29.8.2007 | 06:59
Grænland 1960 VII
Það var engin þyrla, mig hafði bara dreymt þetta. Í matsalnum var karl að ausa hafragraut á disk hann var á nærbuxunum á höfðinu var sixpensari síðan fyrir stríð, gamalt stöðutákn kreppuáranna, karlinn sem var fyrirmannlegur settist við yfirmannaborðið og fór að tala við Jón annan vélstjóra sem þar sat. Ég settist á móti bóndanum og spurði hver þetta væri. "Þetta, þetta er bræðslumaðurinn, Guðmundur Halldór, pabbi Gvendar Jaka". Hvað er hann gamall. Ja hann byrjaði til sjós 1899 og er búinn að vera á togara stanslaust síðan 1913. Mega menn vinna svona lengi. Ja hann hætti um sjötugt en gat ekki sofið á þurru, svo heimilislæknirinn sagði honum að fara bara aftur á togara. Af hverju er karlinn ekki í neinum buxum. Ja hann kemur í morgunmat, leggur sig, byrjar svo að vinna klukkan átta og vinnur til miðnættis, hann og fyrsti meistari eru með prívat vaktakerfi, átta og sextán. Nú var Guðmundur Halldór farinn að hækka röddina og sagði: "þetta eru helvítis kratar og kommúnistar þarna í Hafnarfirði. Þeir eru með nýtt frystihús og voru að bjóða mér pláss á nýjum togara, þúsund tonna, sagði vélstjórinn. Þúsund tonn, hann fer með svo mikla olíu að það fer allt á hausinn, helvítis kommúnistinn í Bæjarstjórninni lætur Bæjarútgerðina gera út fyrir sig einn togara, kratarnir annan, svo verður almenningur að borga kostinn og olíuna, þeir segja að það sé haghvæmara að vera með sex togara en fjóra". Nú var karlinn að komast í stuð, barði í hornið á borðinu svo kaffið vélstjórans slettist framan í hann. Yfirvélstjórinn Pétur Gunnarsson var nú sestur hjá þeim við borðið og spurði Jón hvort hann væri búinn að dæla á daghylki ljósavélanna, æ nei sagði Jón og snaraðist niður í vél.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.