Reykjavík 1957 XII

 

Húsin í Contractors Camp, voru af s.k. Armco gerð eiginlega grindarlaus og bara smellt saman á samskeytum voru plöturnar með vinkilbeygðum köntum sem virkuðu sem stoðir og sperrur. Sagt var að fimm menn gætu sett upp 150 fermetra hús á tíu tímum.

Íbúðarbraggarnir voru með tólf herbergjum og tveir menn í hverju.

Hreinætisaðstaða var í miðjunni, voru þar fjórar handlaugar, tvær wc skálar, tvær pissiskálar, tvær sturtur og skolvaskur, einnig var þar vatnshitari og olíuofn.

Einn olíuofn var í hvorum enda braggans.  Braggarnir voru 96 þannig að þarna gátu með góðu móti verið liðlega tvö þúsund menn. Ef ofnarnir voru bilaðir tókum við gvendur þá og fórum með á verkstæðið þar sem Óli tók þá í gegn, en við settum annan nýyfirfarinn í stað þess sem við tókum frá. Fyrsti kampurinn sem Bandaríkjamenn byggðu í Keflavík var Camp Nikel, sem látin var heita eftir Julius Nikel sem farist hafði í vinnuslysi skömmu áður en herflokkurinn sem hann var í var sendur til Íslands.  Þarna í Camp Nikel var nú verð að gera olíustöð og voru skurðgröfur að grafa fyrir olíuleiðslum. Ekki voru til neinar teikningar af leiðslum í jörðinni og því bara grafið þangað til að vatn fór að sprautast. Þá var hringt í Berg sem sendi okkur Gvend á staðinn með efni og vekfæri. Við söguðum skemmdurörin frá og snittuðum endana sem stóðu út úr skurðbökkunum, svo settum við múffu á annan endann og ,,union" á hinn. Svo mældum við nákvæmlega lengdina á rörinu og bjuggum til rör sem var 3 mm styttra. Með þessu var hægt að koma ,,unioninum" saman, svo var bara hert, þá drógst það til sem lausast var til í jörðinni. Þetta gerðum við nánast á hverjum degi og vorum komnir niður í ca. hálftíma með hverja aðgerð. Eyjólfur var eitthvað fúll yfir því hvað við vorum fljótir og sagði að Gvendur svindlaði, það væri bannað að teygja svona á rörunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband