3.8.2007 | 08:47
Reykjavík 1957 III
Pabbi útvegaði mér vinnu hjá Sighvati Einarsyni pípulagningameistara, þar átti ég að vera aðstoðarmaður hjá Walther Kratch þýskum lásasmið sem örlögin höfðu gert að pípara á Íslandi. Sighvatur var með aðstöðu í Skipholti 15 þar sem hann var að byggja hús yfir starfsemi sína. Auk Kratch og mín unnu þar Þórður Kristjónsson sem sá um verslunina og Ólafur Haldórsson bílstjóri. Úti í bæ voru svo 8-10 pípulagningamenn ásamt aðstoðarmönnum. Skristofa fyrirtækisins var í Garðastræti 45 en þar var líka verslun sem sá vesturbænum fyrir pípulagnaefni. Starfseminni í Garðastræti stjórnaði dóttir Sighvats, Sigurbjörg og var með henni aðstoðastúlka. Mitt hlutverk í Skipholtinu var að snitta skrúfbúta í RIDGID snittvél sem ég kunni ágætlega á. Efnið í bútana kom úr efnisafgöngum sem komu inn úr verkum úti í bæ. Við Kratch vorum með nesti sem við borðuðum inni á verkstæðinu. Karlinn sagði mér svona eitt og annað af sínum ferli. Walther var fæddur í Dresden um aldamótin og byrjaði fjórtán ára að læra lásasmíði, eftir að hafa verið hjá þremur meisturum sem allir voru sendir í fyrra stríðið til að deyja, var Walther sendur þangað líka árið 1917. Vegna sjóndepru varð hann vélbyssumaður, en á hverri byssu voru þrír menn, ein skytta og tveir sáu um skotfærin. Byssunum var raðað upp við víglínuna og skutu móti andstæðingnum í 45 gráðu geira, byssur sem voru hlið við hlið skutu inn í hvers annars geira svo skytturnar vissu aldrei almennilega hvern þeir voru að drepa. Þegar andstæðingurinn gerði áhlaup byrjaði það á bylgju af svörtum mönnum, sem allir voru drepnir, svo komu brúnir menn, þeir voru líka drepnir, þarnæst gulir líka drepnir. Seinasta bylgjan voru hvítir menn en þá voru vélbyssurnar farnar að hökta vegna hita og skorts á smurningu. Þá gat andstæðingurinn komist í gegn og gengið frá vélbyssumönnunum með handsprengjum. Barist var á vöktum og sofið jarðhúsum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.