1.9.2007 | 08:58
Grænland 1960 X
Skömmu síðar stöðvaðist skipið og skipstjórinn kallaði, "látaða fara". Við Jói stóri komum út forhleranum og svo var trollið híft út með pokabómunni. "Fjögur hundruð og fimmtíu í gálga", heyrðist kallað úr brúnni. Við fengum okkur kaffisopa, því stranglega var bannað að vera úti meðan slakað var út. Í kaffinu spurði ég Grindvíkinginn Sigmund Guðmundsson varastýrimann , hvað fjögurhundruð og fimmtíu þýddi. Það þýðir að við erum á hundrað og fimmtíu föðmum og það verður karfi í trollinu. Eftir klukkutíma tog var híft. Ekkert í sögðu karlarnir, enginn poki upp. Við hífðum inn fimm poka, þar af voru þrír einhver sjávargróður sem var kallaður ostur. Gilsa á hlerana, við erum ekki Mjólkurbú Flóamanna, heyrðist úr brúnni. Siglt í korter, slaka, fimmhundruð í blökk. Híft eftir klukkutíma, þrír pokar af karfa og nokkrir þorskar. Þetta er Grænlandsþorskur sagði bóndinn. Hvernig veist þú það, spurði ég. Hann er svo svartur og horaður. Svona gekk þetta áfram ágætur afli, en mikið rifrildi, eina vaktina gerðum við ekkert annað en gera við net, belgurinn á bakborðstrollinu var allur aftur í poka og önnur belglínan í sundur. Þegar við ætluðum að lása belglínuna við fótreipið, kom í ljós að boltinn í lásnum var boginn og þarafleiðandi fastur. Einhver kom með járnsög og byrjaði að saga, það gekk frekar illa. Allt í einu segir Eymar, píparann á sögina, ég tók við og náði lásnum sundur á nokkrum mínútum, þetta fannst sjómönnunum galdri líkast. Þó að sjórinn væri kaldur og lofthiti lítill virtist það hafa lítil áhrif, það var eins og hendurnar vendust þessu. Svo fór að versna veðrið, en áfram var streðað, skipstjórinn eins og jó-jó milli brúargluggans og kortaklefans þar sem radarinn var. Menn voru sendir á ísvakt fram á hvalbak,ef ekki var stætt þar var farið á brúarþakið og hangið í stóra kompássnum. Við Jói stóri vorum við forhlerann, mitt hlutverk var að toga í vírinn þegar karlinn sagði, hala og greiða fyrir vírnum út af spilinu þegar hann sagði slaka. Auk þessa þurfti ég að sjá um húkkreipið, en það var tóg sem húkkað var í rópsendann og þrætt gegnum ferliðu á dekkhúsinu. Frá ferliðunni fór húkkreipið frá forgálganum inn á ytri spilkoppinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.