STÖÐ 2 VIII

 

 

Nú var ákveðið að halda samstarfi við hótelið áfram og vorum við með fastan þátt á föstudagskvöldum. Einn þeirra var á 17. júní  og varð svolítið mál út af honum. Viðar Eggertsson var í  hlutverki Fjallkonunnar sem hafði lent í ástandinu og var nú komin heim og talaði Íslensku með Amerískum hreim.

Einhverjir auglýsendur urðu vondir og hættu að auglýsa og nokkrir sögðu upp áskriftum, þetta jafnaði sig svo. Það sem olli þessum viðbrögðum var að atriðið var svo vel unnið, ef það hefði verið lélegt hefði engin tekið eftir því.

Enn daginn kom Anna R og sagði mér frá því að nú yrði Bryndís Schram fimmtug eftir tvo daga og spurði hvot ég gæti ekki búið til lítið lukkuhjól handa henni í afmælisgjöf.  Þegar til kom var nú frekar naumur tími í þetta, aðallega vegna þess hvað voru margir litir og allt þurfti tíma til að þorna. Í einhverju drasli úr Heilsubælinu fann ég hitalampa sem var fínn til að flýta þurrkinum á málningunni. Afmælið var svo haldið með glæsibrag, einhver eftirmál urðu út af áfengi sem þau hjón keyptu gegnum veisluþjónustu Ríkisins í Borgartúni og var það að veltast fyrir dómstólum í fimmtán ár. Um sumarið fóru starfsmenn stöðvarinnar inn í Þórsmörk eina helgi og voru í tjöldum í Básum. Þegar við vorum að tjalda kom stór sendibíll með eitt vörubretti af áfengu öli sem var bannvara á þessum árum, bílstjórinn skildi bjórinn bara eftir þarna á jörðinni. Þegar enginn kom að vitja ölsins byrjuðum við bara að drekka það. Birgðirnar dugðu öllum sem í Þórsmörk voru alla helgina. Seinna fréttum við að heildsali nokkur sem átti bjórverksmiðju og var að kaupa hlutabréf í stöðinni hefði sent bjórbílinn. Ekki verra að hafa starfsmennina ánægða.  Jón Árnason skákmaður var að gera það gott í Ameríku, varð stórmeistari minnir mig. Einhver fékk þá hugmynd að skák væri upplögð sjónvarpsíþrótt og í framhaldi af því ákveðið að halda heimsbikarmót í skák hér á Íslandi. Ég var settur í að finna húsnæði sem hentaði, strangar reglur voru um bil milli keppnisborða og svo þurfti að vera aðstaða fyrir skýringar, gesti og keppendur. Illa gekk að finna húsnæði, á endanum fóru yfirmenn stöðvarinnar til Borgarverkfræðings og spurðu hvort mögulegt væri að halda mótið í Borgarleikhúsinu. Þórður sagði það vera í lagi ef ég sæi um framkvæmdirnar. Anna R. hannaði leikmynd þar sem keppnissviðið var í anddyrinu, skákskýringar á litla sviðinu og aðstaða fyrir keppendur í sal sem við smíðuðum í tengslum við miðasöluna. Þegar Anna hafði lokið hönnuninni gerði ég vinnuteikningar af öllu saman og efnislista svo fengum við tilboð í verkið frá Sveinbirni Sigurðssyni sem var byggingameistari leikhússins.

Innréttingarnar voru allar úr svokölluðu mátkerfi sem við keyptum í Húsasmiðjunni. Hverri plötu var bara fest með fjórum heftum og  svo var innréttað með þeim í Lynghálsi. Leigð voru skákborð og menn frá Belgíu í hverjum manni var örlítill sendir sem sendi merki ofaní borðið og þá sást stórum skjá fyrir ofan borðið hvernig leikið var, svo voru líka skjáir á öðrum stöðum í húsinu þar sem gestir gátu fylgst með. Frá Belgíu komu tveir menn til að setja búnaðinn upp. Mennirnir töluðu bara frönsku svo ekki skildist alltaf vel sem þeir sögðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Gott að þú ert kominn af stað aftur minn kæri.

Ég hef verið að segja gömlum félögum frá þessu framtaki þínu og þeir sem hafa kíkt á eru mjög kátir með þetta.  Það er nauðsynlegt að sögurnar úr grasrótinni gleymist ekki. Þó að ég sé búinn að gleyma mörgu man ég vel eftir lukkuhjólinu hennar Bryndísar. Það var helv. flott hjá þér. Mig minnir að Bryndís hafi verið ansi hissa á þessari gjöf og við vorum alls ekki vissir hvað henni fannst um hana. En þetta var skemmtilegt partý! 

Bestu kveðjur í bili.... Eyþór. 

Eyþór Árnason, 20.7.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband