Menntamál

ÍSLENDINGAR litu lengi upp til prestanna sem létu að því liggja að þeir væru hluti af einhverju æðra valdi. Vitað var að þeir komu úr prestaskólum og síðan hefir verið talið fínt að ganga í skóla. Flottastir þykja þeir sem útskrifast með doktorsgráðu um fertugt. Öldum saman hófu margir starfsnám tólf til fjórtán ára gamlir, meðfram vinnunni gengu þeir í kvöldskóla sem reknir voru af samtökum atvinnurekenda og urðu býsna góðir fagmenn á ýmsum sviðum. Nú er skólaskylda á Íslandi til sextán ára aldurs og þá tekur framhaldsskólinn við. Undir tvítugt tekur ævistarfið svo við en þá hefir nemandinn oft týnt sínum bestu þjálfunarárum í tilgangslitla setu yfir bókum sem hann hefir lítinn áhuga á. Nú er kvartað yfir því að fólk frá Austur-Evrópu sé að taka vinnu frá Íslendingum og hvers vegna skyldi það nú vera? Þessir erlendu menn hafa vaxið úr grasi í skólakerfi þar sem kennurum er umsvifalaust vikið úr starfi ef þeir mæta ekki til starfa á réttum tíma. Þegar dæmið er gert upp, kemur í ljós að erlendu starfsmennirnir skila oft fjórðungi meiri afköstum en Íslendingar. Miðlungs framhaldsskólakennari útskrifar að jafnaði 10 nemendur á ári eða 400 yfir ævina. Ef nú 10% af ævistarfi þessara nemenda verða að engu vegna hyskni kennarans verður samfélagið af u.þ.b. 6 þúsund milljónum króna. Ef vextirnir eru reiknaðir með verða þetta 12 milljarðar eða álíka mikið og kostar að tvöfalda veginn frá Reykjavík austur á Selfoss. Er eitthvað hægt að gera til að koma þessu í betra horf? Lausn á vandanum getur falist í því að fyrirtækjum verði gert skylt að taka nemendur í starfsnám að lokinni fyrstu önn í framhaldsskóla. Það er nefnilega svo að á aldrinum tólf til tuttugu ára er mannskepnan næmust og því hrein eyðilegging á mörgu fólki að láta það sitja yfir bókum sér og öðrum til ama. Á Nörrebro, þeim nú frægasta hluta Kaupmannahafnar, er heljarmikill verknámsskóli. Þangað eru sendir 13–14 ára "tornæmir" unglingar úr nálægum grunnskólum. Yfirmenn í þessum verknámsskóla hafa greint frá því að líf hinna "tornæmu" taki oftast nýja stefnu, þegar þeir eru ekkert lélegri en hinir nemendurnir þegar kemur að smíðunum. Nú eru margir unglingar sem vinna m.a. í stórmörkuðum með skóla og er amast við því. Hvernig væri nú að yfirvöld gæfu út ferilbækur fyrir unglinga þar sem þeir skrá vinnutíma og vinnuveitendur gefa einkunn fyrir frammistöðu. Það er spurning hvort 100 klst. á kassa í Bónus eru ekki betra vegarnesti út í lífið en tvær einingar í dönsku eða íslenskri málfræði.

GESTUR GUNNARSSON

tæknifræðingur,

Flókagötu 8, Reykjavík.

Frá Gesti Gunnarssyni


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband