STÖÐ 2 IV

Svo voru  kosningar í apríl og þeim tilheyrði kosningasjónvarp með miklu umstangi Guðný B. Richards hannaði leikmynd sem náði út í hvern krók og kima, salnum var hægt að skipta í tvennt með hljóðheldri rennihurð og var hún nú látin vera opin. Nóttina fyrir kosningadaginn unnum við alla, til aðstoðar höfðum við fengið einhverja stráka sem voru marga klukkutíma að útbúa krana til að hífa upp heljarmikinn sjónvarpsskjá. Klukkan þrjú var allt tilbúið og þeir skruppu í kaffi, Finnbogi Lárusson rafeindavirki átti leið þarna um og Siggi segir við hann: Getur þú ekki lyft skjánum hérna upp í loftið, meðan við festum krókana. Ekkert mál svarar Finnbogi, krókarnir á og Finnbogi út, verkið hefir í mesta lagi tekið eina mínútu. Strákarnir urðu skrýtnir á svipinn þegar þeir komu úr kaffinu.

Fréttirnar voru í austari endanum sem var minni en hinn og þar var leikmynd sem Sviðsmyndir höfðu smíðað, hún var öll á hjólum og gerð úr einingum sem krækt var saman.  Fréttabúnaðinn fluttum við í geymslu þarna í nágrenninu.

Að kosningunum loknum ætluðum við að sækja fréttaborðið en það rúllaði af stað í bílnum og brotnaði svo við spurðum Valgerði hvort þessi kosningaleikmynd mætti ekki vera áfram, jú hún sagði að það væri ágætt að breyta svo sendibíllinn var sendur beint á haugana. Þetta var hið besta mál því við vorum ekki í neinu standi til að stilla upp eftir allt kosningavesenið.

Einn daginn birtist nýr maður, Eyþór Árnason leikari sem ætlað var að vera sviðsstjóri þ.e. sjá um salinn og senda fólk inn á réttum tíma og annað í þeim dúr. Eyþór er svolítið merkilegur sem lýsir sér í því að hann er alltaf í sama góða skapinu, svo kunni hann ýmis trix sem hann útfærði með firnasterku límbandi sem hann gekk alltaf með á sér. Þarna um vorið varí gangi s.k. kaffibaunamál,

svo einn daginn sé ég Helga Pé, blaðafulltrúa Sambandsins kominn í vinnu þarna á stöðinni, þeirri hugsun laust niður í hugann hvort Sambandið hefði nú bara keypt sjoppuna til að losna við leiðinlegt umtal. Þegar að var gáð, kom í ljós að Helgi var hættur í baununum og kominn til okkar. Honum var ætlað að sjá um spurningaþátt sem hét Meistari. Páll Baldvin Baldvinsson var farinn að vinna við dagskrárgerðina, hann hafði átt leikhús sem lítið var eftir af annað en risastór svört tuska úr flaueli sem hægt var að breyta í fína leikmynd hvar sem var. Þetta kom sér vel því að Meistarinn var tekinn upp úti í bæ í virðulegu umhverfi s.s. í Þjóðminjasafninu og víðar. Ég varð hálfgert fylgifé þessa þáttar, vann við leikmyndina, var tímavörður og bjó til spurningar ef þær vantaði.

Með okkur í þessu var stúlka úr Skagafirði sem var mjög drjúg og hafði komið með hugmyndina að Happ í hendi og komið því öllu saman.

Í maí byrjuðum við á þætti sem hét "Allt í ganni", mjög góð uppskrift með tveim snillingum Júlíusi Brjánssyni og Þórhalli Sigurðssyni. Júlíus sat inni í stofu sem var bara tveir veggir með myndum og einhverjum munum sem tengdust efninu sem fjallað var um, en það ræddi Júlli við tvo gesti þáttarins. Þórhallur var í gerfi Skúla rafvirkja sem nú var orðinn ljósameistari þarna í studioinu og  hafði alltaf sömu áhugamál og gestirnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband