30.6.2007 | 09:23
STÖÐ 2 III
Stöðin var til húsa á efstu hæð í Krókhálsi 6 en húsið var þá í eigu PLASTOS.
Valgerður Matthíasdóttir arkitekt hafði skipulagt hæðina og var Myndverið í norðurhlutanum eftir endilöngu og Íslenska Sjónvarpsfélagið að sunnanverðu.
Þarna voru tveir gangar eftir endilöngu húsinu. Annar var gegnum myndvershlutann og hinn gegnum dagskrá, áskrift, auglýsingar og fréttastofu.
Tveir milligangar voru þarna og endaði annar þeirra í lítilli kaffistofu, en þarna á kaffistofunni sat Marinó kl. 15.30 þann níunda október þegar John Wallis (erlendur sérfræðingur) kom til hans og sagði honum að fyrsta útsending yrði þá um kvöldið. Á þessu var bara einn galli Marinó var bara búinn að tengja hljóðsnúrurnar í annann endann, svo í hamagangnum við að gera allt klárt fór ótengd snúra í hljóðnema Sjónvarpsstjórans og þetta varð fyrsta sjónvarpsstöðin í heiminum sem byrjaði með mynd en ekkert hljóð. Þarna upp í loftið fór ég svo að hengja mismunandi löng púströr og öðru hvoru á milli þeirra steinullarplötur til að stytta ómtímann. Svona plötur fóru einnig á veggina, steinullarmagnið hafði hafði ég reiknað út eftir leiðbeiningum í Teknisk Ståbi. Þegar helmingurinn var kominn á veggina átti Jónas R Jónsson, dagskrárstjóri leið þarna í gegn, klappaði saman höndunum og sagði: Það er komin nóg ull.
Þar með var komið fínt studio. Áður en þetta var búið komu einhverjir listamenn með fallhlíf og eitthvert dót og byrjuðu að búa til leikmynd þarna inni.
Jón Óttar hafði hitt Kristján Jóhannson óperusöngvara í kokteilboði og hafði boðið honum að vígja upptökusalinn. Listamennirnir voru óvanir svona vinnu og máluðu sig út í horn, svo þegar þeir fóru í kaffi gengu þeir yfir gólfið og gangurinn var ekkert nema grá málningarspor. Hannes sem var þarna yfir sá að listamenn gátu verið hættulegir, bað okkur Sigurð Sívertsen smið, að setja upp eldhúsinnréttingu fyrir Ara Garðar sem átti að kenna Íslendingum að búa til mat. Á meðan Ari var að matreiða fórum við Siggi að útbúa fréttastofu í vesturenda hússins. Á endanum kláraðist svo upptökusalurinn og var fyrsta alvöru upptakan 28 febrúar 1987 þar sem mættu til leiks Sverrir Stormsker og einhver unglingahljómsveit. Klukkan tvö um nóttina var Sverrir loksins orðinn ánægður með hljóðið svo unglingahljómsveitin komst ekki að fyrr en kl. fimm um morgunin. Næst var Happ í hendi, samkvæmt Bandarískri uppskrift Guðný B. Richards hannaði leikmyndina og hafði til ráðuneytis Ivan Török, Ungverskan undramann sem var svo smámunasamur að við unnum alla seinustu nóttina og til hádegis daginn sem átti að taka upp fyrsta þáttinn.
Þegar við Siggi og Brandur mættum í upptökuna kl. sex um kvöldið var Török ennþá að hengja upp tuskur. Þá voru líka mættar Bryndís Schram og Þóra Gunnarsdóttir sem áttu að sjá um spilið. Bryndís var að verða utanríkisráðherrafrú þegar þetta var og nú sýnist mér Þóru bíði svipuð örlög.
Ekki vað ég var við neinar æfingar hjá þeim stöllum, engin vandræði, gekk allt eins og góð gufuvél í nýsköpunartogara. Svo fengum við ljósamann, Alfreð Böðvarsson, sálfræðing sem hafði unnið í Amerísku háskólaleikhúsi, Alli var líka svolítið skrýtinn, var alltaf á hlaupum og virtist aldrei þreyttur, stundum gleymdi hann að festa ljósin og datt með þeim niður á gólf, þó að perur og gler brotnuðu spratt ljósameistarinn upp alheill og þaut aftur upp stigann með nýtt ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2007 | 08:53
STÖÐ 2 II
Til að hafa litina rétta í fánunum fengum við einn lánaðan hjá Bandaríska sendiráðinu og þann Sovéska hjá húsverðinum á Hótel Sögu. Ástæða þess var að Sovémennirnir þurftu leyfi frá Moskvu til þess að lána okkur fána. Snemma á sunnudagsmorgninum var Þórður borgarverkfræðingur mættur í íþróttahúsið og sagði að nú væri betra að allt gengi smurt því fyrsti fundur væri áætlaður kl. níu á miðvikudag. Þarna var líka mættur frá Washington maður sem kallaður var Chuck og var eins og Þórður hámenntaður húmanisti, hann lagði fram sínar óskir, Þórður fór yfir teikninguna og gerði smá athugasemdir um það sem honum fannst geta verið betra. Við ætluðum að mála gólfið grátt en þá kom fyrirskipun frá forsætisráðherra um að þetta ætti allt að vera teppalagt, o.k. sagði Þórður þá borgar hann það. Nú var allt sett á fullt, það hjálpaði heilmikið að við höfðum notað föstu og laugardaginn til aðdrátta. Starfsmenn trésmiðju Borgarinnar unnu við þetta auk dverganna úr Hafnarfirði fyrir þeim var Trausti Lárusson, mamma Trausta, á níræðisaldri, sat í Dverg og sinnti ýmsum málum gegnum síma. Líka voru í vinnu þarna Hilmar og Vilmundur sem höfðu verið í Leikhúsinu. Einhverjir menn frá Ríkinu voru þarna, töluðu mikið saman og rifust stundum, síðdegis á þriðjudag komu þeir og sögðust vera búnir að ákveða hvernig þetta ætti að vera ég sagðist vinna hjá Borgarverkfræðingnum og þeir yrðu bara að tala við hann. Skömmu síðar hringdi Þórður og bað mig um að láta srákana hengja upp tvær myndir af skipum Sambansins, við verðum að halda friðinn, bætti hann við. Um miðnætti á þriðjudeginum sagði Þórður: Gestur þú mætir svo hér í kl. átta í fyrramálið í gráu opnunar jakkafötunum og passar þennan stað. Svo fór hann heim og við tveim tímum seinna. Siggi málari var farinn að sjá einkennilega af öllum þessum vökum því þarna um morguninn sá hann ský á bakgrunni fréttamannapallsins og náði í glært lakk til að rúlla yfir seinustu umferð. Þegar hann kom að Bandaríska fánanum rúlluðust bláu rendurnar upp á malningarrúlluna en af því að Siggi P er svo flinkur málari rúllaði hann bara til baka nákvæmlega í sömu för og flagginu var bjargað. Ástæða þessa var sú að grunnurinn undir hafði ekki náð að þorna í öllum hamagangnum. Þarna var nú komið fólk frá Utanríkisráðuneytinu, Ásdís Loftsdóttir til að svara fyrirspurnum og enskumælandi strákar sem voru í glerbúri við innganginn og við gæslu í salnum. Salnum var skipt í tvennt með tjaldi og var sjónvarpsstudio og skyggnusýning í öðrum helmingnum en veitingar og upplýsingar í hinum.
Seint í nóvember hringdi Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Íslenska Myndversins og spurði hvort ég gæti komið til að útbúa ljósaloft í studio sem þeir stöðvarmenn ætluðu undir þáttagerð. Skipulag stöðvarinnar var þannig að allur tæknibúnaður var eign Myndversins sem þeir áttu að stórum hluta Ragnar og Valdimar Steinþórsson en þeir höfðu í mörg ár fengist við að texta kvikmyndir og fjölfalda myndbönd í fyrirtæki sínu TEXTA hf. Fljótlega komst ég að því að þessir menn nutu trausts og reyndist ekki erfitt að útvega efni í ljósaloftið vegna þess. Ef aftur á móti minnst var á Jón Óttar þá varð allt verra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2007 | 12:36
STÖÐ 2 I
REYKJAVÍK 1986
Snemma vors 1986 varð ég atvinnulaus. Síðan 1975 hafði ég unnið við straumfræðirannsóknir og var orðinn býsna sleipur í öllu er varðaði skip og hafnir. Seinna komst ég að því að þeir sem með mér unnu voru sjálfir farnir að selja niðurstöðurnar og stungu aurunum í vasann. Ég var ekki af nógu fínum ættum til að vera þáttakandi í slíku og var sagt að fara. Veður var gott þetta vor og við Eyrún þá þriggja ára gengum í bæinn á morgnana, ég tók myndir en hún gaf öndunum.
Einn daginn hitti ég kaupmann sem vildi kaupa stækkaðar myndir.
Var nú drifið í að stækka en þegar til kom vildi maðurinn ekki myndirnar.
Heyrt haði ég af Baldri nokkrum Hermannssyni sem var að undirbúa sýningu vegna 200 ára afmælis Reykjavíkur, var farið á fund Baldurs og honum boðnar myndirnar til kaups ekki vildi hann kaupa en sagðist vanta mann sem gæti vaknað kl fjögur á morgnana og myndaði sorp og götuhreinsunarmenn að störfum. Þegar þetta var langt komið spurði Baldur hvort ég vildi ekki hjálpa sér að setja upp sýninguna sem átti að vera í Borgarleikhúsinu sem þá var í byggingu. Hófst nú mikill annatími, unnið alla daga og oft til miðnættis.
Baldur var svo skemmtilega drífandi að þessi langi vinnutími virtist ekki há okkur sem unnum þarna. Þarna kom til starfa Marinó heitinn Ólafsson hljóðmeistari og nokkrir menn sem unnu í ÍSFILM sem átti að verða sjónvarpsstöð, fyrir því liði var Hannes Jóhannsson. Um miðjan ágúst sýndi Hannes okkur samning sem hann var búinn að gera við Íslenska Sjónvarpsfélagið h.f. sem Jón Óttar Ragnarsson og fl. voru nýbúnir að stofna.
Hinir tæknimennirnir úr ÍSFILM fylgdu svo Hannesi og bættist Marinó í hópinn.
Til að hægt væri að hengja upp ljós þurfti ljósaloft og hannaði ég það ásamt tilheyrandi hljóðdeyfingu að beiðni þeirra félaga. Starfsmenn Dvergs í Hafnarfirði hengdu svo rörin upp í það sem átti að verða fréttastudio.
Þegar við með aðstoð dverganna úr Hafnarfirði vorum að klára að pakka og tölvunarfræðinemar voru að setja upp bárust fréttir af fyrirhuguðum leiðtogafundi þar sem Regan og Gorbi ætluðu að ræða málin. Viku fyrir fundinn hafði Árni Sigfússon samband við Baldur og spurði hann hvort við gætum útbúið sjónvarpsaðstöðu fyrir fréttamenn. Gallinn var bara sá að Borgarstjórinn og Borgarverkfræðingurinn voru báðir í fríi í útlöndum. Á föstudeginum fyrir fundinn var búið að ákveða að þetta ætti að vera í íþróttahúsi Hagaskóla. Var byrjað á því að setja spónaplötur á gólfið og ég labbaði niður í bæ til að kaupa millimetrapappír og svona mát eins og arkitektar nota til að teikna húsgögn.
Gerði svo með Baldri uppkast að innréttingu á millimetrapappírinn. Var svo farið að setja upp festingar og búa til merki fundarins sem Sigurður Pálsson málari hafði á sinni könnu, Sigurð settum við í búningsklefann og hitann á fullt til að lakkið væri fljótara að þorna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2007 | 13:33
HEILSUBÆLIÐ
Nú í haust á Heilsubælið tuttugu ára afmæli. Þetta meistaraverk sem Gísli Rúnar og félagar settu upp á gömlum ennisholulager að Korpúlfsstöðum en var búið til uppi á háalofti í plastverksmiðju í Krókhálsi 6. Fyrir dularfulla duttlunga örlaganna lenti ég í því að smíða leikmynd fyrir Heilsubælið, sem er eitt merkilegasta framlag Íslendinga til leiklistar á tuttugustu öld.
Grunnur Heilsubælisins var segldúkur sem við strengdum á gólfið með öflugu límbandi, á dúkinn máluðum við Eyþór svo gólfflísamynstur, svo var veggeiningunum raðað upp. Fyrsta leikmyndin var sjúkrastofa og voru öll atriðin sem gerðust þar tekin upp á nokkrum dögum. Næst var læknastofa, við byrjuðum að breyta strax eftir fréttir, á veggin hengdum við prófskírteini Saxa læknis sem búið var til úr ljósriti af skírteini förðunardömunar frá förðunarskóla í París. (Við límdum bara Sorbonne yfir Ecole de Smink).
Svo voru hengdar upp tvær myndir af fjölskyldu Kristjáns níunda. Til að gera veggina lúna var vökvi sem Brandur bruggaði úr svörtu kaffi með sykri og brúnni málningu, þessu var úðað á veggina, síðan strokið yfir með tusku á strategískum stöðum. Leikararnir æfðu sig í gerfileikmynd meðan við vorum að smíða og svo var generalprufan milli 1 og 2 á næturnar. Sumir leikaranna sváfu bara í sjúkrarúmunum. Eina nóttina var Brandur að hengja upp skilti á skrifstofuganginum, Jón Óttar var að selja Frönskum milljónerum hlutabréf í stöðinni og þeir voru væntanlegir í heimsókn daginn eftir. Þegar Brandur lokaði hurðinni vaknaði Gísli Rúnar Leikstjóri og fór fram í eldhús. Þegar hann gekk eftir ganginum sá hann skilti "Monsieur Dr. Jón Óttar Ragnarsson Président general", næsta "Monsieur Ragnar Guðmundsson Président Studio Islande". Við þennan gang voru bara forsetaskrifstofur. Eftir svolitla stund í eldhúsinu varð Gísli ógurlega glaður þegar hann fattaði að hann var hvorki dauður né endanlega búinn að missa vitið.
Oft hefir maður velt fyrir sér hvers vegna þetta var svona vel heppnað. Getur verið að það hafi verið vegna þess að opinberir aðilar komu hvergi nærri þessu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2007 | 09:59
STRÍÐSGLÆPUR ?
Haustið 1960 var sá er þetta ritar
háseti á togaranum Þormóði Goða. Við vorum að veiða karfa við Nýfundnaland.
Eitt sinn að kvöldlagi í góðu veðri sátum við nokkrir á spilgrindinni og biðum eftir að trollið væri híft. Einn af strákunum fór þá að segja sögu af föður sínum sem hafði verið á togaranum Reykjarborgu sem kafbátur réðst á að kvöldi 10. marz 1941. Faðir félagans hafði komist lifandi frá þessu en sár af kúlnabrotum. Þrír lifðu af árásina og komust á fleka þar sem einn lést af sárum. Faðir skipsfélagans taldi að þarna hafi verið á ferð Breskur kafbátur. Þessi skoðun var byggð á því að kúlnabrot sem tekin voru úr honum á sjúkrahúsi í Skotlandi voru ekki lögð fram í sjórétti þar ytra. Ástæðu Breskrar árásar taldi hann geta verið að Reykjaborg var smíðuð í Frakklandi, með þriggja hæða brú og u.þ.b. helmingi stærri en aðrir Íslenskir togarar og ekki ólík mörgum Þýskum togurum. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Vígdrekar og Vopnagnýr eftir Friðþór Eydal. Þar eru í Íslenskri þýðingu kaflar úr dagbókum Þýsku kafbátana U 552, U 74 og U 37.
Þessir kafbátar áttu að hafa gert árásir á Íslensku fiskiskipin Reykjaborg, Fróða og Pétursey dagana 10., 11. og 12 marz 1941 í þessum árásum voru myrtir 28 sjómenn.
Dagbókarkafi U 552 er fjallar um Reykjaborg er svona :
" Síðla dags kom skipherrann auga á skipsmöstur úti við sjóndeildarhring í sjónpípu sinni. Virtist honum fara u.þ.b. 1000 lesta skip sem sigldi í krákustígum í s.a. átt.
Samkvæmt leiðarbókinni: Kafaði þremur og hálfri kl.st. síðar eða kl. 20.05 að Þ. tíma og hafði þá í sigtinu skip sem kafbátsforinginn taldi vera um 1000 lestir og vopnað stutthleyptri fallbyssu. Kl. 20.52 skaut báturinn einu tundurskeyti að skipinu en það sprakk ekki (1). Kveikt var á siglingarljósum skipsins sem þó virtust deyfð. Kl 21.15 kom kafbáturinn úr kafi og hóf eftirför. Tungl óð í skýjum og fylgdi kafbáturinn eftir í öruggri fjarlægð án þess að til hans sæist. Klukkan 23.14 sótti báturinn hratt í átt að skipinu og foringinn gaf skipun um að skjóta að því með fallbyssu kafbátsins, loftskeytamaðurinn fékk skipun um að fylgjast með neyðarkalli. Fyrsta skotið reið af á 800 m færi. Annað skotið hæfði mastrið sem féll við og þar með talstöðvarloftnetið (3). Við þrija skot bilaði byssan og gaf þá foringinn mönnum sínum skipun um að beita 20 mm loftvarnarbyssum kafbátsins til að áhöfninni yxi kjarkur og reyndi að flýja eða berjast (4). Var nú skothríðin látin dynja á skipinu og brátt komst fallbyssan í lag aftur þó ekki væri hægt að hleypa af henni sjálfvirkt.
Hittu kafbátsmenn illa með henni sökum veltings (5).
Við tíunda skot úr fallbyssunni sáu kafbátsmenn hvar eldur gaus upp á miðju skipinu. Breytti kafbátsforinginn nú um stefnu en vélbyssurnar héldu áfram að ausa skotum yfir skipið og hæfðu gufuketilinn svo það stöðvaðist (6). Gat kafbátsforinginn þess í leiðarbók sinni að meðan á árásinni stóð hefði áhöfn skipsins ekki beitt fallbyssunni í skut þess (7). Brátt biluðu báðar vélbyssur kafbátsins og stðvaðist skothríðin við svo búið. Þá er þess getið að skipið hafi sokkið um kl. 23.40. (8)
Við stýrið á Reykjaborg var Eyjólfur Jónsson háseti, og hjá honum Sigurður Hansson kyndari sem hafði farið upp úr vélarrúminu til að viðra sig. Þeir komust báðir af og er frásögn þeirra sem birt var í bókinni "Þrautgóðir á raunastund II " eftirfarandi:
Allt í einu flugu eldblossarnir meðfram skipinu og dóu út í myrkrið fyrir aftan það. Hvað var þetta? Eins og ósjálfrátt slökkti Sigurður á sígarettunni og í þögulli eftirvæntingu skimuðu þeir félagar út um brúargluggana. Þeim datt fyrst í hug flugvélaárás, en áttuðu sig strax á því að svo gat ekki verið. Stefna ljósrákanna hafði verið þannig. Ásmundur stýrimaður kom nú aftur upp í brúna og spurði hvað um væri að vera. Þeir sögðu honum frá ljósaganginum og hann ákvað þá að fara niður og vekja skipstjórann. Í sömu svifum yfirgaf Sigurður kyndari einnig brúna og hélt niður í vélina. Eyjólfur var einn eftir í efri brúnni.
Og þá komu ljósrákirnar fljúgandi að skipinu með leifturhraða öðru sinni. Nú var ekki lengur um að villast. Það var kafbátur sem var að skjóta á skipið, og hann hlaut að vera mjög nærri. Í þriðju hrinunni hittu þeir brúna. Kúlurnar fóru allt í kringum Eyjólf sem eins og ósjálfrátt kastaði sér niður og hnipraði sig saman. Fyrstu kúlurnar hæfðu loftskeytaklefann og eyðilögðu hann. Ekki er ósennilegt að Daníel lofskeytamaður hafi verið fyrsti skipverjinn sem féll í árásinni.
Ekki var viðlit fyrir Ásmund stýrimann að komast aftur upp í eftri brúna. Svo áköf var kúlnademban. Eyjólfur heyrði að Ásmundur Sigurðsson, skipstjóri, var nú kominn í neðri brúna, og kallaði hann til Eyjólfs og bað hann að eyna að komast niður og stýra þaðan. Þegar andartakshlé varð svo á árásinni, beið Eyjólfur ekki boðanna og kastaði sér niður í neðri brúna. Þar voru yfirmenn skipsins samankomnir og enn allir heilir á húfi. Eyjólfur fór þegar að stýrishjólinu, en í þessum svifum gaf skipstjórinn fyrirmæli um að stöðva skipið.
Um leið og Eyjólfur greip stýrishjólið, gekk kúla gegnum stýrisvélina og splundraði henni. Fékk Eyjólfur einnig á þessari sömu stundu kúlu í annan handlegginn og gegnum síðuna. Sagði hann við skipstjórann, að hann hefði særzt, og óskaði eftir að fá að fara úr brúnni. Veitti skipstjórinn leyfi til þess og síðasta sem Eyjólfur heyrði hann segja var, að allt yrði að gera til þess að reyna að bjarga mönnum.
Klefi Eyjólfs var ofan þilja, aftan við reykháfinn, og var þar Guðjón Jónsson, 2. stýrimaður, fyrir. Hann var enn ósærður er Eyjólfur kom inn í klefann, en auðséð var að kúlur höfðu hæft klefann, því að björgunarbelti Eyjólfs sem hékk uppi á veggnum, var orðið sundurskotið. Frá klefanum sást út á bátadekkið og kom Eyjólfur þar auga á þrjá skipverja er stóðu við björgunarbátinn. Voru þeir Þorsteinn Karlsson, Hávarður Júlíusson og Árelíus Guðmundsson. Stígvél Eyjólfs voru undir koju hans og beygði hann sig niður eftir þeim. Í sömu andrá skall kúlnahríð á klefanum og þegar henni linnti var Guðjón stýrimaður fallinn. Eyjólfi varð litið út á bátadekkið. Þar lágu nú mennirnir þrír í blóði sínu.
Og enn magnaðist skothríðinn. Þrumugnýr fyllti loftiðog eyjólfur taldi að bæði væri skotið af vélbyssum og fallbyssu á skipið. Hann skreið út úr klefanum og aftur að björgunarbátnum stjórnborðsmegin. Þar var fyrir Óskar Vigfússon kyndari, lifand, illa særður.
Þegar hér var komið sögu var kviknað í yfirbyggingunni á Reykjaborg. Stóð öll efri brúin í ljósum logum, en lengra fram á skipið varð ekki séð fyrir myrkri og reyk. Enn var það þó ekki tekið að sökkva. Eyjólfur skreiddist upp í björgunarbátinn og sagði Óskari að koma með sér. En til þess hafði hann ekki þrek. Í sömu svifum og Eyjólfur kom upp í bátinn, dundi kúlnahrina yfir bátadekkið og kubbaði í sundur falinn sem hélt bátnum í afturdavídðunni. Féll þá skutur bátsins niður í sjóinn en báturinn hékk á stefnisfalnum í framdavíðunni. Eyjólfur kastaðist í sjóinn, en tókst að ná taki á borðstokknum á björgunarbátnum og vega sig aftur um borð í hann. Skreið hann síðan aftur upp á bátadekkið og að björgunarfleka sem þar var. Á leiðinni þangað varð hann var við Jón Lárusson, matsvein, sem fallið hafði þarna á bátadekkinu, Óskar kyndari komst ekki með Eyjólfi að flekanum. Hann tók þann kostinn að skríða niður í bátinn, sem hafði nú losnað við skipið og maraði á kafi við skipshliðina. Eyjólfur sá að bakborðsbáturinn var enn á sínum stað, en greinilega orðinn gjörónýtur. Eldur var nú einnig kominn upp í klefanum fyrir aftan reykháfinn.
Meðan á þessu stóð varð Eyjólfur var við kafbátinn. Hann virtist færa sig kringum skipið, 30-40 faðma frá því, og reyna að hæfa mennina með byssum sínum. Engin þjóðerniseinkenni sáust á bátnum. Til þess var of dimmt. Reyndi Eyjólfur að færa sig til eftir því sem skotið var á skipið, og fékk hann ekki fleiri sár.
Þegar árásin hafði staðið yfir í nær klukkustund, var eins og skipið fengi á sig mikinn slink, og eftir það byrjaði það að hallast og sökkva ört. Fór Eyjólfur þá upp á björgunarflekann og tók með sér þangað teppi sem Runólfur Sigurðsson hafði átt og lá á bátadekkinu. Þangað að flekanum kom einnig Sigurður Hansson, kyndari, sem hafði verið með Eyjólfi í brúnni þegar árásin hófst. Hafði Sigurður þá farið niður í vélarrúmið til Óskars, 1. vélastjóra, og sagt honum hvað væri um að vera. Skömmu síðar kom skot í gegnum skipssíðuna sem eyðilagði ljósaleiðsluna og einnig var gufurör hæft, þannig að gufan blés út og vélin stöðvaðist. Fóru mennirnir þá úr vélarrúminu og upp á þiljur. Sáu þeir strax að maður lá fallinn í ganginum fyrir framan afturgálgann og töldu að það væri Runólfur Sigurðsson. Ætluðu þeir að fara til hans, en þá dundi yfir kúlnahríð svo þeir urðu að hverfa frá. Leituðu þeir skjóls við spilið á þilfarinu, en þar urðu Óskar Þorsteinsson, 1. vélstjóri, og Óskar Ingimundarson, kyndari, fyrir skotum örskömmu síðar og féllu. Þegar svo var komið leituðu þeir Sigurður og Gunnlaugur Ketilsson 2. vélstjóri, skjóls undir spiltromlunum, sinn hvoru megin. Urðu þeir þá varir við Ásmund 1. stýrimann, sem, kallaði til þeirra og spurði hverjir væru fallnir og særðir. Hafðist Ásmundur þá enn við í neðri brúnni og virtist ósár. Þarna undir spilinu fékk Sigurður skot í fótinn og einnig varð hann var við að skipið var farið að sökkvaþað mikið að sjór var farinn að fossa inn á þilfarið. Stóð hann þá á fætur og kallaði til félaga síns. En Gunnlaugur svaraði ekki. Hann hafði orðið fyrir kúlu og var látinn. Skipið var komið að því að sökkva er Sigurður komst að flekanum. Eyjólfur og hann lágu þarna og sáu skipið rísa meira og meira að framan. Flekinn fór á flot og snerist í soginu frá skipinu. Svo hvarf Reykjaborg í djúpið. Kafbátsmönnum hafði tekist ætlunarverk sitt.
Bandaríski blaðamaurinn Clay Blair sem var kafbátsmaður á Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöld, hefir skrifað bók sem heitir HITLES U-BOAT WAR. Ekki er neitt minnst á framangreindar árásir í bókinni. Þar segir af ferðum U 552 í febrúar og mars 1941, hann lagði upp í leiðangur 22. feb. og var á veðurvakt ásamt þrem öðrum bátum.
(1) Seinustu tundurskeytin notaði U 552 til að sökkva olíuskipinu Caillac 1. mars og því ekkert eftir til að skjóta á Reykjaborg.
(2) Að sögn þeirra sem komust af var myrkrið algjört og þar af leiðandi engin siglingaljós eða tungl sem óð í skýjum.
(3) 800 metrar er hálf ensk míla og þarf mikla skyttu til að skjóta í sundur mastur á skipi af svo löngu færi. Í skáldsögu capt. Marryat, Percival Keene er sagt frá svona skoti, ekki urðu skipsmenn varir við þetta en urðu fyrst varir við skothríð úr vélbyssu sem var m.a. hlaðin ljósferilkúlum.
(4) U 552 var af gerðinni VII C og í sinni fyrstu ferð. Báturinn var vopnaður einni 20 mm loftvarnarbyssu og 88 mm fallbyssu. Á myndum sem til eru af bátnum sést aðeins ein vélbyssa, 20 mm. Aðrar gerðir voru vopnaðar fleiri loftvarnarbyssum. Fleiri loftvarnarbyssur voru fyrst settar á VII C í nóvember 1942.
(5) Skytta sem hafði skotið sundur mastur hitti illa heilt skip á 100 metra færi.
(6) Skipstjórinn lét stöðva skipið fljótlega eftir að árásin hófst.
(7) Vopnaðir togarar voru yfirleitt með fallbyssu á palli framan við formastur.
Á Reykjaborg voru björgunarbátarnir aftast á bátadekkinu og ekkert pláss fyrir fallbyssu þar.
(8) Vélbyssan var aðeins ein.
Þjóðverjar höfðu árið 1936 skrifað undir alþjóðasamning um notkun kafbáta á stríðstímum (Submarine Protocol). Í samningnum er ákvæði um að ekki megi sökkva skipum, öðrum en herskipum, nema öryggi áhafna sé tryggt.
Ákvæðið var þannig að var að sökkva mátti skipum eftir að áhöfn var komin í björgunarbáta og öryggi hennar tryggt. Þýski flotinn túlkaði reglurnar á þann hátt að skip sem sigldu undir herskipavernd, væru á ferð í hernaðarlegum tilgangi og því heimilt að ráðast á þau og einnig skip sem sigldu ljóslaus. Adolf Hitler boðaði flotaforingjana Erich Räder og Karl Dönitz, á sinn fund 14 maí 1942 og lýsti áhyggjum sínum vegna flutnings á hergögnum yfir Atlanshafið. Hitler hafði komið það ráð í hug að kafbátsmenn dræpu eftirlifandi sjómenn í björgunarbátum, með því taldi hann að ekki fengjust menn á skipin. Flotaforingjarnir höfnuðu þessari hugmynd Hitlers og svöruðu því til að ef hann útvegaði tundurskeyti sem virkuðu rétt þá þyrði enginn á sjó lengur.
Í ársbyrjun 1941 áttu Bretar undir högg að sækja í styrjöldinni, þeir höfðu á tilfinningunni að Íslendingar væru þeim andsnúnir. Forystumenn verkamannafélagsins Dagsbrúnar handtók herinn fyrir að dreifa bréfi þar sem hermenn voru beðnir um að ganga ekki í verkamannastörf ef af boðuðu verkfalli yrði. Ritstjórar Þjóðviljans og blaðamaður voru handteknir vorið 1941 og settir í Breskt fangelsi þar sem þeir máttu dúsa vikum saman fyrir litlar sakir.
Ýmsir hafa haldið því fram að það hafi verið Breskur kafbátur sem réðist á skipin þarna í marsbyrjun 1941. Tilgangurinn hafi verið að vinna Íslendinga til fylgis við málstað Breta sem á þessum tíma stóðu einir í þessari styrjöld sem þeir voru að tapa og þess vegna vísir til að grípa til örþrifaráða.
Við réttarhöld sem haldin voru í Reykjavík vegna þessara skipstapa kom fram að togarinn Geir hafði verið stöðvaður af Breska kafbátnum Torbay N-79 þann 16. mars, 27 mílur út af Barra Head. Yfirmaður á bátnum skýrði togaramönnum frá því að daginn áður hafi þeir sökkt vopnuðum þýskum togara sem var með Íslenskan fána málaðan á síðuna.
TORBAY, hvaða skip var það? Kafbáturinn Torbay var smíðaður í Chatham hann var 84 m. langur með tveim 2500 ha Diesel vélum og 2 x 1450 ha rafmótorum til notkunar neðansjávar. Fjörtíu og átta manna áhöfn var á bátnum.
Þjóðverjar gerðu loftárás á skipasmíðstöðina í nóvember 1940 svo afhending bátsins drógst þar til í janúar 1941, báturinn var vopnaður sextán tunduskeytum, fjögura tommu fallbyssu sem var í turninum og þremur Lewis vélbyssum til loftvarna. Vegna þess hve Lewis byssurnar voru bilanagjarnar var sett Svissnesk Oerlikon lftvarnabyssa í bátinn árið 1942.
Antony Miers var yfirforingi á bátnum í upphafi, næstráðandi var Paul Chapman
Og hefir hann skrifað sögu af veru sinni um borð í Torbay og heitir hún SUBARINE TORBAY. Í bókinni eru myndir af áhöfninni og virðist hún öll hafa verið vel sjóuð þegar hún var skráð á Torbay. Samhæfing áhafnarinnar fólst í skotæfingum við Thamesósa og svo var lagt upp í fyrstu ferðina 6. mars 1941, vegna þess að Chapman lenti í sóttkví gat hann ekki farið með og segir því ekkert frá þessari ferð í bókinni að því undanskildu að N-79 átti að fylgja skipalest til Halifax. Kl. eitt aðfaranótt 22. mars leggur Torbay af stað frá Clyde til Alexandríu í Egyptalandi þaðan sem báturinn var gerður út þar til í maí 1942.
Torbay herjaði mest á Eyjahafi og sökkti þar fjölda skipa auk þess að bjarga samveldishermönnum frá eynni Krít og flytja strandhöggsmenn til Afríku.
Bátnum fylgdu einn eða tveir strandhöggsmenn (mariners) sem voru á vélbyssunum m.a. vegna þess hve vanir þeir voru að vinna með vélbyssum og lagnir við aðkoma þeim í gang þegar þær klikkuðu.
Fyrsta herförin frá Alexandríu hófst 28. maí og voru í þeim leiðangri sökkt tveim olíuskipum, tundurspilli, skonnortu og þremur seglbátum (caique).
Seglbátarnir voru svipaðir á stærð og íslenskir vertíðarbátar, voru þeir taldir vinna við flutninga fyrir Þýska hernámsliðið. Áhafnir seglskipanna voru oftast (ein undantekning) skotnar með vélbyssum og skipunum sökkt með fallbyssuskotum. Ef fallbyssan var biluð eða skotfæralaus var gengið frá skipunum með vélbyssuskothríð eða lítilli TNT sprengju (1,25 lb). Lýsingar Chapmanns á þessu öllu eru líkar lýsingum Íslendinganna sem sluppu lifandi frá árásunum í mars.
Einn þeirra Íslendinga sem lifði af sagðist hafa séð eitthvað sem líktist svörtum eldspúandi kassa á sjónum. Fallbyssan var í turninum og þurfti Torbay því aðeins að stinga turninum upp úr yfirborðinu þegar árás var gerð ofansávar. Hernaðurinn í Eyjahafinu gekk því gekk því ágætlga, á seinni hluta ársins 1941 sökkti Torbay 14 seglbátum, 4 skonnortum, 5 flutningaskipum, 3 olíuskipum, 2 tundurspillum og einum Ítölskum kafbát. Við útkomu bókar Chapmans varð upplaup í Breskum fjölmiðlum vegna meintra morða á Þýskum hermönnum sem voru farþegar á einu af seglskipunum og höfðu gefist upp. Chapman lýsir þessum drápum í bókinni og afgreiðir þau með því að líklega hafi þessir menn ætlað að ráðast á kafbátinn með handvopnum.
Við stríðsglæparéttarhöldin í Nürnberg var reynt að sanna stríðsglæpi á Þýska flotaforingja, það tókst ekki. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið harður hernaður en alltaf rekinn samkvæmt settum reglum.
Árásin á Reykjaborgu hefði hefði nægt til að koma Dönitz flotaforingja í gálgann. Erich Topp foringi á U 552 lifði af styrjöldina og því hefði verið hægt að láta hann leggja fram dagbókina í réttinum. Það var ekki gert vegna þess að
U 552 var að fylgjast með veðri. Þýska flotastjórnin hafði beðið um að gerðar yrðu loftárásir á Breska flotann í höfn á tímabilinu 10-20 mars. Þess vegna var þessum vopnlitla bát U 552 haldið úti til 16. mars.
Þegar Fróði kom til Vestmannaeyja komu Breskir hermenn um borð í bátinn og leituðu uppi allar kúlur og kúlnabrot sem finnanleg voru í Fróða. Einn skipverja fann vélbyssukúlu í sænginni sinni og stakk henni í vasann, sá var sóttur af herlögreglu og kúlan tekin af honum. Annar lá særður á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, kúla sem læknar höfðu skorið úr honum var sömuleiðis tekin.
Þegar höfundur þessarar greinar fór að afla upplýsinga um loftvarnarbyssur Breskra kafbáta í seinni heimstyrjöld komst hann að því að Bresku bátarnir voru búnir Svissneskum Oerlikon byssum eins og þeir þýsku, byssukúlurnar voru því engin sönnunargögn. Bók Chapmans leysti þetta, Oerlikon byssurnar fóru Bretarnir ekki að nota fyrr en um mitt ár 1942.
Áður en kafbátar eru teknir í notkun er áhöfnin æfð í því sem hún á að fara að fást við. Torbay N-79 er eini kafbáturinn sem vitað er um þar sem æfingum er sleppt. Ferðin sem sögð er hafa verið farin til Kanada (6 -21 mars) virðist hafa verið æfingaferðin. Breska flotastjórnin gaf Íslensku skipunum upp siglingaleiðina og þá hefir N-79 verið á svæðinu og ráðist á þessi "Þýsku" skip sem kafbátsmenn fengu skeyti um að væru þarna. Þannig gekk það fyrir sig í Eyjahafinu. Setið fyrir skipum sem njósn hafði borist um og byrjað að skjóta á háfrar mílu færi.
Dagbækur þær sem sagðar eru sanna Þýska aðild að málinu eru skrifaðar á ritvél með undirskriftum sem eru eins og spíralar eftir Stefán frá Möðrudal.
Það eina sem vitað er um höfundinn er að hann virðist hafa lesið söguna af Percival Keene þar sem stórsiglan var alltaf skotin sundur með stóru fallbyssunni á Eldflugunni.
Togarinn Vörður frá Patreksfirði fann björgunarfleka af Reykjaborgu, 170 mílur norður af st. Kilda. Flekinn var rannsakaður af lögreglu í Reykjavík.
Nú stendur það eitt eftir, að við fáum að vita hvort kúlnagötin á flekanum voru eftir 20 mm Oerlikon eða 8 mm Lewis.
Reykjavík 19. nóvember 2006
Gestur Gunnarsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.5.2007 | 17:34
FLUG til ÚTLANDA
Þegar ég var ungur maður (það er mjög langt síðan) tók flugið til Kaupmannahafnar fimm tíma og farið frá Reykjavík. Farþegarnir mættu hálftíma fyrir brottför þannig að þetta tók allt fimm og hálfan tíma. Nú er lagt af stað frá Reykjavík klukkan 05.15, flugið er svo kl 07.45 og tekur þrjá tíma svo það gera fimm og hálfan eins og þegar flugvélarnar flugu 450 km á klukkustund , en fara núna 900. Af hverju er ekki hægt að fljúga frá Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.5.2007 | 09:23
SK'OLASAMEINING
Nú hafa skólastjórar Iðnskólans Í Reykjavík og Fjöltækniskólans fundið það út að heppilegt sé að sameina þessa skóla. Þessir skólar hafa ólík hlutverk og eru í raun á sitthvoru skólastiginu ef að er gáð. Í fimmtíu ár þurfti próf úr öðrum til að komast í hinn þ.e. úr Iðnskólanum í Vélskólann. Nú er allt í lagi með það að eitthvað sameinist, en til að svo geti orðið þurfa þeir sem ætla að sameina helst að eiga það sem sameina á. Um miðja þar seinustu öld hófst formlegt bóknám fyrir iðnnema í Reykjavík á vegum iðnmeistara. Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur stofnar svo formlega Iðnskóla árið 1904 og byggir fljótlega skólahús sem stendur á horni Vonarstrætis og Lækjargötu. Þarna á stóð skólinn og þróaðist í hálfa öld. Félagið átti og rak skólann sem kostaður var af skólagjöldum sem voru 75 kr. fyrir veturinn árið 1929 þegar skólinn var 25 ára. Yfirfært á nútíma verðlag eru þetta 75ooo kr, eða u.þ.b. 10% af því sem það kostar Ríkissjóð í byrjun 21. aldar að reka skólann. Nú kynni einhver að halda að þetta sé einhver gerviskóli, en það var ekki svo, þarna sátu þeir saman Halldór Laxness og Ásmundur Sveinsson og urðu menn á heimsmælikvarða seinna á ævinni. Trésmiðir lærðu að hanna hús og eru mörg af þessum eftirsóttu húsum í 101 Reykjavík verk nemenda úr Iðnskólanum. Ef markmið þessarar sameiningar á að minnka byrgðar okkar skattgreiðenda er einfaldast að eigandi skólans, Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur taki aftur við rekstrinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hann var þá verkstjóri pípulagningamanna við að byggja stórt flugskýli sem kallað var "navy hangar" og stendur gegnt gömlu flugstöðinni.
Pabbi hafði farið að vinna þarna haustið 1952 og hafði fljótlega fengið mannaforráð vegna afburða tungumálakunnáttu og eðlislægra stjórnunarhæfileika. Hann eignaðist svo hlut í Vatnsvirkjadeildinni s.f. sem var hluti af Sameinuðum verktökum. SV stofnuðu síðar Íslenska aðalverktaka á móti Ríkinu og SÍS. Þarna í flugskýlinu var verið að setja upp sjálfvirkt eldslökkvikerfi sem kallað var sprinkler og leggja skolp í grunninn. Mér var ætlað að snitta teina til að hengja upp sprinklerinn. Við vorum í skúrum sem stóðu á flugvélastæði sunnan við flugskýlið. Handan við flugvélastæðið var flugbraut og hinumegin við hana dæld í jörðina þar sem ég seinna vann við að byggja kjarnorkuvopnaverkstæði. Flugskýlið sjálft er 35x75 metrar að stærð með stálgrindarþaki sem haldið er uppi af steinsteypubyggingum á mörgum hæðum sem eru sín hvorum megin og er önnur mun stærri en hin. Þarna varð svo seinna miðstöð kafbátaeftirlits á Norður-Atlantshafi. Sovétmenn voru að smíða kjarorkuknúna kafbáta sem ferðuðust um á tæplega 100 km hraða og gátu verið á 400 m dýpi. Eina ráðið sem tiltækt var voru nógu kraftmiklar djúpsprengjur.
Flugvélasalinn notuðu Bandaríkjamenn svo oft fyrir hátíðarhöld og hélt forseti þeirra Ronald Reagan, ræðu að loknum leiðtogafundi 1986. Pabbi hafði aðstöðu í kolakyntum teikningaskúr með hallandi teikniborði í öðrum endanum. Á miðju gólfi var verkfærakista og bekkir meðfram veggjum. Á bekkjunum sátum við í kaffitímum og höfðum verkfærakistuna fyrir borð. Þarna var Hjálmar Jóhannsson sem sagði svo magnaðar sögur að ég átti erfitt með að koma niður kaffibrauðinu fyrir hlátri. Þarna var líka Skarphéðinn Ágústsson, sem Hjálmar sagði að væri eign Sölunefndarinnar. Skarpi hafði á flótta falið sig í brauðhrærivél í bakaríi þarna á flugvellinum. Á meðan hann var inni í vélinni seldi Helgi Eyjólfsson Bakarameistarafélagi Reykjavíkur vélina með öllu sem í henni var og tilheyrði eins og stóð í samningi sem skrifað var undir á staðnum. Þetta var í lok stríðsins þegar Kanarnir hentu miklu góssi fram af Stapanum, þannig að erindi hans í bakaríið var eiginlega að bjarga verðmætum. Björgunarstarfinu hélt hann svo áfram þegar Helgi var farinn.
Skarphéðinn hafði líka afskipti af annarri hrærivél, sú var ný, gul og ekki búið að merkja hernum. Eftir hádegi á föstudegi sagði hann vörubílstjóra sem var að flytja rör að hann ætti að draga vélina niður í Njarðvík og stilla henni upp við uppslátt sem þar var. Það á að steypa á morgun, sagði Skarpi. Hrærivélina seldi Skarphéðinn samdægurs, til Reykjavíkur gegnum síma. Aðspurður eftir á hvort hann hefði ekkert verið smeykur; nei, en mér brá svolítið þegar hún var komin til baka eftir mánuð en þá var hún orðin græn. Sameinaðir verktakar höfðu komið upp aðstöðu þarna á flugvellinum. Þar var mötuneyti, íbúðarskálar og verkstæði. Matsalurinn var nokkur hundruð fermetrar og voru flestir í mat þar eitthvað á annað þúsund sumarið 1955. Í miðju íbúðarskálanna var hreinlætisaðstaða og svo gangar í tvær áttir. Herbergin voru með átta kojum á tveim hæðum og virtist ekki fara illa um menn þarna. Svæði Verktakanna var afgirt og vörður í varðstöð þar sem var einhvers konar útvarpstöð þaðan sem hægt var kalla um kallkerfi sem einnig var hægt að tengja Ríkisútvarpinu eða plötuspilara. Eftir vinnu á kvöldin var oft farið í bíó. Þarna voru tvö bíó, annað rak herinn en hitt Bandarískir aðalverktakar sem voru vorið 56, Hedrick Grove, fyrirtæki sem hafði fengið það verkefni að færa öll þessi umsvif frá Metcalfe, Hamilton, Smitth and Beck Company til Íslenskra Aðalverktaka. Bíóið var í hverfi sem kallað var Seaweed en hét réttu nafni Contractors Camp og var eign verkfræðingasveita bandaríska landhersins.
Í hverfinu voru 96 íbúðaskálar sem hver rúmaði 24 menn og mötuneyti þar sem 2.000 menn gátu étið á klukkutíma. Hverfið var eins og lítill bær með verslun, veitingahúsum, bíói og tómstundasal sem Íslendingar höfðu aðgang að. Þar upplifði ég tvennt í fyrsta sinn á ævinni; át hamborgara og sá sjónvarp. Ekki höfðu Kanarnir meiri áhuga á sjónvarpinu en það, að nóg pláss var fyrir Íslendinga sem vildu kynnast þessu. Bíóin voru oftast fullsetin enda voru þar aðeins sýndar myndir í hæsta gæðaflokki. Við götuna inn í Contractors Camp var risastórt bílastæði, þar voru bílar og vinnuvélar í hundraðatali því mesti framkvæmdakúfurinn var að baki. Eitthvað af þessum vélum var sent til Bandaríkjanna, annað keyptu Íslendingar, m.a. Vitamálaskrifstofan og afganginn fengu Íslenskir Aðalverktakar. Vinnan í hangarnum var frekar leiðigjörn, sérstaklega þegar ég þurfti að sísnitta teina en þá snittaði ég þriggja feta teina enda á milli, svo söguðu pípararnir teinana í stutta búta þar sem það átti við.
Jóhann heitinn Valdimarsson pípulagningameistari kom oft á dag að sækja teina. Einu sinni heyrði ég einhvern hávaða fyrir utan skúrinn og þegar ég kíkti út sá ég sitt hvorum megin við tóma tunnu Jóhann og ameríska eftirlitsmanninn. Þeir voru að tala saman og talaði annar ensku en hinn íslensku, samtalið endaði með því að Jóhann sagðist ætla að reka alla helvítis Ameríkana í sjóinn og til áhersluauka barði hann með rörtönginni í tunnuna, rigningarvatn sem safnast hafði í tunnubotninn tókst á loft og rigndi yfir Kanann sem rennblotnaði, stökk upp í bíl og reykspólaði í burtu. Seinna um daginn kom nýr eftirlitsmaður sem sagðist hafa fengið fyrirmæli um að reyna ekki að kenna Jóhanni Valdimarssyni neitt því það væri nokkuð sem Bandaríski herinn réði ekki við. Einn daginn kom einn píparinn ekki í kaffi. Var hann nýkominn úr sveitinni og meig bara þar sem hann var hverju sinni. Nú hafði manninum orðið það á að míga utan í súlu þar sem stærsta rörtöngin stóð, hún var 60 tommu löng eða liðlega einn og hálfur metri, hlandið hafði slest á töngina, Jói Vald rak manninn fyrirvaralaust og var hann eftir þetta kallaður Maggi mígur. Oft voru á flugvélastæðinu herflugvélar sem var verið ferja yfir hafið, einu sinni var ein sem vopnaður vörður passaði, hann tók starfið alvarlega og gekk þráðbeint 24 skref í hvora átt.
Aftan við flugvélina var skurður sem Skarphéðinn var að vinna í. Pabba varð litið út um gluggann á skúrnum sá hann Skarpa skjótast upp úr skurðinum og skríða inn í flugvélina um op sem var neðan á búknum. Nokkru síðar skreið hann svo aftur ofan í skurðinn. Morguninn eftir spurði pabbi hvernig gengi í skurðinum, ágætlega en hún truflar svolítið þessi flugvél var svarið. Undir hangarnum eru leiðslugöng, þangað niður var ég sendur einn daginn til að skríða inn í rör til að sækja eitthvert verkfæri sem hafði gleymst í rörinu. Ofan í "tunnelnum" geymdu karlarnir ýmislegt sem þeir höfðu komist yfir og beið þess að vera flutt út af flugvellinum. Dótið var mest af haugunum og byggingarefnaafgangar. Einn safnaði sultukrukkum sem hann seldi sultugerð Sanitas og fóru krukkurnar með gosbílnum sem kom einu sinni í viku. Annar var rafvirki sem hafði lent í kröggum, hann safnaði vírendum sem hann skrældi og seldi til Kaupmannahafnar. Vírinn var borgaður með gulli sem kom til baka falið í slökkvitækjum. Tómstundaaðstaða Sameinaðra Verktaka var ekki eins vegleg og hjá Hamilton, samt undu menn sér þarna við þjóðlega iðju eins og að yrkja, tefla og taka í nefið. Hugi Hraunfjörð og Skagfirðingur nokkur kváðust á, fóru með fyrriparta og komu svo með seinnipartinn næsta kvöld. Allt er mér þetta gleymt nema einn bútur sem er svona: Leirhnoðsbullan lyddugjörn, liggur þar í leyni.
Frægastur var þessi tómstundasalur fyrir það að þarna hafði forstjóri Sameinaðra Verktaka, Guðmundur Einarsson, unnið rússneskan stórmeistara í fjöltefli.
Þegar Rússinn var kominn til Reykjavíkur var hann spurður um þetta tap, sagðist hann hafa verið hæddur um að verða lokaður inni á flugvellinum, betra að eiga Guðmund að ef það hefði átt breyta mér í pólitískan flóttamann. Krukkumaðurinn fór á "haugana" á hverju kvöldi, "haugarnir" voru í dæld niður við Contractors Camp, þarna var öllu rusli hent. Krukkumaðurinn átti merkilegan bíl, Dodge 40, sem afturendinn hafði ryðgað af. Eigandinn hafði smíðað nýjan afturenda sem fylgdi hurðalínunni að utan en að innan var trékassi með lóðréttum hliðum og á milli klæðninganna var svolítið bil sem hægt var að komast í með því að losa næstefstu fjölina. Eitt kvöldið fór ég með krukkumanninum á haugana, lítið var af krukkum en mikið af fatnaði og ýmsu dóti sem hermennirnir höfðu hent. Þeir urðu hálfóðir þegar nálgaðist þá stund sem þeir áttu að yfirgefa þennan ömurlega stað og hentu öllu sem þeir gátu verið án. Þarna undir einni hrúgunni var nýr og ónotaður jeppamótor. Á hann vantaði kveikju og karburator sem höfðu verið sett í annan mótor og svo hafði þessum verið hent í tiltektaræðinu. Á heimleiðinni áðum við í sjoppu sem var á bílastæðinu hjá tómstundaheimili Hamiltons. Inni í sjoppunni sat mafíuforingi í stífpressuðum fötum með bindi og hvítt um hálsinn. Það undarlega við þennan mann var að hann talaði lýtalausa íslensku og orðfærið var svipað og hjá þeim sem höfðu gengið í Samvinnu- eða Verslunarskólann. Krukkumaðurinn sagði: Sæll Siggi, getur þú selt mér jeppamótor. Jú, það mátti skoða það. Svo fóru þeir út að skoða mótorinn og mafíumaðurinn skrifaði á miða númerið á mótornum, svo fóru þeir inn í langan, svartan, amerískan fólksbíl sem stóð fyrir utan sjoppuna. Þarna handan við götuna var afgirt braggalengja og leit út eins útrýmingarbúðirnar Buchenwald. Ég stökk yfir götuna til að skoða hvað þetta væri. Við hliðið var varðskúr og á honum skilti sem á stóð: "For females only". Skyndilega birtist maður með kósakkahúfu og risastóra skammbyssu hangandi framan á brjóstinu, án þess að spyrja nokkurs sagði hann: Ef þú kemur þér ekki burt eins og skot lendirðu í miklum vandræðum. Ég skaust aftur yfir götuna. Inn um hliðarrúðuna á bílnum sá ég að þeir sátu við skrifborð og Siggi var að skrifa eitthvað á ritvél, svo tók hann blaðið úr vélinni, stimplaði og skrifaði undir. Krukkumaðurinn tók við baðinu og rétti hinum fimmhundruðkall. Á heimleiðinni sýndi hann mér blaðið þar sem stóð að hann hefði keypt notaðan jeppamótor af Sölunefndinni fyrir 300 krónur. Svo þurfti að borga Sigga 200 krónur í næturvinnuálag, sagði krukkumaðurinn þegar við kvöddumst. Í morgunkaffinu daginn eftir spurði ég Hjálmar hver hann hefði verið þessi með kósakkahúfuna. Blessaður, þetta hefur verið lögreglustjóri Hamiltons, Guðmundur Arngrímsson, hann verður alltaf pirraður þegar hann heldur að einhver sé að horfa á konur sem hann þykist eiga.
Hvað var hann að gera með þessa byssu? Ja, það voru hérna amerískir malbikunarmenn í fyrra og þeir áttu það til að drepa hver annan, þá lét hann sýna stríðsmynd í bíóinu, í myndinni voru einhverjir kósakkar að hálshöggva þýska hermenn. Daginn eftir mætti Gvendur með kósakkahúfu og byssu, Colt 65, sem hann fékk í verðlaun í FBI-skólanum, varð hæstur það árið. Eftir kaffið var ég sendur með Sigurjóni bílstjóra niður í Camp Nikel að sækja rör. Með okkur var maður úr Hafnarfirði sem var kallaður Belló og var sjómaður, rosalega snöggur að öllu sem hann gerði. Einu sinni var Belló á leið heim úr vinnu um fimmleytið. Sá hann þá fiskflutningabíl fyrir utan Mánabar, stakk hann hendinni undir yfirbreiðsluna og kippti með sér einni ýsu. Honum fannst ýsan ekki dingla rétt í hendinni og þegar hann var kominn fyrir hornið á Linnetsstíg ætlaði hann að skoða ýsuna sem ekki var nein ýsa heldur framhandleggur af kínverskum sjómanni sem hafði farist með olíuskipinu Clam. Fiskbíllinn hafði verið sendur eftir því sem fannst af Kínverjunum. Rörin sóttum við á gömlum hertrukk. Framan á trukknum var spil og bóma til að hífa rörin. Aftan í trukknum var flutningavagn sem við settum rörin á. Þarna í Camp Nikel átti að setja upp olíubirgðastöð, þess vegna voru sveru rörin geymd þarna. Vinnan gekk ágætlega en Belló var alltaf að reka mig frá, sagði að ég gæti farið í tvennt ef eitthvað klikkaði. Sigurjón fór þá að hlæja og sagði að þá yrði kjöt í helgarmatinn í Hafnarfirði. Þegar við fórum gegnum varðskúrinn um kvöldið rétti vörðurinn mér miða með skilaboðum frá Guðmundi í Lykkju, hann ætlaði að byrja slátt í næstu viku. Um helgina fengum við far með Jóhanni Valdimarssyni sem átti jeppa. Jóhann hafði keypt risastóra viskíflösku af manni sem hafði unnið hana í bingó hjá Hamilton. Flaskan var of stór fyrir leynihólfið í jeppagrindinni, karlinn skorðaði hana milli framsætanna. Þegar við komum í hliðið vorum við stoppaðir og lögreglumaðurinn bað okkur um að fara út því hann ætlaði að leita í bílnum.
Jóhann brást hinn versti við og spurði manninn hvort hann væri búinn að tapa vitinu, á eftir okkur væri rúta með áttatíu mönnum sem þyrftu að bíða eftir því að hann væri að leita að einhverju sem ekki væri til. Skildir þú þetta? Ef ekki, þá skilurðu ekkert. Aumingja lögreglumaðurinn varð alveg ruglaður við þessa leifturárás og leyfði okkur að halda áfram. Klukkan fimm á mánudag tók ég svo rútuna upp á Kjalarnes.
Höfundur er tæknifræðingur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GESTUR GUNNARSSON
tæknifræðingur,
Flókagötu 8, Reykjavík.
Frá Gesti Gunnarssyni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)