KEFLAV'IK 1963 VI

 

 Í Svaninum var nýleg 240 h.a. Wickmann vél, framan á vélinni var heljarmikið svinghjól á þessu svinghjóli voru spor fyrir þrjár reimar sem drifu dynamó sem festur var við stjórnborðssíðuna. Aftan á vélinni voru lensidælur sem voru viðkvæmar fyrir óhreinindum. Ef t.d. eldspýta eða fiskbein festist í contraventlunum á dælunum þá gat sjór komist í reimarnar og þá skemmdust þær og dynamórinn hætti að virka.  Framan á svinghjólinu var kúpling fyrir spildæluna, sem var stjórnborðsmegin og var drifin með keðju. Þessum drifbúnaði var haldið uppi að framan, af kúlulegu sem fest var við lestarþilið. Við höfðum varareimar með samsetningum sem við gátum sett við út á sjó, en þær entust ekki  vel. Ef það slitnuðu reimar þá skiptum við um í inniveru, það var ógurlega erfitt verk og svo voru allskonar smáhlutir í kúpplingunni sem vildu detta niður í kjalsogið.  Guðleifi skipstjóra fannst lítil framtíð í þessum Humarveiðum svo við skiptum fljótlega yfir á fiskitroll,  trollið var með 80 feta höfuðlínu og  hlerarnir svona einn og hálfur fermetri, þetta fannst mér gömlum togaramanni hálfgerð leikföng. Garðar hafði fiskað vel í trollið árið áður og fyrir hagnaðinn hafði verið keyptur radar, bómuvinda og stýrið verið vélvætt með snekkjudrifsmótor sem tengdur var við stýrishjólið með reim.

Út við Eldey voru einhverjir blettir þar sem hægt var að veiða löglega í þetta troll.  Við fórum út á sunnudögum  og lönduðum eftir hádegi á föstudögum, þetta var svona svipuð vinnuvika og hjá vanalegu fólki að því undanskildu að við höfðum engan ákveðin hvíldartíma, en fiskiríið var ekki meira en svo að við gátum oft lagt okkur á toginu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband