3.10.2007 | 06:22
KEFLAVÍK 1963 III
x
Á prammanum voru tveir grabbakranar með einum vír og þessu gat enginn almennilega stjórnað nema togaramaðurinn Gunnar Þormóðsson sem hafði verið með Gylfa á Ingólfi. Ef hífing með þessu misheppnaðist féll grabbinn niður í lestina og gat farið niður úr botninum á bátnum ef lítið var eftir. Þessi prammi var í eigu Kveldúlfs sá sem sá um peningamálin hét Vésteinn og var auðvitað kallaður fésteinn. Skipstjóri á prammanum var Jón Gestur vélstjóri úr Hafnarfirði, vegna þess hve skipstjórastarfið var erilsamt þurfti hann að ráða vélstjóra, slíkir menn voru torfinnanlegir, loks fannst einn heimsfrægur vélstjóri frá Akureyri. Jón Gestur sýndi nýja vélstjóranum vélarúmið og kenndi honum að smyrja. Um haustið kom vélstjórinn til Jóns og sagðist vera búinn að finna nýjan smurstað. Jón fór með vélstjóranum niður og spurði hvar þetta væri, hinn tók áfyllingarlokið af ventlalokinu og sagði sko hérna stendur oil. Hvar hefurðu sett olíuna á vélina, nú hérna sagði vélstjórinn og dró út olíukvarðann. Einu sinni kom vélstjórinn til skipstjórans og spurði hvað það héti sem pípulagningamenn notuðu og væri svona beint hné. Það er auðvitað staurfótur svaraði Jón Gestur. Þarna hittum við Gústa Ben, hann var vélstjóri á Baldri, eina tundurduflaslæðaranum sem var eftir. Þeir voru að flytja síld norður. Skipið var orðið svo lélegt að það höfðu verið settir fjögra tommu battingar gegnum vélarrúmið á milli lestarþiljanna og vélstjórinn ferðaðist eftir þessu eins og loftfimleikamaður. Saltað var á mörgum plönum og aðalgatan þakin tommu þykku lagi af síldarúrgangi sem flaut út af yfirfullum vörubílum.
Athugasemdir
Það hefur verið frekar seinlegt að bæta á vélina. En eigum við ekki að skella okkur fljótlega í Perluna og halda uppá afmælið og taka B.K. með. Kveðja.
Eyþór Árnason, 3.10.2007 kl. 23:33
Sæll Gestur.
Eins og þú veist þá sökk m/s. Baldur út af austfjörðum, og eins þú segir frá þa´var Baldur orðinn heldur lúinn, og lekur. Eg heyrði að hann hefði sokkið vegna þess að lensidælurnar hafi stýflast, af miðunum utan af vínflöskunum er voru geymdar í kjalsogi hans.
kv. h.
haraldurhar, 4.10.2007 kl. 00:16
Var einmitt að reyna að muna hvar Baldur hefði sokkið, því auðvitað hlaut hann að sökkva. Afmælið verður að halda.
Kv
Gestur
Gestur Gunnarsson , 4.10.2007 kl. 06:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.