7.8.2007 | 08:33
Reykjavík 1957 VII
Svo fór Stebbi bara út á flugvöll, kom spilvírnum á klumpinn og keyrði hann heim í Steinabragga. Köggullin var svo bræddur niður í frostlagarbrúsa þannig að til urðu 60 kílóa einingar. Sighvatur Einarsson hafði byrjað sinn pípulagnaferil sem aðstoðarmaður hjá Kratch þegar báðir unnu hjá Funk. Í lok fjórða áratugarins byrjuðu þeir svo með eigin rekstur og fengu vinnu við verkamannabústaðina sem var verið að byggja í Einholti.
Nokkrum vikum eftir að Bretar hernámu Ísland vorið 1940 var Kratch handtekinn og fluttur í öryggisgæslu til Bretlands en þar var hann lengst í búðum á eynni Mön. Eitthvað var verið að láta fangana vinna en það var allt einhver vitleysa eftir því sem Kratch sagði. Rauði Krossinn sendi föngunum pakka með mat og sælgæti, pakkarnir voru búnir að vera svo lengi á leiðinni að brjóstsykur sem í þeim var, var orðin að einum köggli. Kratch fór nú að kaupa svona köggla og lagði í en svo vantaði eimingartæki. Fangabúðirnar voru síðan í fyrri heimsstyrjöld og höfðu verið lýstar með gasi. Nú var komið rafmagn en gasrörin voru ennþá uppi, Kratch tók bara niður svolítið af rörum og notaði í bruggtæki.
Bruggið seldi hann svo samföngum sínum og keypti meiri brjóstsykur.
Nokkru fyrir stríðslok var Kratch sendur heim til Þýskalands í skiptum fyrir Breska fanga. Af því hann hafði farið frá Dresden 1917 var hann sendur þangað aftur. Þegar stríðið var búið var Dresden á Rússneska svæðinu. Borgin var í rúst, gas og rafleiðslur allar í sundur. Með leyfi rússanna fór Kratch nú að smíða kolaeldavélar og ofna var það í félagi við mann sem rússarnir höfðu sett í að passa risastóra flugvélaverksmiðju. Í verksmiðjunni var nóg af efni, álprófílar og plötur. Borðið steyptu þeir úr brotajárni. Rússarnir keyptu mikið af ofnum til að hita upp varðskúra. Kratch sýndi mér myndir úr verksmiðjunni þar sem m.a. starfsfólkið stillti sér upp við eina eldavélina, en auk vaktmannsins unnu þarna nokkrar konur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.