23.8.2007 | 07:04
Grænland 1960 II
klukkan tvö", svo hvarf maðurinn. Ég fór heim að sækja peninga fyrir sjógalla og segja þessi tíðindi.
Þegar heim kom aftur með gallann, hafði pabbi hitt Jón frænda á Hörpugötu 7. Jón sagði að skipið væri Þormóður Goði, flaggskip Bæjarútgerðarinnar og skipstjórinn væri Hans Sigurjónsson, einhver mesta aflakló á Íslandi. Botnaði hann ekkert í hvernig Gestur gjörsamlega óvanur hefði komist í slíkt skipspláss, en sagði að þetta yrði mikil vinna og miklir peningar hjá svona úrvalsskipstjóra. Við pabbi fórum svo með Steindórsbíl, niður að höfn daginn eftir, það var einhver orðrómur um seinkun svo pabbi fór áður en skipið lagði frá, einhver sagði mér að finna koju frammí og fékk ég efri koju í fjögurra manna dekklúkar. Áhöfnin var að týnast um borð, þetta voru mestanpart hinir stæðilegustu menn og greinilega þaulvanir sjómenn. Skyndilega kemur maður og segir mér að hann hafi verið þarna fyrsti stýrimaður, sé hættur og það sé verið að leita að stýrimanni, brottför sé frestað til kl. tíu um kvöldið, svo það var ekki annað að gera en fara heim aftur. Klukkan tíu var svo farið út, ég ætlaði að gera eitthvað en það gekk frekar illa því ég skildi ekki almennilega það sem karlarnir sögðu, töluðu hratt og notuðu orð sem ég vissi ekki að væru til, um verk sem ég vissi heldur ekki að væru til. Það fór svo, að ég fór að hjálpa einhverjum manni að skrúfa á lúgurnar, þar var ég píparinn á heimavelli. Kl. 00.30 voru vaktaskipti og fengu menn sér næturmat áður en farið var í koju. Kl. 06.00 var ræs og þá var morgunmatur; hafragrautur, skyr, brauð og kaffi. Morgunvaktin leysti svo næturvaktina af kl. 06.30, yfirmaður vaktarinnar var Eymar Karlsson bátsmaður, úr Bolungarvík, jafnflinkasti sjómaður sem ég hefi kynnst, aðrir voru flinkari á köflum en hrundu svo þegar á reyndi.
Athugasemdir
Sæll Gestur. Þarna ert þú kominn á sjóinn,
ef ég hef lesið þig rétt af þínum skrifum þá hefur þú
verið fljótur að læra sjóara málið og vinnubrögðin
um borð.
Kveðjur.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 23.8.2007 kl. 11:04
Sæl Guðrún.
Þakka þér fyrir. Dropinn holar steininn . Það þarf ekki endilega að sprengja kýlið , ef stungið er á það getur það þornað upp með tímanum. Sjómennskan var harður en góður skóli. Ég var fljótur að læra allt sem við kom þessu nýja starfi og hefir sá lærdómur oft komið sér vel. Nú er komið kvótakerfi og hefir þessi menntabraut eiginlega lokast með því.
Kv.
Gestur
Gestur Gunnarsson , 24.8.2007 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.