Hann var þá verkstjóri pípulagningamanna við að byggja stórt flugskýli sem kallað var "navy hangar" og stendur gegnt gömlu flugstöðinni.
Pabbi hafði farið að vinna þarna haustið 1952 og hafði fljótlega fengið mannaforráð vegna afburða tungumálakunnáttu og eðlislægra stjórnunarhæfileika. Hann eignaðist svo hlut í Vatnsvirkjadeildinni s.f. sem var hluti af Sameinuðum verktökum. SV stofnuðu síðar Íslenska aðalverktaka á móti Ríkinu og SÍS. Þarna í flugskýlinu var verið að setja upp sjálfvirkt eldslökkvikerfi sem kallað var sprinkler og leggja skolp í grunninn. Mér var ætlað að snitta teina til að hengja upp sprinklerinn. Við vorum í skúrum sem stóðu á flugvélastæði sunnan við flugskýlið. Handan við flugvélastæðið var flugbraut og hinumegin við hana dæld í jörðina þar sem ég seinna vann við að byggja kjarnorkuvopnaverkstæði. Flugskýlið sjálft er 35x75 metrar að stærð með stálgrindarþaki sem haldið er uppi af steinsteypubyggingum á mörgum hæðum sem eru sín hvorum megin og er önnur mun stærri en hin. Þarna varð svo seinna miðstöð kafbátaeftirlits á Norður-Atlantshafi. Sovétmenn voru að smíða kjarorkuknúna kafbáta sem ferðuðust um á tæplega 100 km hraða og gátu verið á 400 m dýpi. Eina ráðið sem tiltækt var voru nógu kraftmiklar djúpsprengjur.
Flugvélasalinn notuðu Bandaríkjamenn svo oft fyrir hátíðarhöld og hélt forseti þeirra Ronald Reagan, ræðu að loknum leiðtogafundi 1986. Pabbi hafði aðstöðu í kolakyntum teikningaskúr með hallandi teikniborði í öðrum endanum. Á miðju gólfi var verkfærakista og bekkir meðfram veggjum. Á bekkjunum sátum við í kaffitímum og höfðum verkfærakistuna fyrir borð. Þarna var Hjálmar Jóhannsson sem sagði svo magnaðar sögur að ég átti erfitt með að koma niður kaffibrauðinu fyrir hlátri. Þarna var líka Skarphéðinn Ágústsson, sem Hjálmar sagði að væri eign Sölunefndarinnar. Skarpi hafði á flótta falið sig í brauðhrærivél í bakaríi þarna á flugvellinum. Á meðan hann var inni í vélinni seldi Helgi Eyjólfsson Bakarameistarafélagi Reykjavíkur vélina með öllu sem í henni var og tilheyrði eins og stóð í samningi sem skrifað var undir á staðnum. Þetta var í lok stríðsins þegar Kanarnir hentu miklu góssi fram af Stapanum, þannig að erindi hans í bakaríið var eiginlega að bjarga verðmætum. Björgunarstarfinu hélt hann svo áfram þegar Helgi var farinn.
Skarphéðinn hafði líka afskipti af annarri hrærivél, sú var ný, gul og ekki búið að merkja hernum. Eftir hádegi á föstudegi sagði hann vörubílstjóra sem var að flytja rör að hann ætti að draga vélina niður í Njarðvík og stilla henni upp við uppslátt sem þar var. Það á að steypa á morgun, sagði Skarpi. Hrærivélina seldi Skarphéðinn samdægurs, til Reykjavíkur gegnum síma. Aðspurður eftir á hvort hann hefði ekkert verið smeykur; nei, en mér brá svolítið þegar hún var komin til baka eftir mánuð en þá var hún orðin græn. Sameinaðir verktakar höfðu komið upp aðstöðu þarna á flugvellinum. Þar var mötuneyti, íbúðarskálar og verkstæði. Matsalurinn var nokkur hundruð fermetrar og voru flestir í mat þar eitthvað á annað þúsund sumarið 1955. Í miðju íbúðarskálanna var hreinlætisaðstaða og svo gangar í tvær áttir. Herbergin voru með átta kojum á tveim hæðum og virtist ekki fara illa um menn þarna. Svæði Verktakanna var afgirt og vörður í varðstöð þar sem var einhvers konar útvarpstöð þaðan sem hægt var kalla um kallkerfi sem einnig var hægt að tengja Ríkisútvarpinu eða plötuspilara. Eftir vinnu á kvöldin var oft farið í bíó. Þarna voru tvö bíó, annað rak herinn en hitt Bandarískir aðalverktakar sem voru vorið 56, Hedrick Grove, fyrirtæki sem hafði fengið það verkefni að færa öll þessi umsvif frá Metcalfe, Hamilton, Smitth and Beck Company til Íslenskra Aðalverktaka. Bíóið var í hverfi sem kallað var Seaweed en hét réttu nafni Contractors Camp og var eign verkfræðingasveita bandaríska landhersins.
Í hverfinu voru 96 íbúðaskálar sem hver rúmaði 24 menn og mötuneyti þar sem 2.000 menn gátu étið á klukkutíma. Hverfið var eins og lítill bær með verslun, veitingahúsum, bíói og tómstundasal sem Íslendingar höfðu aðgang að. Þar upplifði ég tvennt í fyrsta sinn á ævinni; át hamborgara og sá sjónvarp. Ekki höfðu Kanarnir meiri áhuga á sjónvarpinu en það, að nóg pláss var fyrir Íslendinga sem vildu kynnast þessu. Bíóin voru oftast fullsetin enda voru þar aðeins sýndar myndir í hæsta gæðaflokki. Við götuna inn í Contractors Camp var risastórt bílastæði, þar voru bílar og vinnuvélar í hundraðatali því mesti framkvæmdakúfurinn var að baki. Eitthvað af þessum vélum var sent til Bandaríkjanna, annað keyptu Íslendingar, m.a. Vitamálaskrifstofan og afganginn fengu Íslenskir Aðalverktakar. Vinnan í hangarnum var frekar leiðigjörn, sérstaklega þegar ég þurfti að sísnitta teina en þá snittaði ég þriggja feta teina enda á milli, svo söguðu pípararnir teinana í stutta búta þar sem það átti við.
Jóhann heitinn Valdimarsson pípulagningameistari kom oft á dag að sækja teina. Einu sinni heyrði ég einhvern hávaða fyrir utan skúrinn og þegar ég kíkti út sá ég sitt hvorum megin við tóma tunnu Jóhann og ameríska eftirlitsmanninn. Þeir voru að tala saman og talaði annar ensku en hinn íslensku, samtalið endaði með því að Jóhann sagðist ætla að reka alla helvítis Ameríkana í sjóinn og til áhersluauka barði hann með rörtönginni í tunnuna, rigningarvatn sem safnast hafði í tunnubotninn tókst á loft og rigndi yfir Kanann sem rennblotnaði, stökk upp í bíl og reykspólaði í burtu. Seinna um daginn kom nýr eftirlitsmaður sem sagðist hafa fengið fyrirmæli um að reyna ekki að kenna Jóhanni Valdimarssyni neitt því það væri nokkuð sem Bandaríski herinn réði ekki við. Einn daginn kom einn píparinn ekki í kaffi. Var hann nýkominn úr sveitinni og meig bara þar sem hann var hverju sinni. Nú hafði manninum orðið það á að míga utan í súlu þar sem stærsta rörtöngin stóð, hún var 60 tommu löng eða liðlega einn og hálfur metri, hlandið hafði slest á töngina, Jói Vald rak manninn fyrirvaralaust og var hann eftir þetta kallaður Maggi mígur. Oft voru á flugvélastæðinu herflugvélar sem var verið ferja yfir hafið, einu sinni var ein sem vopnaður vörður passaði, hann tók starfið alvarlega og gekk þráðbeint 24 skref í hvora átt.
Aftan við flugvélina var skurður sem Skarphéðinn var að vinna í. Pabba varð litið út um gluggann á skúrnum sá hann Skarpa skjótast upp úr skurðinum og skríða inn í flugvélina um op sem var neðan á búknum. Nokkru síðar skreið hann svo aftur ofan í skurðinn. Morguninn eftir spurði pabbi hvernig gengi í skurðinum, ágætlega en hún truflar svolítið þessi flugvél var svarið. Undir hangarnum eru leiðslugöng, þangað niður var ég sendur einn daginn til að skríða inn í rör til að sækja eitthvert verkfæri sem hafði gleymst í rörinu. Ofan í "tunnelnum" geymdu karlarnir ýmislegt sem þeir höfðu komist yfir og beið þess að vera flutt út af flugvellinum. Dótið var mest af haugunum og byggingarefnaafgangar. Einn safnaði sultukrukkum sem hann seldi sultugerð Sanitas og fóru krukkurnar með gosbílnum sem kom einu sinni í viku. Annar var rafvirki sem hafði lent í kröggum, hann safnaði vírendum sem hann skrældi og seldi til Kaupmannahafnar. Vírinn var borgaður með gulli sem kom til baka falið í slökkvitækjum. Tómstundaaðstaða Sameinaðra Verktaka var ekki eins vegleg og hjá Hamilton, samt undu menn sér þarna við þjóðlega iðju eins og að yrkja, tefla og taka í nefið. Hugi Hraunfjörð og Skagfirðingur nokkur kváðust á, fóru með fyrriparta og komu svo með seinnipartinn næsta kvöld. Allt er mér þetta gleymt nema einn bútur sem er svona: Leirhnoðsbullan lyddugjörn, liggur þar í leyni.
Frægastur var þessi tómstundasalur fyrir það að þarna hafði forstjóri Sameinaðra Verktaka, Guðmundur Einarsson, unnið rússneskan stórmeistara í fjöltefli.
Þegar Rússinn var kominn til Reykjavíkur var hann spurður um þetta tap, sagðist hann hafa verið hæddur um að verða lokaður inni á flugvellinum, betra að eiga Guðmund að ef það hefði átt breyta mér í pólitískan flóttamann. Krukkumaðurinn fór á "haugana" á hverju kvöldi, "haugarnir" voru í dæld niður við Contractors Camp, þarna var öllu rusli hent. Krukkumaðurinn átti merkilegan bíl, Dodge 40, sem afturendinn hafði ryðgað af. Eigandinn hafði smíðað nýjan afturenda sem fylgdi hurðalínunni að utan en að innan var trékassi með lóðréttum hliðum og á milli klæðninganna var svolítið bil sem hægt var að komast í með því að losa næstefstu fjölina. Eitt kvöldið fór ég með krukkumanninum á haugana, lítið var af krukkum en mikið af fatnaði og ýmsu dóti sem hermennirnir höfðu hent. Þeir urðu hálfóðir þegar nálgaðist þá stund sem þeir áttu að yfirgefa þennan ömurlega stað og hentu öllu sem þeir gátu verið án. Þarna undir einni hrúgunni var nýr og ónotaður jeppamótor. Á hann vantaði kveikju og karburator sem höfðu verið sett í annan mótor og svo hafði þessum verið hent í tiltektaræðinu. Á heimleiðinni áðum við í sjoppu sem var á bílastæðinu hjá tómstundaheimili Hamiltons. Inni í sjoppunni sat mafíuforingi í stífpressuðum fötum með bindi og hvítt um hálsinn. Það undarlega við þennan mann var að hann talaði lýtalausa íslensku og orðfærið var svipað og hjá þeim sem höfðu gengið í Samvinnu- eða Verslunarskólann. Krukkumaðurinn sagði: Sæll Siggi, getur þú selt mér jeppamótor. Jú, það mátti skoða það. Svo fóru þeir út að skoða mótorinn og mafíumaðurinn skrifaði á miða númerið á mótornum, svo fóru þeir inn í langan, svartan, amerískan fólksbíl sem stóð fyrir utan sjoppuna. Þarna handan við götuna var afgirt braggalengja og leit út eins útrýmingarbúðirnar Buchenwald. Ég stökk yfir götuna til að skoða hvað þetta væri. Við hliðið var varðskúr og á honum skilti sem á stóð: "For females only". Skyndilega birtist maður með kósakkahúfu og risastóra skammbyssu hangandi framan á brjóstinu, án þess að spyrja nokkurs sagði hann: Ef þú kemur þér ekki burt eins og skot lendirðu í miklum vandræðum. Ég skaust aftur yfir götuna. Inn um hliðarrúðuna á bílnum sá ég að þeir sátu við skrifborð og Siggi var að skrifa eitthvað á ritvél, svo tók hann blaðið úr vélinni, stimplaði og skrifaði undir. Krukkumaðurinn tók við baðinu og rétti hinum fimmhundruðkall. Á heimleiðinni sýndi hann mér blaðið þar sem stóð að hann hefði keypt notaðan jeppamótor af Sölunefndinni fyrir 300 krónur. Svo þurfti að borga Sigga 200 krónur í næturvinnuálag, sagði krukkumaðurinn þegar við kvöddumst. Í morgunkaffinu daginn eftir spurði ég Hjálmar hver hann hefði verið þessi með kósakkahúfuna. Blessaður, þetta hefur verið lögreglustjóri Hamiltons, Guðmundur Arngrímsson, hann verður alltaf pirraður þegar hann heldur að einhver sé að horfa á konur sem hann þykist eiga.
Hvað var hann að gera með þessa byssu? Ja, það voru hérna amerískir malbikunarmenn í fyrra og þeir áttu það til að drepa hver annan, þá lét hann sýna stríðsmynd í bíóinu, í myndinni voru einhverjir kósakkar að hálshöggva þýska hermenn. Daginn eftir mætti Gvendur með kósakkahúfu og byssu, Colt 65, sem hann fékk í verðlaun í FBI-skólanum, varð hæstur það árið. Eftir kaffið var ég sendur með Sigurjóni bílstjóra niður í Camp Nikel að sækja rör. Með okkur var maður úr Hafnarfirði sem var kallaður Belló og var sjómaður, rosalega snöggur að öllu sem hann gerði. Einu sinni var Belló á leið heim úr vinnu um fimmleytið. Sá hann þá fiskflutningabíl fyrir utan Mánabar, stakk hann hendinni undir yfirbreiðsluna og kippti með sér einni ýsu. Honum fannst ýsan ekki dingla rétt í hendinni og þegar hann var kominn fyrir hornið á Linnetsstíg ætlaði hann að skoða ýsuna sem ekki var nein ýsa heldur framhandleggur af kínverskum sjómanni sem hafði farist með olíuskipinu Clam. Fiskbíllinn hafði verið sendur eftir því sem fannst af Kínverjunum. Rörin sóttum við á gömlum hertrukk. Framan á trukknum var spil og bóma til að hífa rörin. Aftan í trukknum var flutningavagn sem við settum rörin á. Þarna í Camp Nikel átti að setja upp olíubirgðastöð, þess vegna voru sveru rörin geymd þarna. Vinnan gekk ágætlega en Belló var alltaf að reka mig frá, sagði að ég gæti farið í tvennt ef eitthvað klikkaði. Sigurjón fór þá að hlæja og sagði að þá yrði kjöt í helgarmatinn í Hafnarfirði. Þegar við fórum gegnum varðskúrinn um kvöldið rétti vörðurinn mér miða með skilaboðum frá Guðmundi í Lykkju, hann ætlaði að byrja slátt í næstu viku. Um helgina fengum við far með Jóhanni Valdimarssyni sem átti jeppa. Jóhann hafði keypt risastóra viskíflösku af manni sem hafði unnið hana í bingó hjá Hamilton. Flaskan var of stór fyrir leynihólfið í jeppagrindinni, karlinn skorðaði hana milli framsætanna. Þegar við komum í hliðið vorum við stoppaðir og lögreglumaðurinn bað okkur um að fara út því hann ætlaði að leita í bílnum.
Jóhann brást hinn versti við og spurði manninn hvort hann væri búinn að tapa vitinu, á eftir okkur væri rúta með áttatíu mönnum sem þyrftu að bíða eftir því að hann væri að leita að einhverju sem ekki væri til. Skildir þú þetta? Ef ekki, þá skilurðu ekkert. Aumingja lögreglumaðurinn varð alveg ruglaður við þessa leifturárás og leyfði okkur að halda áfram. Klukkan fimm á mánudag tók ég svo rútuna upp á Kjalarnes.
Höfundur er tæknifræðingur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning