kom út,eftir matinn, var einhver hvinur og hávaði, skyndilega heyrðist öskrað ofan af brúarvængnum; "komdu þér inn mannhelvíti, við erum að slaka út". Ég hrökklaðist tilbaka, en áttaði mig ekki á því að þröskuldar á skipum geta verið fimmtíu sentimetra háir, því datt ég á rassgatið inn í dekkhúsið aftur. Þegar ég loksins komst fram á dekkið, var aftur öskrað úr brúnni, "komdu hérna upp", það var aftur skipstjórinn. Þegar upp kom hitti ég einhvern allt annan mann en var á skrifstofu Bæjarútgerðarinnar, andlitið var öðruvísi og þessi var í ógurlegri múnderingu. Á fótunum hafði hann gamla spariskó sem voru hælkappalausir, buxurnar voru gatslitnar gallabuxur, allar trosnaðar, peysan var mórauð greinilega komin til ára sinna, svo var hann í brúnni úlpu sem var orðinn vatnsþétt af skít, ekki voru eftir neinar tölur á úlpunni, henni var haldið saman með kjötpoka sem bundinn var um mittið. Annan kjötpoka hafði hann um hálsinn, á höfðinu var sixpensari sem gæti hafa verið keyptur í sömu kaupstaðarferð og úlpan. Talaðu við loftskeytamanninn, sagði skipsjórinn og benti á dyr aftur úr brúnni. Þar fyrir aftan var kortaklefi og aftast loftskeytaklefi, þar var loftskeytamaðurinn Guðmundur Pétursson og annar maður, nýi stýrimaðurinn Gunnar Jónsson. Var hann eitthvað að þrefa við Gvend, sagðist vera heimilislaus en gisti á Hótel Blikk þegar hann væri í landi, fór svo út.


Grænland 1960 III

x

 

 

 Eini maðurinn sem ég hafði séð áður var Eyjólfur Þorvarðarson frá Bakka á Kjalarnesi kallaður Eyjólfur bóndi. Eymar sagði mér að sjá um nálakörfuna og sýndi mér hvernig ætti að gera, alltaf að taka innan úr rúllunni, drengur og rekja úr henni á móti sól. Garnið var af þrem gerðum; þrítvinnungur, fjórtvinnungur, og pokagarn. Þrítvinnungurinn var undinn á nálarnar tvöfaldur, en fjórtvinnungurinn ýmist einfaldur eða tvöfaldur. Var hann notaður til að bæta netið en þrítvinnungurinn í ýmsan saumaskap og samsetningar. Ef einhver kallaði fjór þá kastaði ég til hans fullri nál af fjór og fékk fljúgandi tóma nál til baka, sama var ef einhvern vantaði þrítvinnung. Mennirnir voru að vinna í mér gjörsamlega óskiljanlegri netahrúgu þarna á dekkinu, það voru skornir bútar úr netinu og ýmist sett í ný stykki eða bætt ef skemmdirnar voru ekki miklar, mér var gjörsamlega óskiljanlegt hvernig mennirnir áttuðu sig á þessu öllu saman. Kl. 12.30 vorum við svo leystir af, af dagvaktinni, þá var matur og svo koja.

Skipið  Þormóður Goði var smíðaður í Seebeck skipasmiðjunni við Weserfljót í norður Þýskalandi og afhentur Bæjarútgerðinni vorið 1958. Hann var 848 rúmlestir knúinn 1600 hestafla Krupp dieselvél, plöturnar í byrðingnum voru rafsoðnar saman og hnoðaðar við böndin, þannig að kostir beggja aðferða voru nýttir. Skipið var gert til að veiða í salt við Grænland og gat borið liðlega 500 tonn af saltfiski, ef veitt var í ís var hægt að troða 360 tonnum í lestina.

 Yfirbyggingin var á þrem hæðum og virtist brúin, sem var stór og rúmgóð, ekki svona frá fagurfræðilegu sjónarmiði passa á skipið. Mörgum árum seinna, rakst ég á í bók, teikningu af orrustuskipinu Bismarck og var lokaða siglingabrúin á því grunsamlega lík brúnni á Þormóði.

Forstjóri ritverkamiðstöðvarinnar mun fara í berjamó seinna í dag og verður næsta færsla á sunnudag.

Kv.

Gestur


Grænland 1960 II

 

klukkan tvö", svo hvarf maðurinn. Ég fór heim að sækja peninga fyrir sjógalla og segja þessi tíðindi.

Þegar heim kom aftur með gallann, hafði pabbi hitt Jón frænda á Hörpugötu 7. Jón sagði að skipið væri Þormóður Goði, flaggskip Bæjarútgerðarinnar og skipstjórinn væri Hans Sigurjónsson, einhver mesta aflakló á Íslandi. Botnaði hann ekkert í hvernig Gestur gjörsamlega óvanur hefði komist í slíkt skipspláss, en sagði að þetta yrði mikil vinna og miklir peningar hjá svona úrvalsskipstjóra. Við pabbi fórum svo með Steindórsbíl, niður að höfn daginn eftir, það var einhver orðrómur um seinkun svo pabbi fór áður en skipið lagði frá, einhver sagði mér að finna koju frammí og fékk ég efri koju í fjögurra manna dekklúkar. Áhöfnin var að týnast um borð, þetta voru mestanpart hinir stæðilegustu menn og greinilega þaulvanir sjómenn. Skyndilega kemur maður og segir mér að hann hafi verið þarna fyrsti stýrimaður, sé hættur og það sé verið að leita að stýrimanni, brottför sé frestað til kl. tíu um kvöldið, svo það var ekki annað að gera en fara heim aftur. Klukkan tíu var svo farið út, ég ætlaði að gera eitthvað en það gekk frekar illa því ég skildi ekki almennilega það sem karlarnir sögðu, töluðu hratt og notuðu orð sem ég vissi ekki að væru til, um verk sem ég vissi heldur ekki að væru til. Það fór svo, að ég fór að hjálpa einhverjum manni að skrúfa á lúgurnar, þar var ég píparinn á heimavelli. Kl. 00.30 voru vaktaskipti og fengu menn sér næturmat áður en farið var í koju. Kl. 06.00 var ræs og þá var morgunmatur; hafragrautur, skyr, brauð og kaffi. Morgunvaktin leysti svo næturvaktina af kl. 06.30, yfirmaður vaktarinnar var Eymar Karlsson bátsmaður, úr Bolungarvík, jafnflinkasti sjómaður sem ég hefi kynnst, aðrir voru flinkari á köflum en hrundu svo þegar á reyndi.

Grænland 1960 I

Nú var kominn ný ríkisstjórn, viðreisnarstjórnin felldi hún gengið með þeim afleiðingum að allar innfluttar vörur hækkuðu í verði og margir töluðu um að aldrei yrði hægt að byggja meir. Við feðgar vorum nú ekki grónir á markaðnum og höfðum fljótlega ekki mikið að gera. Ástandið fór svolítið í mig og ég sagði karlinum að ég yrði bara að koma mér til sjós. Kannski var ég að ýta á pabba til þess að hann fyndi eitthvað verkefni.

 Það var svo nokkrum dögum seinna að við erum að éta ýsuna heima á Hörpugötu og kveikt var á útvarpinu, Jón Múli að lesa tilkynningar, þar á meðal að það vantaði háseta á nokkra togara. Þá segir pabbi: "Nú er tækifærið, nú getur þú komist á skip". Þegar hann sagði þetta var verið að lesa tilkynningu frá Jóni Forseta. Ég tók karlinn á orðinu, fór í bæinn á skrifstofu útgerðarfélagsins Alliance, í Tryggvagötu, þar var fyrir góðlegur fullorðinn maður, leist honum prýðilega á að ég yrði háseti á Forsetanum en sagði að skipsjórinn réði þessu, sá hét Árni og ætti heima í Skeiðarvogi.

Ég fór þangað í strætó, en ekki leist Árna á mig sem háseta. Í strætó niður í bæ fór ég að hugsa um hvort það hefðu ekki verið fleiri skip sem auglýstu laus pláss , mundi að það var eitthvað sem byrjaði á Þor, sennilega Bæjarútgerðin, fór þangað á kontórinn og hitti öldung nokkurn sem tókst allur á loft þegar ég bar upp erindið, svaraði hann því að skipstjórinn væri nú þarna. Heyrði ég þá kallað úr næsta herbergi: "Er kominn maður", og snaraðist út þaðan maður nokkur snaggaralegur sem spurði hvort ég væri vanur. Nei ég hafði ekki verið á togara. Þá spurði maðurinn: "Aldrei verið á neinum bát". "Nei". "Ertu alveg viss um það", spurði maðurinn. "Ja, ég hefi verið á grásleppubát", svaraði ég. "Mig vantar einmitt svoleiðis mann, þú verður með okkur, við förum á morgun

Reykjavík 1957 XXII

Á morgnana mættum við í olíustöð Olíufélagsins sem var úti á flugvelli og fengum lista yfir biluð kynditæki sem við svo gerðum við. Mikið tengdist þetta frostinu því að í olíunni var vax sem storknaði í frosti og þá drapst á fýringunni.

Ef einhver truflun varð á eldinum sló öryggi út og þurfti maður oft ekki að gera annað en setja það inn aftur. Allur þessi búnaður var svo fullkominn að lítill möguleiki var á að kviknað gæti í. Þess vegna hefi ég aldrei geta skilið hvernig olíukynditæki gat kveikt í sumarbústað Forsætisráðherrans á Þingvöllum.

 Um vorið höfðum við klárað að steypa upp húsið okkar í Skerjafirðinum og settum nú í það hitakerfi sem við tengdum ofnana í gamla húsinu við. Í Garðabæ var Kaj nokkur Jörgensen að byggja sér hús innan við sökkulveggina hafði hann lagt sex tommu skolprör allan hringinn og tengt við steyptan brunn í kyndiklefanum. Við útveggina voru op upp í herbergin og svo átti að blása heitu lofti ofan í brunninn inn í hebergin um þessi op. Þarna settum við upp ketil með hitaelimenti og blásara, virkaði þetta prýðilega.


Reykjavík 1957 XXI

 

Svo var komið að Iðnskólanum aftur, nú í annan bekk, nýjir kennarar nýtt námsefni. Nú var það rúmteikning, jöfnur og eðlisfræði m.a. Georg Sigurðsson kenndi Íslenskuna jafn lítillátur og Sigurður S. var montinn.  Nú vorum við látnir læra Dönsku og sá séra Leó Júlíusson um það. Annar prestur séra Jón Pétursson. Georg sagði að dönskukennararnir væru séra Jón og séra Ljón.

Séra Jón þéraði alla og sagði einu sinni: Heyri þér mig, þér sem, sitjið fyrir aftan yður, vilduð þér ekki lesa núna.   Sigurður Richardsson kenndi okkur eðlisfræði og gerði það skemmtilega, sýndi okkur hvernig var hægt að breyta vatni í vetni og súrefni og kallaði það kvelloft. Kvelloftið hafði Sigurður í tilraunaglasi og kom heilmikill kvellur þegar kveikt var í loftinu. Innan á glasið kom móða, sem var vatnið sem hafði verið klofið sundur. Sigurður skýrði vandlega út fyrir okkur hvernig málmar tærðust og ekki mætti setja saman málma með ólíka eiginspennu.    Reikninginn kenndi okkur ungur maður sem var að læra verkfræði. Reikningstímarnir voru seinastir á daginn.

Það höfðu verið fréttir af blóðskorti í Blóðbankanum. Einn strákurinn stingur nú upp á því við reikningskennarann að við förum og gefum blóð. Það leist kennaranum vel á og löbbum við því allir út í Blóðbanka. Þar urðu allir voða glaðir að fá svona stóran hóp. Yfirhjúkrunarkonan spyr hvort það sé enginn kennari? Jú það er víst ég segir þá verkfræðineminn sem var álíka gamall og við. Þetta fannst fólkinu í Blóðbankanum voða fyndið og fór að hlæja. Svo hlógum við líka og þetta varð heljarmikill hláturkór. Þegar til kom reyndust sumir vera of ungir til að gefa blóð en einn sem heitir Jóhannes Borgfjörð, kallaður BOGGI var svo stór og feitur að það þótti óhætt að tappa svolitlu af honum. Þegar við gengum niður Þórsgötuna sagði BOGGI: Maður er nú bara allur léttari eftir þetta. Svo kláraðist skólinn. Í desember kom mikið frost og þá fengum við feðgar mikla vinnu við olíukyndingaviðgerðir út um allan bæ.


Reykjavík 1957 XX

 Fyrir nokkrum árum hafði ég samband við Val Ingimundarson sagnfræðing og sagði honum frá þessum grunsemdum mínum. .  Norski sagnfræðingurinn Mats Berdal var búinn að finna út að kafbátaleitarflugvélar myndu koma til Noregs með kjarnorkudjúpsprengjur frá Íslandi.  Af einhverjum ásæðum taldi Berdal að AUW væri í Hvalfirði.

Valur fór svo að leita á skjalasöfnum í Ameríku að pappírum sem tengdust Íslenskum Aðalverktökum og AUW SHOP á árunum 58 og 59. Leitin bar þann árangur að skjölin staðfestu frásögn mína af þessu verkstæði. Til að koma þessu betur á hreint datt mér í hug að taka myndir af verkstæðinu. Á föstudaginn langa árið 2000 fórum við Vilmundur Kristjánsson suður í Hafnir og reyndum að taka myndir þaðan með 1500 mm aðdráttarlinsu. Þegar við vorum að leggja af stað þaðan sáum við þyrlu sem virtist fylgjast með okkur. Þyrlan flaug samsíða okkur út á Reykjanes, þar fórum við að taka myndir og þyrlan hringsólaði yfir okkur. Þegar við fórum áleiðis heim sáum við að Íslenska lögreglan var búinn að loka veginum og var að tala við kínverska sendiráðsmenn sem voru komnir inn í lögreglubílinn.  Ég keyrði ósköp varlega framhjá lögreglubílnum og til Reykjavíkur á löglegum hraða. Haustið 2000 fór ég til Finnlands og var tilbúinn með myndavél ef ég myndi sjá minn gamla vinnustað út um gluggann á flugvélinni.  Heppnin var með í þetta sinn, flugvélin ók á brautarenda eftir keyrslubraut sem var rétt við gaflinn á AUW svo ég náði prýðilegum myndum se ég lét Val I hafa. Nýlega fór ég svo þarna um og sá að Bandaríkjamenn hafa jafnað verkstæðið við jörðu áður en þeir yfirgáfu Ísland. 

Þegar við höfðum lokið verkstæðinu var ekki meira fyrir okkur feðga að gera þarna suðurfrá. Karlinn sendi mig til að klára hitakerfi vestur á Seltjarnarnesi í íbúð sem Björn Blöndal og hans kona höfðu nýlega keypt. Fyrri eigandi hafði lagt stofnana en átti eftir að kaupa ofna og tengja. Ég setti nú upp ofnana og tengdi, var það fyrsta verkið sem ég vann í pípulögnum einn og hjálparlaust.


Reykjavík 1957 XIX

Í seinasta tímanum fyrir lokapróf, las Áki upp nöfn nokkurra stráka  og sagði að þeir þyrftu ekki að koma í prófið nema þeir vildu fá hærra en átta. Ég var einn þessara. Þegar tvær vikur voru liðnar af skólatímanum var auglýst námskeið við skólann í uppsetningu og meðferð olíukynditækja. Ég fór á skrifstofuna og spurði hvort ég mætti vera með. Jú það var allt í lagi og mætti ég svo kl átta  um kvöld nokkrum dögum síðar.

Aðalennari á námskeiðinu var Pétur Pálsson verkfræðingur og kenndi hann það bóklega í tvo tíma og svo var verklegt á eftir sem Kristján Flygenring verkfræðingur sá um ásamt sonum Sigurjóns Einarssonar ketilsmiðs. Þegar skólinn varð 90 ára 1994 var gefið út afmælisrit þar sem stendur að þetta hafi verið fyrsta framhaldsnám fyrir iðnaðarmenn sem haldið var í skólanum.

Við tókum svo próf um vorið í þessum kyndtækjafræðum og fórum í kynnisferð austur á Selfoss þar sem við skoðuðum Mjólkurbú Flóamanna sem þá var nýbyggt. Þar voru heljarmiklar pípulagnir sem Pétur og Kristján höfðu hannað með Jóhannesi Zoëga. Á heimleiðinni áðum við í Eden sem þá var alveg glænýr staður. Svo þegar skólinn var búinn um vorið fór ég aftur í vinnu suður á flugvöll, þar fór ég aftur að vinna við þetta verkstæði og nú kom sér vel að ég hafði verið á námskeiðinu hjá Pétri því vegna sprengihættu var allt hita og rakastýrikerfi loftknúið. Pabbi setti mig nú í að koma þessu kerfi saman ekki fylgdu þessu neinar teikningar svo ég tók bara alla hlutina og leiðbeiningar sem fylgdu hverjum hlut og deildi þessu niður á hitarana. Á hlutunum stóð ýmist M eða B við stútana og sagði pabbi að M þýddi Main og B Branch eða grein. Svo fór þetta allt saman á endanum og virkaði ágætlega. Seinna meir fór ég að spá til hvers þetta verkstæði hafi verið byggt. Á nokkrum áratugum fann ég út að sennilega hafi þetta verið hleðslustöð fyrir kjarnorkusprengjur.


Reykjavík 1957 XVIII

Þegar ég spurði hvernig á þessari eign stæði var svarið að hann hafi alltaf eignast einhverja aukapeninga gegnum Aðalverktaka, sem sendir voru frá Ameríku til Spánar. Einu sinni þegar ég vann hjá Bergi var ég látinn snitta heilmikið af fjögurra tommu rörum sem áttu að fara í radarstöðina á Langanesi. Fjörtíu árum seinna var ég að tína ber við Hreðavatn og rakst þá á þessi rör sem voru orðnir  girðingastaurar við sumarbústað.  Þarna í ketilhúsinu settum við upp nýtt safnrör sem var tólf tommur í þvermál og nýjan stofn inn í flugskýlið sem var átta tommur. Vegna þess hvað ég var lítill sendu karlarnir mig inn í katlana til að vinna eitthvað sem þurfti að gera þar, það var ógurlega sóðalegt. Þegar flugskýlið var að klárast vorum við Daníel Einarsson sendir eitthvað langt í burtu þar sem verið var að byggja sprengjuverkstæði sem kallað var

,,AUW SHOP". Okkar hlutverk var að setja inn ketil og leggja bráðabyrgðahita, svo hægt væri að vinna í húsinu, því  kalt var úti.  AUW SHOP var handan við flugbrautirnar og engin byggð nærri, húsið var byggt þannig að ef sprenging varð inni í því, áttu veggirnir að detta úr í heilu lagi og þakið að fjúka af en það var gert úr gifs einingum sem voru örþunnar. Nú var komið að því að fara í Iðnskólann, þar byrjaði ég í byrjun mars 59" . Þar vorum við látnir læra reikning, skrift, Íslensku, blokkskrift, fríhendis og flatarteikningu. Sigurður Skúlason kenndi okkur Íslenskuna  og saði að við lærðum hjá sér það sem tækji þrjár vikur að læra niður í Lækjargötu (MR). Reikninginn kenndi Áki Hjálmarsson með ógurlegum látum og skipaði strákunum að opna gluggana ef eitthvað var vitlaust, það átti nefnilega að hleypa vitleysuni út. Kennararnir voru flestir búnir að vera þarna í áratugi og kunnu þetta allt upp á hár. Ennþá var kennt fyrir hádegi á laugardögum og var Áki þá alltaf með próf til að athuga hvernig vikan hefði komið út.


Reykjavík 1957 XVII

 

 

Kaninn gerði athugasemd við að flangsarnir væru ekki boltaðir við gólfið. Kynditækin voru boltuð við katlana þannig að þau gátu ekkert farið götin á flöngsunum voru á þeim vegna þess að þetta voru bara vanalegir röraflangsar. Þegar kaninn var búinn að biðja um þessar festingar í tvær vikur sagði Jón: ,, Strákar getið þið ekki sagað hausa af bolltum og sett í götin til að friða manninn".  Við gerðum það og offíserinn þakkaði fyrir með virktum daginn eftir. Jón var menntaður í Þýskalandi og nennti ekki að bíða eftir að prófskírteinið væri tilbúið úr háskólanum. Hann skrifaði út og bað um að skírteinið yrði sent í pósti. Hann fékk það svar að beiðni um slíkt yrði að vera staðfest af lögreglunni. Jón bjó þá til staðfestingu á bréfsefni Íslenskra Aðalverktaka og stimplaði með skjaldarmerki á túkalli.

Skírteinið fékk hann sent í ábyrgðarpósti. Þega við vorum að klára bíóið var einn morguninn komið kynningarplakat í glerkassann utan á húsinu.

 

 Þar stóð:

 

Coming Soon:

ON THE LAST TURN

STARRING  NN og NN

 

NN voru forkólfar Aðalverktaka sem ekkert voru áhugasamir um að verkin kláruðust á réttum tíma svo fyrirtækið lenti oft í dagsektum.

Því hefir verið haldið fram að þessir forkólfar hafi svo náð dagsektunum til baka eftir krókaleiðum og lagt inn á bankareikninga í Ameríku. Fyrir nokkrum árum gisti maður sem ég þekki á Spönsku hóteli sem var í eigu eins þessara manna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband