Grænland 1960 IV

x

 

 

 Mælingar sem ég hef gert benda eindregið til þess að þetta hafi verið smíðað eftir sömu teikningu. Sagt var að skipið hafi verið hannað af vængstýfðum kafbátaverkfræðingi, hann hefir e.t.v. hugsað sem svo að best væri að láta þessa Íslendinga eignast eitt skip með almennilegu stýrishúsi. Eða þá bara af gömlum lager. Vistarverur voru fyrir fjörutíu manna áhöfn, allt rúmgott og snyrtilegt. Kl.18.00 var svo ræs, þegar út kom var verið að hífa inn bobbingalengjuna sem kom niður með miklum dynkjum, varð ég þá hálfsmeikuur. Þegar ég kom út,eftir matinn, var einhver hvinur og hávaði, skyndilega heyrðist öskrað ofan af brúarvængnum; "komdu þér inn mannhelvíti, við erum að slaka út". Ég hrökklaðist tilbaka, en áttaði mig ekki á því að þröskuldar á skipum geta verið fimmtíu sentimetra háir, því datt ég á rassgatið inn í dekkhúsið aftur. Þegar ég loksins komst fram á dekkið, var aftur öskrað úr brúnni, "komdu hérna upp", það var aftur skipstjórinn. Þegar upp kom hitti ég einhvern allt annan mann en var á skrifstofu Bæjarútgerðarinnar, andlitið var öðruvísi og þessi var í ógurlegri múnderingu. Á fótunum hafði hann gamla spariskó sem voru hælkappalausir, buxurnar voru gatslitnar gallabuxur, allar trosnaðar, peysan var mórauð greinilega komin til ára sinna, svo var hann í brúnni úlpu sem var orðinn vatnsþétt af skít, ekki voru eftir neinar tölur á úlpunni, henni var haldið saman með kjötpoka sem bundinn var um mittið. Annan kjötpoka hafði hann um hálsinn, á höfðinu var sixpensari sem gæti hafa verið keyptur í sömu kaupstaðarferð og úlpan. Talaðu við loftskeytamanninn, sagði skipsjórinn og benti á dyr aftur úr brúnni. Þar fyrir aftan var kortaklefi og aftast loftskeytaklefi, þar var loftskeytamaðurinn Guðmundur Pétursson og annar maður, nýi stýrimaðurinn Gunnar Jónsson. Var hann eitthvað að þrefa við Gvend, sagðist vera heimilislaus en gisti á Hótel Blikk þegar hann væri í landi, fór svo út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sæll Gestur.
Velkominn úr berjatínslunni, 2.kg. það er nú bara ágætt miðað við rigningarveður,
það er nú ekki mjög áhugavert að týna ber í
votlendi og fá sniglana skríðandi á sér oj. oj.
Ef þú sultar, þá færð þú einar 6-7 krukkur.

Þvílík lýsing á einum manni, en þeir voru nú margir sérvitringarnir hér áður og fyrr.
Ekki hefur þú nú verið vanur því
að vera kallaður mannhelvíti.
           kveðjur.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 27.8.2007 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband