Keflavík 1962 IV

 

 

Venjulega vorum við búnir að landa seint á kvöldin, stundum gengum við strákarnir eftir löndunina upp á bílastöð sem var þarna á Vatnsnesinu. Eitt sinn er við vorum þarna seint á föstudagskvöldi kom einn bílstjórinn með brennivínskassa, skellti honum á gólfið og seldi sjómönnunum innihaldið á c.a. þrem mínútum. Allt á yfirverði og staðgreitt því venja var að láta menn hafa þúsundkall eftir föstudagslöndunina. Í lok marz vorum við að steina niður net, þá birtist skyndilega maður og fór að vinna með okkur. Þarna var kominn Ólafur Guðlaugsson  föðurbróðir Guðrúnar Helgadóttur  rithöfundar.

Ólafur var mikill sögumaður  og gekk kjafturinn á honum eins og vélbyssa allan sólarhringin. Eftir þetta varð kokkurinn þögull því hann hafði ekkert við Óla sem víða hafði verið s.s., á togurum við Grænland, í Hvítahafinu, róið frá Vestfjörðum, verið verkstjóri í Bretavinnunni, hjá kananum á Keflavíkurflugvelli, nú svo á unglingsárum aðstoðarmaður Breskra Laxveiðimanna í Borgarfirði en af þeim hafði hann lært Ensku.   Mér hafði gengið illa í fermingarfræðsllunni, gekk illa að læra sálmana og hafði verið fermdur hálfgert upp á faðirvorið. Veltitíðni á netabát virtist breyta þessu, því skyndilega kunni ég vísur eftir að hafa heyrt þær einu sinni. Óli sagði okkur frá körlum í bretavinnunni sem voru að kveðast á, Brezki offiserinn skildi þetta ekki og spurði hvað mennirnir væru að gera.  Þá sagði annar karlinn:

 

We are fighting men

We are united nation

We will fight to the last drop of  blood

If  we have ammoniation

 

Svo hvarf vörubíllinn og  offiserinn varð órólegur. Þá heyrðist í einum:

 

Sir I am so sorry

To tell you the story

Of the lorry

It is fucked up

In the quarry

 

Svo skall á togaraverkfall. Nágranni minn og skólabróðir úr Skerjafirðinum, Gylfi Helgason og nokkrir aðrir af togaranum Ingólfi Arnarsyni  fóru að róa á Haföldunni frá Neskaupstað sem haldið var út frá Sandgerði.  Eftir löndun eitt kvöldið  var ég að drekka kaffi með Halla og Villa þá birtist Gylfi þarna í lúkarnum og spyr hvort okkur vanti ekki kvenfólk, hann sé með tvær stelpur sem hann þyrfti að losna við. Karlarnir urðu klumsa við þetta, þetta var nú einum of mikið þó þeir væru ýmsu vanir úr stríðinu. Gylfi sagði að þetta væru kostakaup við þyrftum ekkert að borga og svo gætu stelpurnar vaskað upp og þrifið sér sýndist að það veitti ekki af því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband