STÖÐ 2 V

 

Einu sinni voru hestamenn og lenti á mér að koma hestinum hans inn í upptökuna. Ekki ætlaði það nú að ganga, Eyþór kunni ráð við því hann setti bara hey á gólfið og í vasana hjá mér, þá fékkst Jarpur til að ganga í salinn. Laddi sýndi svo gestunum þennann kostagrip.

Einu sinni voru laxveiðimenn, þá var náð í stærsta uppstoppaða lax sem til var í landinu. Þegar við vorum að taka saman fannst einhverjum að það þyrfti að fara með laxinn fram í geymslu. Nokkrum sekúndum seinna hrundi Alli ljósamaður niður úr loftinu og trappan beint yfir borðið þar sem laxinn hafði legið.

Einu sinni var ég rétt fyrir hálf átta að útbúa  Shakesphere leikmynd fyrir Skúla rafvirkja, þá kemur Erna Kettler hlaupandi og spyr hvort einhver þarna kunni Sænsku. Málið var að Sænski kóngurinn var í heimsókn, ung fréttakona hafði talað við hann í Vestmannaeyjum og enginn skildi hverju maðurinn hafði svarað, ég gerðist sjálfboðaliði, fann út úr þessu en þá var enginn tími eftir til að samhæfa texta og mynd svo ég þurfti bara að ýta á einhvern takka á réttum stöðum í viðtalinu. Þetta slapp á seinustu sekúndunum. Þarna í upphafi voru fréttirnar útfærðar þannig að sá sem las gat stjórnað textanum sem hann var að lesa með pedala sem var undir fréttaborðinu. Ef vantaði myndefni með fréttum voru þarna tveir snillingar, Ómar Stefánsson og Steingrímur Eyfjörð sem teiknuðu bara myndasögu.  Þáttagerðin í ársbyrjun 1987 gekk bara vel eftirá séð,  um sumarið vorum við í einhverjum frakvæmdum komum okkur upp verkstæði í Krókhálsi 4, þangað sem markaðsdeildin flutti líka, fréttastofan flutti í ruslageymsluna hjá PLASTOS,  Svo  fórum við bara í sumarfrí. Þegar við komum aftur í byrjun ágúst stóð mikið til, Sviðsmyndir h.f. voru búnar að smíða mikinn fjölda af veggeiningum í stöðluðum breiddum sem var hægt að raða upp í leikmyndir af ýmsu tagi. Við Eyþór fórum að mála einingarnar og Björn G Björnsson kom með teikningar af einhverju sem kallað var "Heilsubæli". Grunnur Heilsubælisins var  segldúkur sem við strengdum á gólfið með öflugu límbandi, á dúkinn máluðum við Eyþór svo gólfflísamynstur, svo var veggeiningunum raðað upp. Fyrsta leikmyndin var sjúkrastofa og voru öll atriðin sem gerðust þar tekin upp á nokkrum dögum. Næst var læknastofa, við byrjuðum að breyta strax eftir fréttir,  á veggin hengdum við prófskírteini Saxa læknis sem búið var til úr ljósriti af skírteini förðunardömunar frá förðunarskóla í París. (Við límdum bara Sorbonne yfir Ecole de Smink).

Svo voru hengdar upp tvær myndir af fjölskyldu Kristjáns níunda. Til að gera veggina lúna var vökvi sem Brandur bruggaði úr svörtu kaffi með sykri og brúnni málningu, þessu var úðað á veggina, síðan strokið yfir með tusku á strategískum stöðum. Leikararnir æfðu sig í gerfileikmynd meðan við vorum að smíða og svo var generalprufan milli 1 og 2 á næturnar. Sumir leikaranna sváfu bara í sjúkrarúmunum. Eina nóttina var Brandur að hengja upp skilti á skrifstofuganginum, Jón Óttar var að selja Frönskum milljónerum hlutabréf í stöðinni og þeir voru væntanlegir í heimsókn daginn eftir. Þegar Brandur lokaði hurðinni vaknaði Gísli Rúnar Leikstjóri og fór fram í eldhús. Þegar hann gekk eftir ganginum sá hann skilti "Monsieur Dr. Jón Óttar Ragnarsson Président general", næsta "Monsieur Ragnar Guðmundsson Président Studio Islande".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Gestur færðu ekki kikk út úr því að rifja þetta upp, mér finnast svona upprifjanir alveg frábærar, sér í lagi er ég er að segja snúllunum mínum frá því hvað það var gaman þegar ég var yngri, E.HE Ég sýndi þeim um daginn
letta. 55. módel alveg eins og ég átti þegar ég var 19. ára. Þá tók ég nú fyrst bílpróf. Þær tjáðu sig nú um að þetta væri frekar ömurlegur bíll, en ég væri alveg til í að eiga svona bíl í dag.
Þetta með vinnuna þegar við vorum yngri, ég var aldrei í sveit, en ég fór með mömmu og pabba oft á sumri hverju
austur í Grímsnes og undi mér vel, en ég vann í fiski eitt sumar síðan hjá Loftleiðum það var mjög gaman en það voru 12-14. tíma törn. Í Belgjagerðinni vann ég í tvígang það var nú versti vinnustaðurinn því  ég átti að vera fyrirmynd fólksins hvað iðni var. Svo ég gat aldrei slegið slöku við eins og hinar gerðu, enda var maður ekki alin upp í því.           Bless að sinni.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 2.7.2007 kl. 11:09

2 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Sæl Guðrún.

 Það rifjast ýmislegt upp. Þetta voru skrýtnir tímar. Þetta með fína fólkið, 1904 fengum við heimastjórn þá var búið til kerfi til að stjórna hér. Það sem mér finnst fyndnast við það var að í einhvern tíma var leyfilegt að skrá ættarnöfn og svo þegar ráðamennirnir voru búnir að skrá sín var bara lögunum breytt og allt svona bannað. Til að hægt sé að gefa út peningaseðla verður að vera hægt að kaupa eitthvað fyrir þá. Einhverjir verða að búa til hlutina,  eru þeir fína fólkið?

Kv.

Gestur

Gestur Gunnarsson , 3.7.2007 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband