STÖÐ 2 III

 

Stöðin var til húsa á efstu hæð í Krókhálsi 6 en húsið var þá í eigu PLASTOS.

Valgerður Matthíasdóttir arkitekt hafði skipulagt hæðina og var Myndverið í norðurhlutanum eftir endilöngu  og Íslenska Sjónvarpsfélagið að sunnanverðu.

Þarna voru tveir gangar eftir endilöngu húsinu. Annar var gegnum myndvershlutann og hinn gegnum dagskrá, áskrift, auglýsingar og fréttastofu.

Tveir milligangar voru þarna og endaði annar þeirra í lítilli kaffistofu, en þarna á kaffistofunni sat Marinó kl. 15.30 þann níunda október þegar John Wallis (erlendur sérfræðingur) kom til hans og sagði honum að fyrsta útsending yrði þá um kvöldið. Á þessu var bara einn galli Marinó var bara búinn að tengja hljóðsnúrurnar í annann endann, svo í hamagangnum við að gera allt klárt fór ótengd snúra í hljóðnema Sjónvarpsstjórans og þetta varð fyrsta sjónvarpsstöðin í heiminum sem byrjaði með mynd en ekkert hljóð. Þarna upp í loftið fór ég svo að hengja mismunandi löng  púströr og öðru hvoru á milli þeirra steinullarplötur til að stytta ómtímann.  Svona plötur fóru einnig á veggina, steinullarmagnið hafði hafði ég reiknað út eftir leiðbeiningum í Teknisk Ståbi. Þegar helmingurinn var kominn á veggina átti Jónas R Jónsson, dagskrárstjóri leið þarna í gegn, klappaði saman höndunum og sagði: Það er komin nóg ull.

Þar með var komið fínt studio.  Áður en þetta var búið komu einhverjir listamenn með fallhlíf og eitthvert dót og byrjuðu að búa til leikmynd þarna inni.

Jón Óttar hafði hitt Kristján Jóhannson óperusöngvara í kokteilboði og hafði boðið honum að vígja upptökusalinn. Listamennirnir voru óvanir svona vinnu og máluðu sig út í horn, svo þegar þeir fóru í kaffi gengu þeir yfir gólfið og gangurinn var ekkert nema grá málningarspor. Hannes sem var þarna yfir sá að listamenn gátu verið hættulegir, bað okkur Sigurð Sívertsen  smið, að setja upp eldhúsinnréttingu fyrir Ara Garðar sem átti að kenna Íslendingum að búa til mat. Á meðan Ari var að matreiða fórum við Siggi að útbúa fréttastofu í vesturenda hússins. Á endanum kláraðist svo upptökusalurinn og var  fyrsta alvöru upptakan 28 febrúar 1987 þar sem mættu til leiks Sverrir Stormsker og einhver unglingahljómsveit. Klukkan tvö um nóttina var Sverrir loksins orðinn ánægður með hljóðið svo unglingahljómsveitin komst ekki að fyrr en kl. fimm um morgunin. Næst var Happ í hendi, samkvæmt Bandarískri uppskrift Guðný B. Richards hannaði leikmyndina og hafði til ráðuneytis Ivan Török, Ungverskan undramann sem var svo smámunasamur að við unnum alla seinustu nóttina og til hádegis daginn sem átti að taka upp fyrsta þáttinn.

Þegar við Siggi og Brandur  mættum í upptökuna kl. sex um kvöldið var Török ennþá að hengja upp tuskur. Þá voru líka mættar Bryndís Schram og Þóra Gunnarsdóttir sem áttu að sjá um spilið. Bryndís var að verða utanríkisráðherrafrú  þegar þetta var og nú sýnist mér Þóru bíði svipuð örlög.

Ekki vað ég var við neinar æfingar hjá þeim stöllum, engin vandræði, gekk allt eins og góð gufuvél í nýsköpunartogara. Svo fengum við ljósamann, Alfreð Böðvarsson, sálfræðing sem hafði unnið í Amerísku háskólaleikhúsi, Alli var líka svolítið skrýtinn, var alltaf á hlaupum og virtist aldrei þreyttur, stundum gleymdi hann að festa ljósin og datt með þeim niður á gólf, þó að perur og gler brotnuðu spratt ljósameistarinn upp alheill og þaut aftur upp stigann með nýtt ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Það hlýtur að hafa verið frábært að vinna við uppbyggingu stöðvar 2. Alla vega finnast mér þessar frásagnir skemmtilegar takk fyrir það.
Gestur þetta með  fínar ættir, Æ þú ert nú svolítið að hæðast að þessu.
Að mínu mati kemur það ekkert fínum ættum við hvort manni er kenndur munurinn á röngu og réttu og ég held að þú sért alveg sammála mér í því.
Fínar ættir hvað var það eiginlega? Voru það þessir með ættarnöfnin, ráðamenn þjóðarinnar, Stórbændur,  útgerðarmenn, verslunareigendur, eða bara fólkið sem vann hörðum höndum til að hafa ofan í sig og á.
Gaman væri að vita hvaða skoðun þú hefðir á því. Fínasta fólkið í mínum augum var það sem var heiðarlegt og gott við aðra.    Bless að sinni.      

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.6.2007 kl. 13:12

2 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Sæl Guðrún.

 Þetta var skemmtilegt en mikil vinna. Þegar ég var þrettán ára vann ég ca 1500 klukkutíma yfir sumarið í sveitinni. Það er álíka og nútímafólk skilar á heilu ári. Á þessu lærði maður e.t.v. mikið meira en nútíma unglingar sem hanga inni í skóla árum saman.

Bless í bili

Gestur

Gestur Gunnarsson , 2.7.2007 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband