21.8.2007 | 07:21
Reykjavík 1957 XXI
Svo var komið að Iðnskólanum aftur, nú í annan bekk, nýjir kennarar nýtt námsefni. Nú var það rúmteikning, jöfnur og eðlisfræði m.a. Georg Sigurðsson kenndi Íslenskuna jafn lítillátur og Sigurður S. var montinn. Nú vorum við látnir læra Dönsku og sá séra Leó Júlíusson um það. Annar prestur séra Jón Pétursson. Georg sagði að dönskukennararnir væru séra Jón og séra Ljón.
Séra Jón þéraði alla og sagði einu sinni: Heyri þér mig, þér sem, sitjið fyrir aftan yður, vilduð þér ekki lesa núna. Sigurður Richardsson kenndi okkur eðlisfræði og gerði það skemmtilega, sýndi okkur hvernig var hægt að breyta vatni í vetni og súrefni og kallaði það kvelloft. Kvelloftið hafði Sigurður í tilraunaglasi og kom heilmikill kvellur þegar kveikt var í loftinu. Innan á glasið kom móða, sem var vatnið sem hafði verið klofið sundur. Sigurður skýrði vandlega út fyrir okkur hvernig málmar tærðust og ekki mætti setja saman málma með ólíka eiginspennu. Reikninginn kenndi okkur ungur maður sem var að læra verkfræði. Reikningstímarnir voru seinastir á daginn.
Það höfðu verið fréttir af blóðskorti í Blóðbankanum. Einn strákurinn stingur nú upp á því við reikningskennarann að við förum og gefum blóð. Það leist kennaranum vel á og löbbum við því allir út í Blóðbanka. Þar urðu allir voða glaðir að fá svona stóran hóp. Yfirhjúkrunarkonan spyr hvort það sé enginn kennari? Jú það er víst ég segir þá verkfræðineminn sem var álíka gamall og við. Þetta fannst fólkinu í Blóðbankanum voða fyndið og fór að hlæja. Svo hlógum við líka og þetta varð heljarmikill hláturkór. Þegar til kom reyndust sumir vera of ungir til að gefa blóð en einn sem heitir Jóhannes Borgfjörð, kallaður BOGGI var svo stór og feitur að það þótti óhætt að tappa svolitlu af honum. Þegar við gengum niður Þórsgötuna sagði BOGGI: Maður er nú bara allur léttari eftir þetta. Svo kláraðist skólinn. Í desember kom mikið frost og þá fengum við feðgar mikla vinnu við olíukyndingaviðgerðir út um allan bæ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.