28.8.2007 | 06:49
Grænland 1960 vi
Er vélin ónýt spurði ég, ónýt eða ekki ónýt, leyniuppskriftin af legumálminum brann í stríðinu, Rússarnir heimtuðu yfirverkfræðinginn í stríðsskaðabætur, kanarnir voru svo hræddir að þeir þorðu ekki annað en láta þá fá karlinn. Kruppararnir eru ennþá að reyna að finna út úr þessu. Bæjarútgerðin borgar brúsann. Best að leggja sig sagði Kristinn og fór. Best að leggja sig líka, hugsaði ég og fór frammí. Í kojunni fór ég yfir stöðuna, skipstjórinn var greinilega geðveikur, var með þessa Jekyll og Hyde veiki sem ég hafði séð í bíó. Yfirstýrimaðurinn Hafnarstrætisróni sem trúlega hafði þurft að leysa úr tugthúsi, það skýrði brottfarartöfina. Kjötið baneitrað frá Þorbirni í Borg, pabbi hafði sagt mér frá því þegar hann vann á vellinum, þar fengu allir drullu, 1600 menn samtímis, kjöt frá Þorbirni. Ofan á allt þetta var vélin ónýt. Um nóttina kom þyrla frá Varnarliðinu, maðurinn sem seig niður var Eyjólfur sundkappi og sagðist hann vera að sækja veikan mann, Hans Ragnar Sigurjónsson, hann er víst eitthvað lasinn í höfðinu. Þegar ég leit upp, sá ég að þyrlustjórinn var Dóri fisksali á Grímsstaðaholtinu. Í opinu á þyrlunni var maður í hvítum slopp mér sýndist fyrst þetta vera Helgi Tómasson á Kleppi, svo fór maðurinn að slaka niður kjötskrokkum og kallaði: "kjötið er frosið, þeir misstu í það kamfýlósalmónellubakteríu á Landsspítalanum". Dr. Thoroddsen sagði að kjötið væri í lagi ef það næði ekki að þiðna, það verður að fara frosið í pottinn strákar". Nú sá ég að þetta var ekki Helgi Tómasson, heldur Þorbjörn í Borg. Eyjólfur sundkappi var nú kominn út á dekk með skipstjórann sem kominn var í hvíta múnderingu sem á var lykkja ofarlega á bakinu, þyrluvírnum var húkkað í lykkjuna, hífa kallaði Eyjólfur. Það heyrðist smellur þegar Þorbjörn kúpplaði inn spilinu á þyrlunni, hvinurinn í þyrluspilinu var ar alveg eins og í trollspili, bara lægri. "Ræs, það er glas", sagði einhver, ég heyrði ennþá hvininn í þyrluspilinu en áttaði mig þá á því að þetta var trollspilið og sá sem kallaði hífa, hét ekki Eyjólfur heldur Gunnar og var yfirstýrimaður á togaranum Þormóði Goða.
Athugasemdir
Ég las bloggið þitt oft fyrir þónokkru síðan. Þá varstu að blogga um lífið á stöð 2. Ég man eftir þér þaðan.
Svo gleymdi ég blogginu þínu, en er nýbúinn að uppgötva það aftur. Þetta er mjög skemmtilegt.
Sæmundur Bjarnason, 29.8.2007 kl. 02:01
Já Gestur minn, þetta er alveg einstakur draumur. Ég held að það geri manni gott að dreyma svona drauma. En hvernig gekk í berjamó?
Eyþór Árnason, 29.8.2007 kl. 20:57
Sæll Sæmundur.
Ég man vel eftir þér þú varst með skrifstofu þar sem við fluttum leikmyndirnar í gegn. Svo áttir þú svakalega stóran Chevrolet.
Kv.
Gestur
Gestur Gunnarsson , 30.8.2007 kl. 07:12
Sæll Eyþór .
Berjatínslan gekk vel miðað við veður, það var blautt á. Tíndi tvö kíló af bláberjum með fingrunum. Kristján Eldjárn sagði að til að sögur yrðu læsilegri mætt skreyta þær, án þess að nota tóman skáldskap eða vísvitandi lygar.
Kv.
Gestur
Gestur Gunnarsson , 30.8.2007 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.