STÖÐ 2 VII

xxx 

Næsta Bingó viku seinna gekk ágætlega, þá var einhver sjoppueigandi sem fékk nýjan VOLVO. Í þriðja Bingóinu var líka sjoppueigandi með vinning og líka í því fjórða. Við athugun kom í ljós að það var tölvukerfi sem dró tölurnar og spjöldin voru í búntum 10 með sama númeri. Tölvan gaf svo upp vinningsnúmerið og þá voru níu spjöld tekin úr búntinu. Þetta sá einhver og vitneskjan dreifði sér í undirheimunum með þeim afleiðingum að fjáröflunarátak SÁÁ var jarðað í kyrrþey. Hótel Ísland hafði opnað um áramótin og vantaði fleiri gesti. Til að auglýsa hótelið var ákveðið að halda þar Fegurðarsamkeppni Íslands þar og vera með beina útsendingu. Tíu dögum fyrir keppnina ætluðum við að byrja að smíða en þá kom í ljós að hönnuðurinn hafði gefist upp á verkefninu. Anna R. var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Cleveland. Hringt var í hana til Ameríku, sagðist hún vera með flensu sem væri að batna og sagðist koma með næstu flugvél.

Daginn eftir að Anna kom var komin frumteikning, þetta voru langar tröppur niður af sviðinu og göngupallur fram á dansgólfið. Eitthvað var ekki á hreinu varðandi útfærslu á tröppunum. Þá sagði Siggi ,,Byggingasamþykktin segir að tvö uppstig og eitt framstig eigi að vera 60 sentimetrar". Þetta var prófað, uppstigið  tíu og framstigið fjörtíu.  Þetta skotvirkaði, Einar Júlíusson gekk syngjandi, niður tröppurnar og svo afturábak upp aftur, horfði alltaf á gestina.

Byggingasamþykktin er nú engin vitleysa. Siggi var búinn að finna aðferð til að smíða svona hluti, 16 mm spónaplötur voru sagaðar niður í hæfilegar stærðir og svo skrúfaðar saman með batteríborvélum.  Pabbi Sigga, Grétar Sívertsen sem hafði verið umsvifamikill byggingaverktaki, kom og hjálpaði okkur á verkstæðinu, sem við það breyttist í hálfgerða verksmiðju.  Grétar sagaði niður plöturnar og við Siggi skrúfuðum saman, Eyþór og Björn léku svo málara enda báðir útskrifaðir úr leiklistaskóla. Uppsetningin á Hótel Ísland tók hátt í sólarhring sem var þó með einhverju hléi vegna æfinga. Göngupallurinn var klæddur með ógurlega þykku gólfteppi og vorum við Björn í miklum vandræðum með að koma seinustu bútunum á, ruglaðir af svefnleysi og límgufum. Um morguninn sváfum við nokkra klukkutíma og mættum eftir hádegi í lokafrágang og æfingar. Hótelið var með sinn leiksviðsstjóra sem vildi stjórna. Björn fann ráð við því, lét sviðsstjórann hafa labb-rabb tæki með ónýtum batteríum og hann stjórnaði gegnum það en við héldum okkar striki.

Á æfingunum kom í ljós að bolirnir vildu gangast inn í rassskoruna á stúlkunum þegar þær gengu fram pallinn og urðu hálf hallærislegar aftanfrá séð.  Vandinn var leystur með gólfteppalímbandi sem festi bolina við rasskinnarnar á stelpunum rétt áður en þær gengu fram.  Lokaatriðið var krýningin, við höfðum smíðað krýningarpall sem sendur var upp með lyftunni sem er beint fyrir framan sviðið. Pallurinn átti að koma upp í skýi úr þurrísreyk sem læki út á gólfið.

Til að gera þetta vorum við með þrjár reykvélar og  fullt af þurrís sem við settum inn í lyftuna jafnframt því að reykvélarnar gengu á fullu. Lyftan upp, einhver öskraði í kallkerfið ,,hvar er reykurinn".   Þegar allt var búið tókum við pallinn niður og þá fylltist salurinn af reyk. 

  VEGNA SUMARLEYFIS FORSTJÓRANS VERÐUR RITVERKAMIÐSTÖÐIN LOKUÐ Í NOKKRA DAGA.

KV.   GESTUR

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta með teppalímbandið er algjör kómidía.
það hefur nú ekki farið vel saman límgufa og svefnleysi og hvernig datt ykkur í hug að láta sviðsstjórann hafa ónýtt labb-rapp tæki. Hefur ykkur aldrei dottið í hug að semja leikþætti ég held að þú ættir að íhuga það.
Fína fólkið það er hægt að hártoga það í allar áttir. Ein góð móðurlangalangafi minn fór sem ungur maður til náms í Danaveldi  hann bjó
ved Holmen  eins og það var kallað.
Þegar hann kom heim aftur þá tók hann upp eftirnafnið Wedholm fyrst var það reyndar ritað Vedhólm. Það voru allir með ættarnöfn þarna fyrir vestan hann hefur þurft að vera eins.
        góða ferð í fríið.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.7.2007 kl. 14:50

2 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Sæl Guðrún.

 Sviðsstjórinn var frá hótelinu, við kunnum þetta allt , þegar hann var kominn með tækið hélt hann sig vera að stjórna.

 Kv.

Gestur

Gestur Gunnarsson , 4.7.2007 kl. 16:00

3 Smámynd: Egill Aðalsteinsson

ekki hætta að skrifa Gestur. Það er frábært að einhver skuli vera að rifja upp upphaf Stöðvar 2.

kv. Egill

Egill Aðalsteinsson, 6.7.2007 kl. 21:47

4 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Sæll Egill.

 Sjoppan er lokuð vegna sumarleyfa .

Það verður haldið áfram að þeim loknum.

Kv.

Gestur

Gestur Gunnarsson , 6.7.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband