5.9.2007 | 05:46
Grænland 1960 XIV
Með hækkandi sól og batnandi veðri, fórum við að sækja á Vestur-Grænland. Þar var veitt þannig að byrjað var syðst ef ekki var afli, var farið norðar og prófað á næstu veiðislóð, svo koll af kolli, þar til afli fékkst. Venjulega var farið milli staða á næturnar, sá þá Gunnar Jónsson um siglinguna en skipstjórinn svaf. Lestin var alltaf orðin full eftir fimm daga, utan einu sinni þá var Gunnar stýrimaður í sumarfríi, við festumst í ís eina nóttina og þetta varð einhver vitleysa allt saman og við lönduðum 129 tonnum.
Snemma um haustið, fengum við svo nýtt skip; Víking AK 100. Gat það tekið 550 tonn af ísfiski í lestina, gekk eins og tundurspillir 17 hnúta í öllum veðrum. Sigldi í gegnum öldurnar, án þess að fá sjó á dekk. Þetta haust vorum við mikið á Halamiðum og lönduðum í Bremerhaven, ég man lítið eftir þeirri borg. Mig minnir að leigubílarnir þar hafi verið svartir með einhverskonar stjörnu sem stóð upp úr vélarhlífinni að framan. Á Gamlárshvöld 1960 komum við til Reykjavíkur Erla systir mín hafði skráð mig í Iðnskólann þar settist ég í þriðja bekk 7. Janúar.
Seinna fór ég svo í aðra skóla og gekk bara vel, það má m.a. þakka þeim harða aga sem ég kynntist þarna um borð í Þormóði Goða. Skipstjórinn reyndist svo fínn karl sem hafði komið sér upp pottþéttri aðferð til að temja unglinga. Mörgum árum seinna lærði ég námssálarfræði í Kennaraháskólanum og komst að því að skipstjórinn Hans Sigurjónsson kunni mikið meira í fræðunum en sumir af prófessorunum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.