8.8.2007 | 09:29
Reykjavík 1957 VIII
Öðru hvoru fékk Kratch sendingar að heiman sem í voru m.a. kaffi og sígarettur, þessu var safnað til síðari nota. Vinnan í Skipholtinu gekk ágætlega, þegar kalt var í veðri kom Sighvatur stundum og kveikti upp í kolakatli sem var þarna í kjallaranum í katlinum brenndi karlinn öllum umbúðaafgöngum sem til féllu. Mikið af efni seldum við í Mjólkurbú Flóamanna sem þá var í byggingu oft var ég við að hlaða bíla frá þeim og man ég eftir einum sem tók fullfermi af gólfflísum sem voru í 30 kg kössum.
Kratch var voða sparsamur, í vinnunni reykti hann sígarettur sem hann vafði sjálfur svo til hátíðabrigða fékk hann sér eina ROY í hádeginu. ROY voru svokallaðar verkamanna sígarettur og kostuðu 7 kr pakkinn, CAMEL og LUCKY STRIKE kostuðu tíkall. Árið 1947 karlinn var kominn með nóg af sígarettum þarna úti í Dresden kvaddi hann vini sína og lagði af stað í ferðalag til Íslands. Þýskaland var alveg lokað og bútað niður í hernámssvæði, þurfti sérsaka passa til að komast milli þeirra. Eftir ævintýralegt ferðalag komst Kratch til Bremerhaven, hann var með bréf frá Íslenskum yfirvöldum þess efnis að hann væri velkominn enda ætti hann hér fjölskyldu. Þarna í Bremerhaven fór hann niður að höfn til að kanna aðstæður. Til að komast inn á hafnarsvæðið þurfti passa sem vörður í hliði skoðaði. Kratch tók eftir því að snemma á morgnana var svo mikil umferð að vörðurinn komst ekki yfir að skoða nema fáa passa, ráðið var þá að slást í hópinn og fljóta með honum inn. Svo fór hann að heilsa verðinum og þá gat hann gengið út og inn á hvaða tíma dags sem var. Haustið 1957 gekk hér influenza sem var kölluð Asíu flensa. Hjá Sighvati fengu allir flensuna nema ég og Sigurbjörg. Alltaf var opið í Skipholti og hringdi Sigurbjörg þangað ef þurfti að reka brýn erindi í bænum. Fór ég þá í Garðastræti á hjólinu og fékk fyrirmæli. Þetta var aðallega að fara í fyrirtæki og sækja greiðslur og leggja inn í banka.
Athugasemdir
Góðan daginn Gestur.
Þeir hafa nú alltaf verið taldir nískir Þjóðverjarnir, en mér skilst að þeir séu
heiðursmenn heim að sækja.
Segja þér eina sanna sögu, er ég bjó á Ísafirði og við sátum nokkur úti við
og vorum að drekka kaffi, ég hafði þann háttinn á að
hafa alltaf nóg af bollum úti því það komu svo margir við að fá sér kaffi.
Það var skemmtiferðaskip í höfninni koma ekki hjón og spyrja er þetta kaffihús?
Nei sagði ég þetta er heimilið mitt, a. ha. en við ætlum að setjast hérna augnablik,
síðan fengu þau sér kaffi og ég heyrði þau ekki segja neitt er þau stóðu upp og fóru.
Ég fékk ekki einu sinni tipps, svindl.Var vön að fá tipps í vinnunni.
Hápunktur dónaskapar og nísku. eigðu góðan dag.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.8.2007 kl. 11:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.