13.9.2007 | 06:47
Keflavík 1962 VII
Vikuna fyrir páska skiptum við um net, þetta gekk þannig fyrir sig, að á landstíminu skárum við af steina og kúlur, svo var steinuð niður ný trossa eftir löndun. Vanalega var því ekki lokið fyrr en kl. þrjú á næturnar, svefntíminn var þá bara útstímið sem var þrír tímar. Um páskana voru slæm veður og mikill straumur, þegar við á endanum komust út fundum við bara tvær trossur, þegar þær voru dregnar hófst leit að hinum. Tvær fundust með dýptarmælinum og voru þær slæddar upp, þetta var ógurlegur ýlduköggull. Það sem heilt var af fiskinum settum við í lestina en hitt á dekkið. Þegar við fórum að landa dekkfarminum gaus upp slík fýla að hafnarsvæðinu hefði verið lokað ef núgildandi mengunarreglur hefðu verið til.
Á sumardaginn fyrsta höfðum við lokið öllum verkum um níuleitið, þá datt Óla það í hug, að það væri upplagt að fara á slysavarnaball í Úngó. Kokkurinn sagði að Gestur yrði að styrkja félagið ef hann dytti aftur í sjóinn og þyrfti að kalla út björgunarsveit. Þegar við vorum sestir niður fór Óli að segja sögur, við vorum með appelsín í glösum en ekkert brennivín það gerði ekkert til því þeir sem hlustuðu á Óla borguðu með brennivíni og sögurnar mögnuðust um leið og appelsínið varð ljósara. Skyndilega hætti tónlistin og hljómsveitarstjórinn sagði að það væri áriðandi tilkynning, "Gestur og Ólafur á Svaninum eiga að tala við dyravörðinn strax". Far þú að tala við útkastarann sagði Óli. Jú dyravörðurinn sagði að skipsjórinn hefði verið þarna og sagt að það yrði ekki róið í nótt. Þegar ég kom til baka var Óli að segja söguna af því þegar togarinn Júlí strandaði 1. Desember 1948. Áður en þeir fóru dreymdi hann að hann væri á bryggjunni í Hafnarfirði þar sem Júlí lá, á bryggjunni voru 24 líkkistur Óli kíkti í kisturnar og voru þær allar tómar nema ein. Sá sem var í kistunni frétti af draumnum og fór ekki með skipinu.
Athugasemdir
Sæll Gestur.
Þá er ég sest við tölvuna aftur, það var nefnilega verið að mála tölvuverið
og kaupa borð og stól og svoleiðis er búin að vera nokkuð lengi að velja það
vildi ekki svona hefðbundið tölvuborð, er að sjálfsögðu afar skrítin, eða þannig.
Ég varð aldrei svo fræg að vitja þessara staða sem þú nefnir nema Þórskaffi,
þangað fór maður að dansa og k.k.og Ellý voru að halda uppi fjörinu.
Glaumbær, það var flottur staður þar uppi var djass-klúbbur fannst mér afar
ljúft að setjast niður og hlusta þar uppi.
K.v.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.9.2007 kl. 13:03
Mikið var gott að þeir náðu þér úr sjónum Gestur minn, og takk fyrir öll símaráðin. Kannski læt ég postula pissa á hann. En Það er Heilsubælisafmælið. Við verðum a.m.k. að fá okkur kaffi og kannski appelsín! Kveðja.
Eyþór Árnason, 13.9.2007 kl. 21:35
Afmælið höldum við í Perlunni, má prófa að hafa appelsín og brennivínsflösku undir borði. Til að halda dyravörðum frá stillum við bara upp gamalli kvikmyndatökuvél og gerum BK að leikstjóra.
Þegar pissað er á farsíma skal taka rafhlöðuna úr annars geta menn hugsanlega orðið náttúrulausir.
Arbeit macht Frei
Gestur Gunnarsson , 14.9.2007 kl. 06:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.