29.9.2007 | 09:40
VATNSTJÓN
Hæsta tíðni vatnstjóna í heiminum er á Íslandi. Vatnstjón eru eru okkur dýrari en brunatjón. Hver fjölskylda verður fyrir alvarlegu vatnstjóni á 15 ára fresti að jafnaði, sé miðað við margfræga vísitölufjölskyldu er þetta tjón 225000 krónur að meðaltali. Þeir sem komast næst okkur í þessum ósköpum eru Svíar en þeirra tjón eru að stórum hluta vegna vatnsleiðslna sem frostspringa í sumarbústöðum. Hvers vegna verða tjón hér hjá okkur. Leiðslur eru lagðar inni í útveggja einangrun, veggirnir leka, vatn kemst að leiðslunum og inni í einangruninni eru kjöraðstæður fyrir tæringu. Tæringarhraði tvöfaldast við hverjar 5°C sem hiti hækkar. Vatn lekur meðfram innmúruðum baðkörum og rennur niður lagnaraufar þar sem víða eru kjöraðstæður fyrir tæringu. Þetta er nú það helsta. Hvers vegna er þetta svona? Það kom kreppa og stríð. Í kreppunni var lítið byggt og svo þegar stríðið skall á fimmfaldaðist þörfin fyrir pípulagningamenn (eða rörlagningamenn eins og þeir hétu þá) Handlagnir mótoristar urðu löggiltir pípulagningameistarar og fengu leyfi til þess að kenna nemum nokkuð sem þeir alls ekki kunnu. Ný stétt varð til ,,Píparar". Ekki skipti lengur máli hvernig farið var að, steypu var bara slett yfir allt draslið og svo sá rigningin um framhaldið. Skólaganga pípulagnanema hefir löngum verið í lágmarki og oft snúist um það að réttlæta launagreiðslur til einhverra manna sem kerfið var í vandræðum með. Hafnfirðingar hafa þó oft meira af vilja en mætti reynt að hafa þessi mál í lagi. Nú er svo komið að þeirra litla deild er orðin yfirfull með liðlega 80 nemendur af öllu landinu. Þegar flest er í verklegum tímum eru fimm fermetrar á hvern nemanda. Á meðan þetta er svona stendur liðlega 1000 fermetra fullkomin kennsluaðstaða nánast auð og ónotuð í Keldnaholti. Til að bæta ástandið hefir einhverjum dottið í hug að flytja þa starfsemi suður í Vatnsmýri og leggja hana undir Háskólann í Reykjavík. Svona að endingu má segja frá því að sami Háskóli átti fullkominn búnað til að kenna á raflagnir. Húsvörður Háskólans hringdi í nokkra verknámsskóla og bauð kennurum að hirða dótið því hann vildi ekki henda því á haugana að skipun Rektors.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.