Grænland 1960 XI

 

 Á innri koppinn fór húkkreipið frá afturgálganum. Róparnir voru þræddir gegnum stroffur á höfuðlínunni og útendarnir festir í bobbingalengjuna, þannig var bobbingalengjan hífð upp á síðuna og höfuðlínan fylgdi með. Í aftari kvartinn var lásað vír sem festur var í toppinn á afturgálganum. Í framkvartinn var stóri gisinn settur, en það var vír sem þræddur var gegnum blökk sem var efst í mastrinu að aftan. Þegar gilsinn tók í kvartinn kom miðjan af bobbingalengjunni inn fyrir og hafði með sér miðjuna af höfuðlínunni. Í miðjuna á höfuðlínunni voru fest tvö tóg "Rússi og stertur" "Rússinn" var tekinn gegnum ferliðu og hífður inn á spilkopp, en "sterturinn" halaður inn á höndum. "Rússinn" var festur við belglínuna, þar sem belgurinn tengdist vængjunum, var þá sett snörla á belginn með henni var tekin ein færa. Svo kom galdurinn, vegna þess að stýrishúsið var nánast jafnbreytt skipinu, hafði verið sett blökk í litla uglu, sem fest var við stýrishúsþakið, þetta var loftgilsinn með honum var lokafæran tekin. Næst var litli gilsinn settur í vírsertinn, talía í pokagjörðina og pokinn hífður innfyrir lunninguna þar sem bakstroffan greip hann. Pokamaðurinn snaraðist undir og leysti frá og fiskurinn sturtaðist á dekkið. Áfram var haldið, ís, rok, ágjöf, og heitt kaffi úr hvítum krúsum með hanka, það hjálpaði. Ef trollið var ekki hengilrifið var afli ágætur. Svo þegar ein lægðin enn var að ná sér á strik, með tilheyrandi hafróti og látum, heyrðist úr brúarglugganum: "innfyrir, binda upp og súrra". Meðan við vorum að ganga frá veiðarfærum og afla var skrúfan látin snúast hægt afturábak, skipið var þá eins og risavaxinn vindhani sem flaut á sjónum.

x

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Það á eftir að hvessa meira.

Gestur Gunnarsson , 2.9.2007 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband