4.9.2007 | 14:57
Grænland 1960 XIII
Skipstjórinn kallaði og sagði að ekki mætti nota brunaslönguna, nema á eld. Þetta er neyðarástand, svaraði vélstjórinn, hér flýtur allt í blóði. Næsta tog gaf fimm poka. Þegar ég fór í koju um eittleitið var mikill fiskur á dekkinu. Ræs, glas, skipið rann áfram, eina hljóðið sem heyrðist var niðurinn í vélinni. Sjórinn var spegilsléttur, Vatnsleysuströndin og Kálfatjarnarkirkja spegluðust í sjónum eins og málverk eftir Tólfta September. Þegar ég var á leið út eftir morgunmatinn rétti yfirvélstjórinn mér fötu sem í voru skrúflyklar og sagði að það þyrfti að losa lúgurnar. Þetta er örugglega ekki Lykla-Pétur hugsaði ég. Á bryggjunni beið löndunargengi og tveir kranar. Á leiðinni heim mætti ég Runólfi rakara Eiríkssyni í Hafnarstræti. Hvað hefir komið fyrir þig, þú ert eins og api, allur loðinn í framan. Inn á rakarastofuna strax!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2007 | 06:52
Grænland 1960 XII
Mér sýndist að orðið "súrra" þýddi það, að festa ætti aftari endann á bobbingalengjunum við afturgálgana, lása trollvírunum í fremri endann, bobbingalengjurnar voru festar með keðjum við lunningarsoðirnar, svo var híft í þetta með spilinu og bremsurnar hertar í botn. Nú verður hamagangur, sagði bóndinn þegar við höfðum gengið frá á dekkinu. Þetta reyndist rétt, því þegar ég var að éta súpuna um kvöldið, fór skipið á hliðina, súpan af mínum diski fór í loftinu yfir Eirík Eyjólfsson sem sat handan borðsins. Eirík sakaði ekki, en ég fékk það litla,sem eftir var á diskinum í fangið þegar skipið rétti sig við. Þegar við höfðum verið u.þ.b. tvo sólarhringa á siglingu, stöðvaðist skipið skyndilega, þetta var rétt eftir kvöldmat. Láta það fara, tvöhundruð og fimmtíu. Hvar erum við núna spurði ég bóndann, við Eldey sýnist mér á fuglunum, svaraði hann. Hvaða fiskur er þar, "þorskur" sagði bóndinn. Eftir klukkutíma var híft, sjö pokar, tuttugu og eitt tonn, gulur þorskur, feitur og fallegur. Fallegasti afli sem ég hef séð, bingurinn náði frá forgálga aftur að spili. Nú sá ég hvernig Grindvíkingar og Bolvíkingar gera að fiski, engin aðgerðarborð, röðuðu sér á þetta og allt í höndunum. Mennirnir voru eins og stórvirk vinnuvél sem færðist fram eftir þessum bing. Ég var í þvottakarinu og hafði ekki undan, en skyndilega barst mér liðsauki. Það var öflug vatnsbuna, sem kom frá spilinu, þar stóð yfirvélstjórinn skorðaður, með brunaslöngu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2007 | 06:15
Grænland 1960 XI
Á innri koppinn fór húkkreipið frá afturgálganum. Róparnir voru þræddir gegnum stroffur á höfuðlínunni og útendarnir festir í bobbingalengjuna, þannig var bobbingalengjan hífð upp á síðuna og höfuðlínan fylgdi með. Í aftari kvartinn var lásað vír sem festur var í toppinn á afturgálganum. Í framkvartinn var stóri gisinn settur, en það var vír sem þræddur var gegnum blökk sem var efst í mastrinu að aftan. Þegar gilsinn tók í kvartinn kom miðjan af bobbingalengjunni inn fyrir og hafði með sér miðjuna af höfuðlínunni. Í miðjuna á höfuðlínunni voru fest tvö tóg "Rússi og stertur" "Rússinn" var tekinn gegnum ferliðu og hífður inn á spilkopp, en "sterturinn" halaður inn á höndum. "Rússinn" var festur við belglínuna, þar sem belgurinn tengdist vængjunum, var þá sett snörla á belginn með henni var tekin ein færa. Svo kom galdurinn, vegna þess að stýrishúsið var nánast jafnbreytt skipinu, hafði verið sett blökk í litla uglu, sem fest var við stýrishúsþakið, þetta var loftgilsinn með honum var lokafæran tekin. Næst var litli gilsinn settur í vírsertinn, talía í pokagjörðina og pokinn hífður innfyrir lunninguna þar sem bakstroffan greip hann. Pokamaðurinn snaraðist undir og leysti frá og fiskurinn sturtaðist á dekkið. Áfram var haldið, ís, rok, ágjöf, og heitt kaffi úr hvítum krúsum með hanka, það hjálpaði. Ef trollið var ekki hengilrifið var afli ágætur. Svo þegar ein lægðin enn var að ná sér á strik, með tilheyrandi hafróti og látum, heyrðist úr brúarglugganum: "innfyrir, binda upp og súrra". Meðan við vorum að ganga frá veiðarfærum og afla var skrúfan látin snúast hægt afturábak, skipið var þá eins og risavaxinn vindhani sem flaut á sjónum.
xBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.9.2007 | 08:58
Grænland 1960 X
Skömmu síðar stöðvaðist skipið og skipstjórinn kallaði, "látaða fara". Við Jói stóri komum út forhleranum og svo var trollið híft út með pokabómunni. "Fjögur hundruð og fimmtíu í gálga", heyrðist kallað úr brúnni. Við fengum okkur kaffisopa, því stranglega var bannað að vera úti meðan slakað var út. Í kaffinu spurði ég Grindvíkinginn Sigmund Guðmundsson varastýrimann , hvað fjögurhundruð og fimmtíu þýddi. Það þýðir að við erum á hundrað og fimmtíu föðmum og það verður karfi í trollinu. Eftir klukkutíma tog var híft. Ekkert í sögðu karlarnir, enginn poki upp. Við hífðum inn fimm poka, þar af voru þrír einhver sjávargróður sem var kallaður ostur. Gilsa á hlerana, við erum ekki Mjólkurbú Flóamanna, heyrðist úr brúnni. Siglt í korter, slaka, fimmhundruð í blökk. Híft eftir klukkutíma, þrír pokar af karfa og nokkrir þorskar. Þetta er Grænlandsþorskur sagði bóndinn. Hvernig veist þú það, spurði ég. Hann er svo svartur og horaður. Svona gekk þetta áfram ágætur afli, en mikið rifrildi, eina vaktina gerðum við ekkert annað en gera við net, belgurinn á bakborðstrollinu var allur aftur í poka og önnur belglínan í sundur. Þegar við ætluðum að lása belglínuna við fótreipið, kom í ljós að boltinn í lásnum var boginn og þarafleiðandi fastur. Einhver kom með járnsög og byrjaði að saga, það gekk frekar illa. Allt í einu segir Eymar, píparann á sögina, ég tók við og náði lásnum sundur á nokkrum mínútum, þetta fannst sjómönnunum galdri líkast. Þó að sjórinn væri kaldur og lofthiti lítill virtist það hafa lítil áhrif, það var eins og hendurnar vendust þessu. Svo fór að versna veðrið, en áfram var streðað, skipstjórinn eins og jó-jó milli brúargluggans og kortaklefans þar sem radarinn var. Menn voru sendir á ísvakt fram á hvalbak,ef ekki var stætt þar var farið á brúarþakið og hangið í stóra kompássnum. Við Jói stóri vorum við forhlerann, mitt hlutverk var að toga í vírinn þegar karlinn sagði, hala og greiða fyrir vírnum út af spilinu þegar hann sagði slaka. Auk þessa þurfti ég að sjá um húkkreipið, en það var tóg sem húkkað var í rópsendann og þrætt gegnum ferliðu á dekkhúsinu. Frá ferliðunni fór húkkreipið frá forgálganum inn á ytri spilkoppinn.
Bloggar | Breytt 2.9.2007 kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2007 | 11:57
Geirfinnur
Þann 19. nóvember 1974 hvarf maður suður í Keflavík, hét sá Geirfinnur. Geirfinnur gekk út að kvöldlagi og kom ekki heim aftur. Fljótlega fór að heyrast af því að eitthvað væri bogið við hvarf þessa manns. Síðla hausts 1975 voru nokkur ungmenni handtekinn vegna fjársvika. Eitt þessara ungmenna sem að áliti sálfræðings fætt skáld, fór að segja lögreglunni sögur af samskiptum gengisins við Geirfinn. Eitt af því sem átti að hafa gerst var það að farið var frá Kjarvalsstöðum upp í Breiðholt á Land Rover svo á Hjallaveg þar sem skipt var um bíl og farið um borð VW bjöllu sem farið var á út í Skerjafjörð, svo á Vatnsstíg með viðkomu á Ásvallagötu. Frá Vatnsstíg var svo haldið til Keflavíkur á bjöllunni.
Það var gagnrýnt að lögreglan prufukeyrði þessa leið, á aflmiklum Volvo því að tími var naumur og á það bent að bjallan hefði ekki komist þetta á svo stuttum tíma. ( Frá því að kvikmyndasýningu lauk á Kjarvalsstöðum og þangað til að hlé var í bíóinu í Keflavík). Samkvæmt framburði sakborninga fór á undan þeim frá Reykjavík, flutningabíll af gerðinni Mercedes B. T 608 og beið eftir bjöllunni í Keflavík. T 608 vegur tómur 3300 kg og er með 80 hestafla vél, ef deilt er í þetta með þrem verður útkoman 1100 kg og 28 hestöfl. Flutningabíllinn er kassalaga og þ.a.l. með þrisvar sinnum meira loftviðnám en lögreglubíllinn, sem fór frá Kjarvalsstöðum til Keflavíkur, með viðkomu á mörgum stöðum. Ef nú þessi loftviðnámsáhrif eru yfirfærð á lögreglubílinn fækkar enn hestöflunum og eru þau komin niður í níu, slíkur bíll fer ekki frá Reykjavík til Keflavíkur á 33 mínútum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2007 | 09:18
Grænland 1960 IX
Arnþór sagði að við værum að fara í ferðalag og ég ætti að vinna þarna í eldhúsinu nokkrar vaktir.
Svo kom ræðan; "þetta er ekki Hótel Borg, þess vegna eru græjurnar bara öðru megin, erum ekkert að raða þessu í kringum diskana, dúkurinn þarf að vera blautur svo það fari ekki allt til fjandans ef við lendum í brælu, þetta heitir borðtuska, þetta grænsápa, þetta skúrepúlver, nota mikið af því á vaskinn og borðin í eldhúsinu, því við getum ekkert hlaupið út í Apótek ef það fara einhverjar bakteríur á flakk hér um borð". Þegar ég skreið í kojuna eftir þessa fyrstu kokkaríisvakt rak ég löppina í einhverja pappíra, kveikti ljósið og fór að skoða. Þarna var örk af teiknipappír, á henni var einhver dularfull teikning og fyrir ofan stóð "TROLL" höfuðlína hundrað og fimm fet. Teikningin var merkt höfundinum, einhverjum dularfullum Hafliða sem virtist hafa rekið teiknistofu þarna í kojunni því þarna voru líka blýantar,strokleður og sitthvað fleira smálegt sem fylgir slíkum stofnunum. Þetta veiðarfæri var eins og risastór trekt gerð úr neti, trektin var svolítið útflött, eins og einhver risi hefði stigið ofaná hana. Þessi trekt rúllaði eftir botninum á stálkúlum sem voru kallaðir "bobbingar". Stúturinn á trektinni endaði á einhverju sem kallað var poki. Hvað var þetta, höfuðlína, höfuðlínuleggur, klafi, ross, fótreipisleggur, fótreipi, fastavængur og fljúgandi.
Nú fattaði ég hvað mennirnir voru að gera þarna undir hvalbaknum, þeir voru að útbúa varahluti í þetta veiðarfæri. Þetta var allt gert úr minni einingum sem settar voru saman með lásum eða saumaskap greinilega þaulhugsað. Næstu kojuvaktir fóru í að læra þessa teikningu utanað, dauðileggur, nál, sylgja, grandari. Eitt sinn þegar ég var ræstur var skipið farið að hreyfast öðruvísi en það hafði gert fram að þessu. Við sigldum á hægri ferð, meðfram ísrönd og sjórinn virtist krapkenndur á yfirborðinu. Í fjarska voru fannbarin fjöll, ég spurði Skúla hvað þetta væri. "Grænland málað í köldum litum", svaraði hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2007 | 07:04
Grænland 1960 VIII
Veiðin var lítil, þetta var svona eins og tóm sýnishorn, m. a.s. ein grásleppa og selkópur. Karlarnir héldu áfram í veiðarfærunum, ég einn í aðgerðinni og var að byrja að vaska niður þegar stýrimaðurinn kallaði hífa. Siggi stóri hljóp afturá og sló úr blökkinni. Um leið og smellurinn heyrðist byrjaði Eymar að hífa og kallaði til mín; "passaðu þig á vírunum strákur, þau eru svolítið harðhent þessi rafmagnsspil". Það var nú hægara sagt en gert því dekkið í pontinu var klætt rústfríum stálplötum sem voru flughálar af fiskinum. Fram að þessu hafði ég aldrei almennilega skilið almennilega máltækið "eins og belja á svelli". Nú skildi ég máltækið mjög vel, munurinn á mér og beljunum var bara sá að ég var með brakandi og göddótta stálvíra á bæði borð, en beljurnar voru bara á svellinu. Þegar pokamaðurinn var að leysa frá, heyrðist úr brúnni; "taka það innfyrir", "gils á fótreipi, innfyrir með hlerana", heyrðist í bátsmanninum sem stóð á spilgrindinni með vinstri hendina á hraðastýringunni sem hann sleppti aldrei þegar spilið var í notkun. Afgangurinn af trollinu var kominn innfyrir eftir nokkrar mínútur. Binda upp mannskapurinn raðaði sér upp, liðaðist aftur lunninguna eins og catterpillargul margfætla og batt trollið upp með þartilgerðum böndum sem voru með splæstu auga á öðrum endanum, þannig var um hnúta búið að leysa mátti trollið niður á örskotsstund þegar þörf yrði á. Þegar ég hafði rakið í nokkrar nálar kom Eymar frammá og sagði mér að tala við yfirkokkin, sá hét Arnþór og kunni ýmislegt í kokkaríi. Með honum í eldhúsinu var Rafn sonur Magnúsar sem átti merina, ef karlarnir kvörtuðu útaf kaffinu, setti hann nokkra dopa af sósulit í könnuna og allir urðu ánægðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2007 | 06:59
Grænland 1960 VII
Það var engin þyrla, mig hafði bara dreymt þetta. Í matsalnum var karl að ausa hafragraut á disk hann var á nærbuxunum á höfðinu var sixpensari síðan fyrir stríð, gamalt stöðutákn kreppuáranna, karlinn sem var fyrirmannlegur settist við yfirmannaborðið og fór að tala við Jón annan vélstjóra sem þar sat. Ég settist á móti bóndanum og spurði hver þetta væri. "Þetta, þetta er bræðslumaðurinn, Guðmundur Halldór, pabbi Gvendar Jaka". Hvað er hann gamall. Ja hann byrjaði til sjós 1899 og er búinn að vera á togara stanslaust síðan 1913. Mega menn vinna svona lengi. Ja hann hætti um sjötugt en gat ekki sofið á þurru, svo heimilislæknirinn sagði honum að fara bara aftur á togara. Af hverju er karlinn ekki í neinum buxum. Ja hann kemur í morgunmat, leggur sig, byrjar svo að vinna klukkan átta og vinnur til miðnættis, hann og fyrsti meistari eru með prívat vaktakerfi, átta og sextán. Nú var Guðmundur Halldór farinn að hækka röddina og sagði: "þetta eru helvítis kratar og kommúnistar þarna í Hafnarfirði. Þeir eru með nýtt frystihús og voru að bjóða mér pláss á nýjum togara, þúsund tonna, sagði vélstjórinn. Þúsund tonn, hann fer með svo mikla olíu að það fer allt á hausinn, helvítis kommúnistinn í Bæjarstjórninni lætur Bæjarútgerðina gera út fyrir sig einn togara, kratarnir annan, svo verður almenningur að borga kostinn og olíuna, þeir segja að það sé haghvæmara að vera með sex togara en fjóra". Nú var karlinn að komast í stuð, barði í hornið á borðinu svo kaffið vélstjórans slettist framan í hann. Yfirvélstjórinn Pétur Gunnarsson var nú sestur hjá þeim við borðið og spurði Jón hvort hann væri búinn að dæla á daghylki ljósavélanna, æ nei sagði Jón og snaraðist niður í vél.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2007 | 06:49
Grænland 1960 vi
Er vélin ónýt spurði ég, ónýt eða ekki ónýt, leyniuppskriftin af legumálminum brann í stríðinu, Rússarnir heimtuðu yfirverkfræðinginn í stríðsskaðabætur, kanarnir voru svo hræddir að þeir þorðu ekki annað en láta þá fá karlinn. Kruppararnir eru ennþá að reyna að finna út úr þessu. Bæjarútgerðin borgar brúsann. Best að leggja sig sagði Kristinn og fór. Best að leggja sig líka, hugsaði ég og fór frammí. Í kojunni fór ég yfir stöðuna, skipstjórinn var greinilega geðveikur, var með þessa Jekyll og Hyde veiki sem ég hafði séð í bíó. Yfirstýrimaðurinn Hafnarstrætisróni sem trúlega hafði þurft að leysa úr tugthúsi, það skýrði brottfarartöfina. Kjötið baneitrað frá Þorbirni í Borg, pabbi hafði sagt mér frá því þegar hann vann á vellinum, þar fengu allir drullu, 1600 menn samtímis, kjöt frá Þorbirni. Ofan á allt þetta var vélin ónýt. Um nóttina kom þyrla frá Varnarliðinu, maðurinn sem seig niður var Eyjólfur sundkappi og sagðist hann vera að sækja veikan mann, Hans Ragnar Sigurjónsson, hann er víst eitthvað lasinn í höfðinu. Þegar ég leit upp, sá ég að þyrlustjórinn var Dóri fisksali á Grímsstaðaholtinu. Í opinu á þyrlunni var maður í hvítum slopp mér sýndist fyrst þetta vera Helgi Tómasson á Kleppi, svo fór maðurinn að slaka niður kjötskrokkum og kallaði: "kjötið er frosið, þeir misstu í það kamfýlósalmónellubakteríu á Landsspítalanum". Dr. Thoroddsen sagði að kjötið væri í lagi ef það næði ekki að þiðna, það verður að fara frosið í pottinn strákar". Nú sá ég að þetta var ekki Helgi Tómasson, heldur Þorbjörn í Borg. Eyjólfur sundkappi var nú kominn út á dekk með skipstjórann sem kominn var í hvíta múnderingu sem á var lykkja ofarlega á bakinu, þyrluvírnum var húkkað í lykkjuna, hífa kallaði Eyjólfur. Það heyrðist smellur þegar Þorbjörn kúpplaði inn spilinu á þyrlunni, hvinurinn í þyrluspilinu var ar alveg eins og í trollspili, bara lægri. "Ræs, það er glas", sagði einhver, ég heyrði ennþá hvininn í þyrluspilinu en áttaði mig þá á því að þetta var trollspilið og sá sem kallaði hífa, hét ekki Eyjólfur heldur Gunnar og var yfirstýrimaður á togaranum Þormóði Goða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.8.2007 | 06:54
Grænland 1960 V
Þá var röðin komin að mér jú erindið var að skrá mig á skipið sagði þessi gæðalegi kall, það var þetta venjulega: nafn, heimili, fæðigardagur. Þetta skráði Gvendur allt og einnig í litla græna bók sem ég fékk. Þar var ráðningarsamningur sem skipstjórinn var búinn að skrifa undir og einnig prentuð ýmis lög og reglur sem vörðuðu þetta starf. Pokamaðurinn Skúli Ólafsson sagði að ég ætti að lesa þetta vandlega og helst kunna utanað. Afli var tregur, Halldór halti sýndi mér hvernig ætti að gera að fiski. Ef ég gerði eitthvað vitlaust var öskrað úr brúnni; skipstjórinn að segja mér til. Ég var mest einn í aðgerðinni hinir voru með Eymari í neta- og víravinnu, mér sýndist mennirnir vera að útbúa einhverskonar varahluti, sem þeir röðuðu snyrtilega upp í geymslu sem var undir hvalbaknum, stjórnborðsmegin. Það var engu líkara en mennirnir væru að vígbúast. Í næturmatnum spurði ég bóndann hvort menn slösuðust oft á svona skipum. Áður en hann náði að svara sagði þriðji vélstjóri, Kristinn Gunnarsson að það væru nú bara byrjendur sem eitthvað kæmi fyrir, þessir vönu kynnu á þetta allt og væru líka ónæmir fyrir matareitrun. Hvaða matareitrun spurði ég, jú Bæjarútgerðinn er með rammasamning við Þorbjörn í Borg sem selur útgerðinni kjöt sem er orðið of gamalt fyrir spítalana eða verður afgangs hjá þeim. Annars þarft þú ekki að hafa áhyggjur af þessu, stýrimaðurinn er með rotvarnarpatrónur sem hann skýtur upp í rassgatið á þeim sem drepast, þá þarf ekki að gera að þeim heldur eru þeir bara geymdir í ísnum í lestinni, svo fáum við aukafrídag þegar þú verður jarðaður, útgerðin er með magnafslátt hjá kirkjugörðunum, helvítis íhald og kratar, tóm pólitík, kaupa skip með ónýtri vél og svo þarf ég að hanga yfir þessu, því Alfred Krupp heimtar að allir séu með réttindi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)