KEFLAVÍK 1963 VII

 

Jón Katarínusson hafði verið annar vélstjóri á einum þriggja tundurduflaslæðara sem keyptir voru hingað frá Bretlandi eftir stríð, þeir voru á leið til Spánar með saltfisk þegar skipið fór að leka, djúpt undan Írlandi.

Þeir sendu út neyðarkall, flugvél   fann þá, flaug of lágt og fór í sjóinn. Allir sem í henni voru fórust, þetta fékk svo á fyrsta vélstjóra að hann gafst eiginlega upp. Þá sendi Jón, Gústa Ben,  ofaní sjóinn í vélarrúminu til að taka síuna af sogröri lensidælunnar en það hafði alltaf stíflast. Við þetta fór sjórinn að minnka í skipinu, áður en þeir settu vélina af stað aftur sökktu þeir stórum segldúk fyrir framan stefnið. Þegar skriður komst á skipið pressaðist dúkurinn upp að stefninu og lokaði verstu lekastöðunum, komst skipið til hafnar á Írlandi og sökk þar við bryggju. Farmurinn var ónýtur og útgerðin hafði takmarkaðan áhuga á þessu sokkna skipi sínu. Var áhöfnin þarna í nokkra mánuði og lifði á því að selja ýmislegt úr skipinu. Óla fannst fiskiríið ekki nóg og það hljóp eitthvað óyndi í karlinn, eftir eina helgina kom hann ekki aftur. Engan kokk var að fá svo ég bætti því bara við vélstjórnina. Mamma sagði mér hvað allt það helsta  þyrfti að sjóða lengi og svo bætti ég þetta upp með pakkasúpum. Svo lenti Jón yfirvélstjóri á fylliríi og kom ekki aftur. Þá vorum við bara fjórir á, skipstjórinn var gamall vélstjóri þannig að þetta gerði ekki svo mikið til. Ég fékk vélstjórakojuna í káetunni, þar voru ýmis gögn varðandi vélina m.a. notkunarhandbók, bókin var á norsku, ég hafði lært dönsku í vélskólanum og gat þess vegna lesið bókina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband