1.10.2007 | 05:23
KEFLAVÍK 1963 I
Í lokin 1962 var Gylfi Helgason sendur á hvalbát austur á Seyðisfjörð. Vélin í bátnum var ónýt og ketilinn átti að nota til að kynda síldarverksmiðju sem þar var í smíðum. Fyrir að skríða inn um gluggan í hlíðunum var Eiríkur af föður sínum sendur umsvifalaust í afvötnun á Bláa Bandið. Þannig að hann gat ekki haldið upp á lokin fyrr en um miðjan júní en þá gat hann sameinað loka og þjóðhátíðardaginn. Annars var þessi vera hans þarna nokkuð söguleg, því heilbrigðisyfirvöld höfðu keyft frá Bandaríkjunum "rafmagnsstól" sem átti að nota til þess að venja menn af áfengisþorsta. Þetta var þannig útbúið að sjúklingurinn sat á rafskauti og svo var hitt skautið tengt við drykkjarmál sem í var settur Whiskídreitill. Svo átti að drekka úr málinu við það fékk hann rokna rafstuð sem átti að draga úr drykkjuhneigðinni. Einn öflugur togarakarl Ástráður reyndi þrjátíuogtvisvar sinnum áður en hann gafst upp. Náði aldrei sopanum.
Við Gunnlaugur Jónsson frændi minn, sem á þessari vertíð var vélstjóri á m.b. Jökli frá Reykjavík, vorum á einhverju sluxi í c.a. viku en þá sendi pabbi mig í vinnu suður með sjó. Suður á Stafnnesi var Bandaríski herinn að reisa stöð fyrir símsamband milli Evrópu og Ameríku þessar stöðvar voru búnar spegilloftnetum sem gátu verið allt að 40x40m. að stærð. Stöðvarnar sendu sterkan grannan geisla sem speglaðist í veðrahvolfinu. Rússarnir áttu ekki að geta hlerað svona búnað. Til þess að drífa þetta voru á Stafnnesi fjórar 750 h.a. og ein 1300 h.a. Nordberg Dieselvélar og voru keyrð á þessu samtímis 1500 h.ö. . Minni vélarnar þoldu ekki álagið, höfuðlegurnar voru í undirstykkinu og þau sprungu eftir 15- 20000 kl.st. keyrslu. Þurfti því að taka vélarnar sundur og skipta um undirstykkið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.