26.7.2007 | 08:15
STÖÐ 2 XIV
Nú var komið að sumarfríi Siggi fór viku á undan mér. Til að auka tekjurnar var farið í markaðsátak sem átti að heita Stöðin á Staðnum. Jón Árna hannaði leikmynd sem hægt var að rúlla inn í ,, DAFinn" , svo keyrði Kiddi rót hringveginn og Jón Óttar á eftir í þyrlu eða bíl allt eftir því hvort var flóð eða fjara í tékkheftinu. Þegar rótarinn og Jón voru horfnir fyrir Lynghálshornið settist ég við teikniborðið og fór að hanna nýjan upptökusal í austurendan á Lynghálsinum. Við Marinó vorum búnir að vera með þetta verkefni í hugrænni hönnun í nokkra mánuði og nú var að setja þetta niður á blað. Á þakinu var stór gluggi undir honum var komið fyrir loftræsiklefa sem gerður var úr trégrind sem í var sett tvöfalt lag af pressaðri steinull, milli lagana var bil sem loftið frá blásaranum fór gegnum á leið sinni inn í upptökusalinn. Gluggunum á salnum var svo lokað með steinullarplötum sem stilltu bergmálið. Seinasta verk föstudagsins fyrir fríið var að afhenda Jóni Sig. teikningarnar en hann ætlaði að útvega verktaka í verkið. Að sumarfríinu loknu var þetta að mestu búið og virkaði vel. Hugmynd hafði kviknað að verki sem átti að heita ,, Borð fyrir tvo" og átti að gerast á veitingahúsi sem einhverjir bræður höfðu fengið í arf. Björn G Björnsson fór nú að hanna leikmynd fyrir verkið, var það fullkomnasta leikmynd sem við höfðum gert. Fremst var gatan framan við veitingahúsið, svo salurinn, þá eldhús og aftast húsagarðurinn með ruslatunnum og tilheyrandi. Í eldhúsið og salinn vantaði einn og hálfan vegg, þeir kölluðu þetta ,, Hitchcock" leikmynd því hægt var að keyra allt í einu rennsli. Veggirnir í salnum voru með viðaráferð og komu málarar úr Þjóðleikhúsinu til að græja það. Laddi lék annan veitingamanninn og Eggert Þorleifsson hinn. Þrátt fyrir vandaðan undirbúning var ekker varið í þetta og bara teknir upp tveir þættir.
Athugasemdir
Sæll Gestur.
Það er nú alveg sama hversu margir peningapúkar yfirtaka hvað, það er aldrei hægt að taka af okkur
allt það skemmtilega sem við höfum upplifað og skapað okkur sjálf allt okkar líf.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.7.2007 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.