KEFLAVÍK 1963 X

 Nú voru brælur orðnar svo tíðar að þetta var eiginlega búið, við fórum tvo túra eftir að ég kom frá Hornafirði.  Þá var tíðin orðin svo leiðinleg að það var sjálfhætt.  Flótlega fór ég svo að vinna í pípulögnum hjá Stefáni Jónssyni pípulagningameistara, við lögðum m.a. heimæðar í einbýlishúsin við Stigahlíð.

Traktorsgröfur voru nýmæli á þessum tíma en voru nokkuð dýrar, þarna var fullorðinn sjómaður sem hét Pétur, hann undirbauð skurðgröfuna og þénaði vel. Þarna í Stigahlíðinni átti Svavar bróðir pabba heima í neðstu blokkini, einn daginn fórum við til hans og tengdum uppþvottavél. Eins og margir vita var Svavar flinkur hljómsveitarstjóri en slæmur smiður, hann hafði sjálfur ætlað að setja uppþvottavélina í innréttinguna sem þá hafði brotnað í tvennt. Þarna voru tveir barnungir frændur mínir sem ég sá þá í fyrsta sinn, nú eru þeir fullorðnir menn og hafa spjarað sig vel, hvor á sínu sviði.  Í nóvember fór að gjósa í hafinu við Vestmannaeyjar, Kennedy var drepin í Dallas, þá vorum við að leggja í hús Ingólfs Hannessonar við Hrauntungu, þarna hafði gleymst að gera ráð fyrir því að ketillinn kæmist inn í kyndiklefann. Það gerði ekki svo mikið til, Ingólfur hænsnabóndi mölvaði bara gat með sleggju úr bílskúrnum og inn í kyndiklefann.

 Svo fékk ég bréf frá Stokkhólmi, í því stóð að ég ætti að mæta þangað í skóla strax eftir áramótin. Gallinn var bara sá að ég kunni enga sænsku og lítill tími til stefnu. Í smáauglýsingu í Vísi sá ég að það var maður á Haðarstíg sem kenndi Sænsku. Kennarinn hafði flúið frá Þýskalandi á Hitlerstímanum og endað á Íslandi hét hann Harry. Var ég þar í tímum tvisvar í viku. Eftir fyrstu vikuna sagði kennarinn að þetta myndi ganga betur með heppilegri heimavinnu, dróg hann út skúffu og rétti mér úr henni nokkur ljósblá Sænsk smárit og sagði mér aðlesa heima, "drengir á þínum aldri hafa svo gaman af því að lesa svona lagað". Eftir 11 kennslustundir taldi Harry að ég væri orðin nógu góður. Fór ég svo til Svíþjóðar fljótlega eftir áramótin. Hvernig það gekk er nú önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þegar ég fór á lýðháskóla í Svíþjóð, það var þegar var aðeins yngri
Þá var ég eini Íslendingurinn fyrsta veturinn,
ég náði sænskunni reiprennandi, veturinn á eftir vorum við þrjár frá fróni.
                                          K.v.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.10.2007 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband