12.9.2007 | 05:47
Keflavík 1962 VI
Svo var ekki aðalerindið var að fara á ball í Þórskaffi. Eitt mikilvægt atriði hafði þó gleymst, spariföt Eiríks Sigurjónssonar voru í hreinsun og hreinsunin var búinn að loka þegar kvæðamennirnir komu þangað. Þá hófst dauðaleit að fötum á Erík sem endaði með því að hann skreið inn um glugga hjá systur sinni upp í hlíðum, þar fann hann nokkurnvegin passlegan jakka af strætóstjóra. Þeir í Þórskaffi höfðu nýlega lent í vandræðum með einhverja hermenn og voru búnir að loka á alla menn í uniformum. Þá reyndum við að komast í Vetrargarðinn en þar var allt fullt og Lögreglan búin að setja vörð í eldhúsið en þar var vanalega hægt að komast inn gegn aukagjaldi ef aðgöngumiðarnir voru uppseldir. Þarna var orðið það áliðið að við fórum bara aftur suður með sjó, klárir í nýjan róður.
Fiskiríið gekk prýðilega við vorum mikið í straumnum úti við Eldey þess vegna vorum við með tvo stóra dreka á hvorum trossuenda og svo fjóra belgi til að halda uppi færunum. Baujurnar voru svona sex metra langir tréstaurar með korkfloti og nokkrum hlekkjum af ankeriskeðju í kjölfestu. Eitt sinn vorum við með eina trossu í bakborðsganginum og ég er að drauja bauju yfir trossuna þarna í ganginum þá festist hællinn á öðru stígvélinu í möskva og beint á rassgatið en gallinn var bara sá að rassgatið lenti fyrir utan lunninguna. Hausinn kom fyrst í sjóinn og mér fannst að sjóhatturinn myndi týnast og það yrði töluvert tjón, næsta skynjun er sú að ég held með báðum höndum um baujufærið, sem rekst út en festist fljótlega. Þarna drógst ég aftan í bátnum og beið björgunar. Sú bið varð ekki löng því allt í einu heyrðust hróp og köll, báturinn stöðvaðist, áhlaupssveitin birtist á lunninguni og fallistinn var dreginn um borð. Sjóhatturinn var enn á hausnum, stígvélin voru brett alveg niður á hæla og ég var þurr fyrir ofan mitti. Garðar skipstjóri varð alveg kolbrjálaður og sagði að ef menn væru skráðir á skip þá ættu þeir að vera um borð en ekki hangandi aftan í þeim. Mig rak hann ofan í vél til að skipta um sokka og buxur. Buxurnar hengdi ég upp í vélarrúminu, en þessu vélarrúmi átti ég eftir að kynnast mjög vel seinna. Í kaffinu var Garðar farinn að róast og sagði okkur frá öðrum loftfimleikamanni sem hafði verið þarna vertíðina árið áður, sá hafði leikið það að stökkva upp af úrgreðsluborðinu, í kröppum sjó svona rétt áður en báturinn komst á öldutopp. Í seinasta stökkinu var hann svo óheppinn að báturinn valt undan og hann lenti í sjónum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.