24.6.2007 | 13:33
HEILSUBÆLIÐ
Nú í haust á Heilsubælið tuttugu ára afmæli. Þetta meistaraverk sem Gísli Rúnar og félagar settu upp á gömlum ennisholulager að Korpúlfsstöðum en var búið til uppi á háalofti í plastverksmiðju í Krókhálsi 6. Fyrir dularfulla duttlunga örlaganna lenti ég í því að smíða leikmynd fyrir Heilsubælið, sem er eitt merkilegasta framlag Íslendinga til leiklistar á tuttugustu öld.
Grunnur Heilsubælisins var segldúkur sem við strengdum á gólfið með öflugu límbandi, á dúkinn máluðum við Eyþór svo gólfflísamynstur, svo var veggeiningunum raðað upp. Fyrsta leikmyndin var sjúkrastofa og voru öll atriðin sem gerðust þar tekin upp á nokkrum dögum. Næst var læknastofa, við byrjuðum að breyta strax eftir fréttir, á veggin hengdum við prófskírteini Saxa læknis sem búið var til úr ljósriti af skírteini förðunardömunar frá förðunarskóla í París. (Við límdum bara Sorbonne yfir Ecole de Smink).
Svo voru hengdar upp tvær myndir af fjölskyldu Kristjáns níunda. Til að gera veggina lúna var vökvi sem Brandur bruggaði úr svörtu kaffi með sykri og brúnni málningu, þessu var úðað á veggina, síðan strokið yfir með tusku á strategískum stöðum. Leikararnir æfðu sig í gerfileikmynd meðan við vorum að smíða og svo var generalprufan milli 1 og 2 á næturnar. Sumir leikaranna sváfu bara í sjúkrarúmunum. Eina nóttina var Brandur að hengja upp skilti á skrifstofuganginum, Jón Óttar var að selja Frönskum milljónerum hlutabréf í stöðinni og þeir voru væntanlegir í heimsókn daginn eftir. Þegar Brandur lokaði hurðinni vaknaði Gísli Rúnar Leikstjóri og fór fram í eldhús. Þegar hann gekk eftir ganginum sá hann skilti "Monsieur Dr. Jón Óttar Ragnarsson Président general", næsta "Monsieur Ragnar Guðmundsson Président Studio Islande". Við þennan gang voru bara forsetaskrifstofur. Eftir svolitla stund í eldhúsinu varð Gísli ógurlega glaður þegar hann fattaði að hann var hvorki dauður né endanlega búinn að missa vitið.
Oft hefir maður velt fyrir sér hvers vegna þetta var svona vel heppnað. Getur verið að það hafi verið vegna þess að opinberir aðilar komu hvergi nærri þessu?
Athugasemdir
Ja hérna Gestur það skyldi þó aldrei vera ástæðan.
Held líka að snillingarnir sem komu að þessu verki höfðu svo gaman af þessu að það varð bara allt skemmtilegt í kringum þetta, það hefur allt að segja að maður hafi gaman af hlutunum. það mætti nú fara að bjóða okkur upp á nýja þætti að einhverju tæji.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.6.2007 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.